08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þess, sem hér hefur komið fram.

Það er í fyrsta lagi út af því sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði áðan. Hann lýsti óánægju sinni yfir því, hversu þessi till. væri þröng að því er verkefni varðaði. Vissulega er alltaf spurning hvað á að taka fyrir mikið, þegar verið er að gera ráð fyrir að fá hreyfingu á mál. Niðurstaða okkar, sem að þessari þáltill. stöndum, var sú, að rétt væri að afmarka þetta að þessu sinni fyrst og fremst við þá staði á Vestfjörðum sem hinar stóru flugvélar Flugleiða hafa áætlunarflug til. Ég skal taka það fram fyrir mitt leyti, að þetta er mér ekki fast í hendi að því er þetta varðar. Þetta er bara spurning um mat á því, hvað sé líklegast að ná fram, hvort það næst fremur fram með því að reyna að afmarka viðfangsefnið við tiltölulega fá atriði heldur en að taka það í víðari merkingu. Þetta er fyrst og fremst það sem að þessu snýr.

En ég vil aðeins segja út af því, sem hann sagði í áframhaldi af þessu, þar sem hann var að tala um að verið væri að biðja um fjármagn fyrir Vestfirði alla, að ég tel, að í raun og veru sé ekki um fjármagnsbeiðni í merkingu þess orðs að ræða. Hér er ekki verið að tala um framkvæmdir, Hér er aðeins verið að biðja um að þetta verði athugað, þessir möguleikar á því að ráða bót á þeim vandamálum sem uppi eru.

Þá vék hann að 2. liðnum, að þar væri í raun og veru verið að slá föstu að það væru aðeins tveir staðir sem kæmu til greina sem varaflugvellir fyrir Ísafjarðarflugvöll. Að því er þetta varðar skal ég ekki um það segja. Ég lít svo á fyrst og fremst, að annar hvor þessara staða og þá í mínum huga kannske fremur flugvöllurinn í Holti í Önundarfirði heldur en í Bolungarvík, væri líklegur til að geta þjónað þessu verkefni. Það má vel vera að það sé um fleiri staði á Vestfjörðum að ræða heldur en þarna er getið. En að því er ég best veit og af þeirri vitneskju, sem ég hef um þetta fengið; eins og ég sagði áðan, þá telja þeir aðilar, sem kannske frekast vita um þetta, þ.e.a.s. flugstjórar sem á þessari leið hafa flogið líklegast að Önundarfjörður yrði fyrir valinu og mundi þjóna best þessu markmiði, að vera varaflugvöllur fyrir Ísafjörð. Ég skal taka það fram fyrir mitt leyti, að ekki hef ég á móti því að orðalag yrði rýmkað að því er varðar þessi atriði. Það er mér ekki fast í hendi.

Þá kem ég að hv. 5. þm. Suðurl. Það má vissulega segja um hann, að hið gamla máltæki: „skjótt skipast veður í lofti“, á vel við hann. Það var allt önnur og í allt öðrum dúr sú ræða, sem hann flutti nú í hið síðara sinni, heldur en var í hið fyrsta sinn, og ég kann vel að meta það. Mönnum getur alltaf orðið á í messunni, ekki síst kappsfullum mönnum sem eru fullir ákafa og með ferskt blóð í æðum og vilja hafa sem skjótastan framgang á sínu máli sem og öðru í sambandi við þessa hluti. En mér fannst allt annað að hlýða á þessa seinni ræðu hv. þm. heldur en var fyrr í dag. En þó bryddaði á því eigi að síður undir lok ræðunnar, eins og mér finnst æðioft koma fyrir þennan hv. þm., að hversu gott sem upphafið er í hans ræðu, þá vill endirinn alltaf fara á skjön við byrjunina. Það er að nokkru leyti rétt hjá þessum hv. þm., að hann byrjaði á því í upphafi sinnar fyrri ræðu að tala í stuðningstón um till. En allt það, sem þar kom á eftir, voru aðfinnslur og mótbárur í einu og öðru formi við það sem till. fjallar um, og eftir að hafa hlýtt nokkuð lengi á mál í þessum dúr, þá kannske freistast maður til þess að hafa fyrst og fremst í huga og kannske taka fyrst og fremst mark á því sem fram kemur eftir að fyrri hluta ræðu sleppir og menn fara að tala af meiri áhuga, kannske sanngirni líka og þekkingu á viðkomandi máli. En fyrir þetta hefur hv. þm, nú bætt með seinni ræðu sinni að verulegu leyti. Og hverju sem það er að þakka að svo hefur gerst, þá er það að vissu leyti þakkarvert. Vel má vera að við hefðum losnað við þessa fyrri ræðu í þeim dúr, sem hún var, hefði t.d. hv. þm. Kjartan Ólafsson talað á undan hv. 5. þm. Suðurl. Með því hefði lausnin fengist varðandi fyrri ræðuna. En ég skal ekki orðlengja um það. Ég fagna þessum breyttu viðhorfum að því er varðar afstöðu hv. 5. þm. Suðurl. til málsins.

