09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm., sem hafa tekið vel undir þessa þáltill., fyrir orð þeirra, og ég verð að segja það, að ég þakka þeim hv. þm. sem „nenna“ að sitja undir því að hlýða á og hugsa um þessi mál. Það er kannske tímanna tákn, hvað fáir hv. þm, hafa raunverulega áhuga á að sitja undirframsögu um þessa till., og mér finnst það einmitt undirstrika þörfina fyrir að þetta mál sé tekið til meðferðar, ekki bara á hv. Alþ., heldur einnig úti í þjóðlífinu, með þeim hætti sem kom fram í ræðum hv. þm. Benedikts Gröndals og Lúðvíks Jósepssonar. Það er greinilegt, held ég, að margir hv. þm. hafa ekki gert sér grein fyrir því, hvert stefnir í þessum málum. Hvort það stafar af áhugaleysi eða skorti á því að vera í eðlilegum tengslum við það þjóðlíf, sem við búum við, skal ég ekki segja um. Hins vegar hlýt ég að segja það hér og nú, að það hefði verið full ástæða til þess að fleiri þm. hefðu verið hér við umr. og tjáð sig um þetta mál.

Það var nefnilega mjög rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar þegar hann kom inn á stöðu skólakerfisins í sambandi við þetta mál. Þetta tvennt, annars vegar spár um möguleika ungs fólks í sambandi við atvinnu útí í atvinnulífinu og hins vegar þróunin í skólakerfinu, þetta tvennt á að haldast í hendur. En það gerir það raunverulega ekki í dag. Það, sem hefur skeð að mínu mati á Íslandi á undanförnum áratugum, er að skólakerfið hefur þróast sjálfstætt án eða með litlu tilliti til þeirra atvinnugreina, sem hér hafa helst verið til umr., og einnig með tilliti til þess, hvert ætti að stefna í þessum málum.

Því miður óttast ég að á næstu árum muni koma berlega í ljós, að fjöldinn allur af þeim mönnum, sem eru við framhaldsskólanám, muni ekki fá starf við sitt hæfi. Hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, minntist á það áðan, að erlendis flökkuðu þúsundir eða tugir þúsunda unglinga atvinnulausir um álfuna, hefðu ekkert stefnumark og byggju við algert vonleysi. Þetta er ungt fólk sem hefur lokið langskólanámi og hvergi fengið atvinnu og getur ekki aðlagast því að vinna við störf sem sumir kalla að taka niður fyrir sig, að vinna annað en það sem flokkast undir starf sem byggist á háskólamenntun. Ég hef satt að segja aldrei skilið það hugtak að taka niður fyrir sig í þeim skilningi, að menntamaður gæti ekki unnið önnur störf. Ég efa það ekki að ungt fólk hér á Íslandi muni taka til höndunum og vinna önnur störf en krefjast langskólanáms, en hins vegar óttast ég að þeir möguleikar verði ekki fyrir hendi.

Hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sagði í ræðu sinni að það gæti verið erfitt að gera þá athugun sem þáltill. gerir ráð fyrir. Ég segi það fyrir mitt leyti, að það er ekkert erfitt að gera athuganir. Það getur hins vegar orðið erfiðara að setja markmiðin, hvort sem er um lengri tíma markmið eða styttri tíma markmið að ræða, og það er vegna þess að skólakerfið er í miklu ósamræmi við raunverulega grundvallaratvinnuvegi íslensku þjóðarinnar, svo ekki sé talað um það, að skólakerfið gerir ekki ráð fyrir því að geta átt frumkvæði að möguleikum á öðrum sviðum atvinnulífs. Ég held að áhrif skólamanna hafi verið of sterk í sambandi við uppbyggingu skólakerfisins og þar hafi vantað sjónarmið forustumanna atvinnulífsins eða þeirra sem eru í nánum tengslum við það.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson talaði einnig um það, að á undangengnum árum hefði óeðlilega mikill fjöldi manna farið í svokallaða þjónustustarfsemi. Ég vil gera greinarmun á því, hvers eðlis þjónustustarfsemin er. Það er hægt að flokka þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera annars vegar og þjónustustarfsemi úti í atvinnulífinu hins vegar. Ef við flokkum þetta á svo einfaldan hátt, þá þori ég að fullyrða, án þess að ég hafi tölur hér við höndina, að megin þorri þess fólksstraums, sem hér er um að ræða, hafi verið í störfum hjá hinu opinbera, en ekki í þjónustustörfum úti í atvinnulífinu, ef undan eru skilin tvö mjög veigamikil svið, sem eru annars vegar flugþjónusta og hins vegar þjónusta við ferðafólk. Þetta tvennt hefur þróast hérlendis á síðustu tveimur áratugum. Ég tel að það unga fólk, sem hefur streymt í flugþjónustuna, hafi unnið mjög gott starf í þágu íslensku þjóðarinnar, en því miður eru þeir atvinnumöguleikar að mettast að miklu leyti, nema því aðeins að okkur takist að byggja okkur upp áfram með jafnöflugum hætti og Flugleiðum hefur tekist og Cargolux í alþjóðlegri þjónustu. Ég vona satt að segja að sú þróun geti haldið áfram, því að hjá þessum tveimur fyrirtækjum vinna hundruð ungra manna og kvenna, bæði hér heima og erlendis, þannig að þessi tegund þjónustustarfsemi mundi flokkast undir það sem æskilegt er. Hið sama má segja um þjónustu við ferðamenn að vissu marki, og ætla ég ekki að fara nánar út í það. En ég hef fyrirvara á því, hversu langt Íslendingar eiga að ganga í þeim efnum með tilliti til þeirra sjónarmiða, hvernig ber að reyna að vernda landið og varðveita þjóðlega stöðu. Ég er einn af þeim sem aðhyllast svo gamaldags hugsunarhátt, að ég tel að það sé ekki endilega æskilegt markmið í sjálfu sér að hér fyllist allt af erlendum ferðamönnum, jafnvel svo mikið að meginþorri þjóðarinnar ætti að þjóna þeim ákveðinn stuttan tíma á ári. En að vissu marki er æskilegt að örva hér þjónustu við ferðamenn.

