12.12.1977
Efri deild: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. þykir mér rétt að rifja upp nokkur atriði varðandi fréttaflutning Ríkisútvarpsins. Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins er nokkuð sérstaks eðlis og þess vegna gagnrýndur meira en t.d. fréttir blaðanna. Um hann gilda sérstök fyrirmæli í útvarpslögunum og í reglunum sem settar hafa verið samkv. þeim lögum, svo að menn ættu kannske að hafa nokkuð fast undir fótum að þessu leyti. En um þetta gildir þó ekki síður en um aðra hluti, að flest orkar tvímælis o.s.frv.

Ég vil fyrst minna á það, að í 3. gr. útvarpslaganna segir m.a., að það, útvarpið, skuli , kappkosta að halda uppi rökræðum um hvers konar málefni, sem almenning varða, á þann hátt, að menn geti gert sér grein fyrir mismunandi skoðunum um þau. Það skal halda uppi fréttaþjónustu og veita fréttaskýringar“ o.s.frv. Og enn segir í þessari gr.; „Ríkisútvarpið skal í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Það skal virða tjáningarfrelsi og gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum, stofnunum, félögum og einstaklingum.“

Síðan segir í 4. gr. m.a.: „Útvarpsstjóri undirbýr og stjórnar framkvæmd dagskrár og gætir þess, að settum reglum um hana sé fylgt. Útvarpsstjóri gefur út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi, þ. á m. auglýsingatíma, að fengnu samþykki útvarpsráðs:.“ Og enn ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til 6. gr., en hún hljóðar svo:

„Útvarpsráð tekur ákvarðanir um, hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum, og leggur fullnaðarsamþykki á dagskrá áður en hún kemur til framkvæmda. Ráðið setur reglur eins og þurfa þykir til gæslu þess, að fylgt sé ákvæðum 3. gr. Ákvarðanir útvarpsráðs um útvarpsefni eru endanlegar.“

Svo minni ég á, að í IV. kafla laganna er fjallað um ábyrgð á útvarpsefni, og eru nokkuð ítarleg ákvæði um þetta í þeim kafla. Treysti ég mér ekki tímans vegna til þess að rekja þau.

Þá vil ég rifja það upp í framhaldi af þessu, að í reglugerð um Ríkisútvarp segir í 15. gr. í IV. kafla, sem fjallar um fréttir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisútvarpið flytur fréttir og fréttaauka um hvað eina, sem að dómi fréttastofu hljóðvarps eða sjónvarps hefur almennt fréttagildi.

Fréttir þær, sem Ríkisútvarpið flytur af eigin hvötum og á eigin ábyrgð, mega ekki vera blandnar neins konar ádeilum eða hlutsömum umsögnum, heldur skal gætt fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum, stofnunum, félögum eða einstaklingum.

Ekki mega í fréttum útvarpsins felast auglýsingar eða tilkynningar, nema þær varði starfsemi Ríkisútvarpsins sjálfs.

Fréttaskýringar ber að afmarka greinilega frá fréttum og skal ávallt kynnt nafn höfundar slíkra skýringa.

Við skráningu frétta skal þess jafnan gætt, að heimildir séu sem fyllstar og óyggjandi. Ríkisútvarpið verður ávallt að vera reiðubúið til að gera grein fyrir heimildum frétta," segir í reglugerðinni.

Í þeim reglum, sem vikið var að í lagagr. sem ég vitnaði til áðan, reglum um fréttaflutning Ríkisútvarpsins sem útvarpsstjóri setur, eru þessi sömu atriði og ég nú las úr reglugerðinni áréttuð og útfærð nánar. En það væri allt of langt mál að fara að rekja það eða rifja upp í einstökum atriðum hér. Ég mun þá heldur ekki af mörgum og hv, þm. auðvitað auðskiljanlegum ástæðum gera tilraun til þess að brjóta til mergjar tilvitnun í ákvæði laga og reglugerða, en ég vil í þessu sambandi vekja athygli á tvennu:

Fyrst er það, að ekki virðist gert ráð fyrir að ráðh. hafi afskipti af vali efnis og meðferð þess. Mér sýnist það ofurskiljanlegt og raunar eðlilegt í alla staði.

Ég vil láta það koma fram, að þann tíma, sem ég hef starfað í menntmrn., hefur nokkrum sinnum verið kvartað við mig um efnismeðferð, einkum í fréttum og í samtalsþáttum. Einnig hefur mér sjálfum nokkrum sinnum sýnst sem mistök hafi átt sér stað. Ég hef þá jafnan í báðum þessum tilvikum komið kvörtunum áleiðis munnlega til útvarpsstjóra ellegar til fréttastofanna án þess að gefa nokkur fyrirmæli sem ráðh. Í einstöku tilvikum hefur verið um að ræða beinar leiðréttingar og þá hefur þeim óðar í bili verið komið á framfæri í útvarpi eða sjónvarpi, eftir því sem við hefur átt. Og ég vil taka það fram sérstaklega í sambandi við þetta, sem mér fannst rétt að skýra frá, að ég hef aldrei fengið skriflega umkvörtun um þetta efni né heldur gefið út bréf um það.