En það eru aðeins örfá atriði sem mig langar til að gera aths. við í hinni seinni ræðu hv. þm. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þeir — ég taldi þá að þar væri hann að tala um flugráð — sem gerðu till. í þessum málum, þeir reyndu að raða málunum í forgangsröð. Og þá spyr ég, af því að það, sem við erum hér að tala um varðar Vestfirði: Í hvaða forgangsröð eru Vestfirðir að þessu leytinu til að mati þeirra flugráðsmanna? Hvar í röðinni eru Vestfirðir að því er varðar úrbætur og átak til úrbóta í sambandi við flugsamgöngur við Vestfirði? Hvar í röðinni eru þeir? Ef það er svo, sem ég vil ekki á móti bera, að flugráð raði málefnum í forgangsröð, þá vil ég fá að vita hvar þeir aðilar hafa sett Vestfirði í þessu tilliti. Hvenær kemur að þeim, að þeir fái raunverulegt átak til úrbóta í flugsamgöngum? Þetta er meinleysisleg spurning, sem vel ætti að vera hægt að gefa svar við hér á þessum fundi og við þessa umr.

Þá sagði líka hv. 5. þm. Suðurl., þegar hann var að tala um að ég hefði fullyrt það hér, að hann hefði látið að því liggja í sinni fyrri ræðu að hann vildi hafa rýmra um orðalagið, og ég sagði áðan, að ég hefði skilið hann svo að það hefði mátt orða upphaf till. á þá leið að gera eitthvað til úrbóta varðandi flugsamgöngur við Vestfirði, — hann sagði, að það væri komið nóg af slíkum till. hér, og minnti m.a. á till. um nefnd um kosningalögin, þ.e.a.s. þá þáltill. sem hans eigin flokksbræður flytja hér á hv. Alþ. um að gera bara þetta eða hitt, eins og hann orðaði það. Hér er fyrst og fremst um að ræða ádrepu að hans mati og frá hans hálfu til þeirra fimm hv. þm. Alþb., flokksbræðra hans, sem standa að tillöguflutningnum um að kosin verði n. til þess að athuga kosningalögin. Hann telur þetta bara eitthvert fálm hjá þessum hv. þm., fyrrv. formanni Alþb. meira að segja, hv. þm. Ragnari Arnalds, hér sé bara verið að gera till. um hitt eða þetta, eitthvað. Auðvitað er það mér að meinalausu þó að hann hirti flokksbræður sína með þessum hætti í umr. á Alþ. En ég er ekki viss um að þetta sé í alla staði rétt hjá hv. þm. Ég vil að sumu leyti taka upp hanskann fyrir flokksbræður hans fimm að því er þetta mál varðar. Ég hugsa að þeir meini eitthvað með þessu, en hér sé ekki bara um sýndarmennsku eða einhvers konar hitt og þetta að ræða í tillöguflutningnum. Þetta á auðvitað ekkert skylt við það mál sem hér er til umr., en af því að hv. þm. vék að þessu, þá er ástæða til að vekja á því athygli hvernig hann metur tillöguflutning sinna eigin flokksbræðra í þessu efni hér á Alþingi.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð hér um. Ég ítreka það, að það er vissulega von okkar flm., sem að þessari þáltill. stöndum, að hún fái skjótan og jákvæðan framgang hér í þinginu þannig að hægt verði að framkvæma þessa athugun á komandi ári og hafa hliðsjón af henni í sambandi við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1979. Ég veit ekki hvort sá hv. þm., sem fram í greip, hv. þm. Stefán Jónsson, ræður einfarið um það, hver endanleg afgreiðsla þessarar till. verður. En treysti hann sér til að tryggja framgang hennar gegn því að við tölum ekki meira um hana, þá skal ég hér með láta máli mínu lokið. En þá bíð ég efndanna hjá honum. Umr. (atkvgr.) frestað.