Um það, hvaða framtíðarmarkmið við ættum að setja okkur í sambandi við atvinnuuppbyggingu í framtíðinni, þá get ég tekið undir orð hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að það ber auðvitað að efla vinnslu sjávarafurða, Ég er einnig sammála honum í því, — og það kom mér á óvart vegna þess sem áður hefur komið fram, að í sambandi við vinnslu sjávarafurða eða sjávarfangs væru minnkandi möguleikar á atvinnusviðinu, — að það hefur komið í ljós að svo er ekki. Það var sagt fyrir nokkrum árum, bæði af sérfræðingum og jafnvel forustumönnum sjávarútvegs og fiskiðnaðar, að möguleikar væru ekki miklir í sambandi við sjávarútveg og fiskiðnað fyrir fleira ungt fólk, þar værum við raunverulega búnir að ná því marki að þetta væri mettað. En það hefur nú komið í ljós, sem betur fer, að svo var ekki. Ég held að það séu miklir möguleikar fyrir hendi í sambandi við frekari vinnslu fisks í salt, í þurrvinnslu, og þar geti komið til greina jafnvel umbylting frá því sem nú er, þannig að þar ættu að vera miklir möguleikar fyrir mikinn fjölda ungs fólks. En til þess að þessir möguleikar skapist með eðlilegum hætti þarf auðvitað að vinna með öðrum hætti en gert hefur verið að því að kynna ungu fólki möguleikana í íslenskum atvinnuvegum og örva það til þess að hafa áhuga á að vinna við þá atvinnuhætti sem íslenskt þjóðfélag býður. Það skortir algjörlega í framhaldsskólunum. Ég ætla ekki að koma hér með reynslusögu, en hins vegar veit ég mjög vel, að það er ekkert gert að því eða sáralítið í framhaldsskólunum, og á ég þar sérstaklega við menntaskólana, sem miðar í þá átt að telja nemendum trú um eða alla vega láta þá fá á tilfinninguna, að það sé verðugt og gott verkefni að vinna í sjávarútvegi, fiskiðnaði eða í öðrum greinum almennt. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á hið bóklega nám og markmið því tengt, sem að sjálfsögðu þýðir að þeir, sem taka stúdentspróf, stefna fyrst og fremst á háskólasvið eða þá á mjög þröngt sérsvið.

Þarna tel ég að séu miklir möguleikar. Það er ekki nokkur vafi á því, að hin aukna tækni í sambandi við sjávarútveg skapar ungu fólki enn frekari möguleika á ákveðnum þjónustusviðum í tengslum við sjávarútveg, þar sem krafist er mikillar þekkingar og góðrar menntunar. Á það sérstaklega við í sambandi við þau háþróuðu tæki sem notuð eru við nútímaveiðar.

En þetta er ekki nóg. Það þarf að finna ný svið og það þarf að leita nýrra möguleika. Mér hefur oft dottið í hug, hvort það gæti ekki komið til greina að gerðar yrðu ákveðnar áætlanir sem fælu það í sér, að teknir væru út úr skólakerfinu 10–20 nemendur á ári svona í 10 ár fram í tímann og kostaðir algjörlega til frekara náms á nýjum sviðum erlendis. Námið gæti verið bóklegt og verklegt. Aðalatriðið væri að þetta unga fólk leitaði eftir nýjum verkefnum og nýjum möguleikum. Og þetta nám væri kostað af íslenska ríkinu að öllu leyti. Það þýddi að á hverju ári færu e.t.v. 10–20 manns, úrvalsnemendur úr ákveðnum skólum, iðnskólum, menntaskólum og háskólanum, til að leita nýrra fanga og sjá nýja möguleika. Þetta gerðist með óbeinum hætti þegar ungir og duglegir menn fóru utan og lærðu flug. Það var á áratugnum frá 1940–1950. Það var vaxtarbroddurinn að því sem síðar varð. Þeir gerðu þetta af eigin rammleik og þó með nokkrum stuðningi, og þeir skópu nýja atvinnumöguleika. Ég er sannfærður um að ef við gerðum eitthvað í þeim efnum sem ég gat um áðan, að senda beinlínis á erlendan vettvang ungt fólk til þess að leita möguleika á nýjum sviðum, eru óþrjótandi tækifæri fyrir aukna atvinnumöguleika ungs fólks.

Ég vil þakka fyrir undirtektir og vænti þess, eins og aðrir sem hér hafa talað, að þessi þáltill. fái skjóta afgreiðslu í nefnd.