Eins og ég gat um áðan, segir í 6. gr. útvarpslaganna, og vil ég minna á það aftur, að útvarpsráð tekur ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum, leggur fullnaðarsamþykkt á dagskrá, áður en hún kemur til framkvæmda, og svo þetta: ráðið setur reglur eins og þurfa þykir til gæslu þess að fylgt sé ákvæðum 3. gr, Ákvarðanir útvarpsráðs um útvarpsefni eru endanlegar. Með hliðsjón af þessu ákvæði lít ég svo á, að endanlegt úrskurðarvald um útvarpsefni og meðferð þess sé hjá útvarpsstjóra og útvarpsráði, þ.e.a.s. innan stofnunarinnar, svo fremi að ekki komi til málsóknar, sbr. ákvæði IV. kafla um ábyrgð á útvarpsefni. En auðvitað getur það átt sér stað varðandi þetta mál eins og flest önnur deilumál sem upp koma í þjóðfélaginu.

Hitt atriðið, sem ég vildi vekja sérstaka athygli á, er að í tilvitnuðum lagagreinum er sagt að útvarpið skuli halda uppi rökræðum til þess að fá fram ólík sjónarmið um málefni sem almenning varða. Þetta er efnislega svo, en ekki orðrétt tilvitnun. Einnig er þar sú kvöð, að útvarpið skuli halda uppi fréttaþjónustu og veita fréttaskýringar. Ef maður fer að velta fyrir sér þessum ákvæðum, þá sýnist mér a.m.k. að þessi ákvæði leggi þær kvaðir á herðar stofnunarinnar og starfsfólksins sem aldrei verða uppfylltar svo að öllum líki í öllum tilvikum. Ég held að það sé efni málsins samkv. útilokað. Sé þetta rétt skilið, þá er auðvitað óhjákvæmilegt að kom.i til gagnrýni meira og minna, sem er staðreynd, þá ber auðvitað báðum, bæði gagnrýnendum og þeim, sem gagnrýndir eru, þ.e.a.s. útvarpsfólkinu, að íhuga málið, ég vil segja í rólegheitum og leita sameiginlegrar niðurstöðu, — nema málsatvik þyki svo alvarleg frá annarri hvorri hliðinni, að það þurfi að leita úrskurðar dómstóla. Þetta vildi ég rifja upp, bæði þessi fyrirmæli og svo minn skilning á þeim.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. varpaði fram þremur spurningum:

Í fyrsta lagi hvaða aðili það sé sem skuli fylgjast með því, að hlýtt sé ákvæðum útvarpslaganna og reglugerða. Svar við því er í rauninni þegar komið fram í mínu máli.

Þá spurði hann um það, hvort þessir sérstöku fréttatímar hefðu verið teknir til meðferðar eða ræddir innan stofnunarinnar og sérstakar ráðstafanir gerðar til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig, eða hvernig hann nú orðaði það. Ég hef haft frekar nauman tíma til að kynna mér þetta frá því að ég frétti af þessari væntanlegu fsp. eða umr. utan dagskrár. En ég hygg þó að ekki hafi verið gerðar sérstakar ráðstafanir innan stofnunarinnar í sambandi við þessa fréttatíma.

Þar sem annars vegar menntmrh. er yfirmaður Ríkisútvarpsins samkv. lögum, það heyrir undir menntmrn. og ráðh., og hins vegar að ég tel ekki að mér beri sem ráðh. að fjalla um og því síður að úrskurða um meðferð efnis í útvarpi, heldur sé það útvarpsráðs og útvarpsstjóra, sbr. tilvilnað, þá mun ég ekki fjölyrða um þessa þætti sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni. En ég get þó sagt það, að persónulega þykir mér það óviðfelldið að fyrirspyrjendur í fréttatímum taki barða afstöðu í spurningum sínum, t.d.: „Er þetta ekki tilræði við skynsamlegt mataræði?“ eins og mig minnir að spurt væri, ég er ekki viss um að hafa það orðrétt, og orðrétt: „Hefði ekki verið hægt að fara einhverjar heilsusamlegri leiðir?“ Mér finnst þetta ekki viðkunnanlegt.

En um þetta kunna nú samt að vera deildar meiningar, og má t.d. benda á það, að spurning, sem er borin fram að viðstöddum aðila, sem þá er þess umkominn að gefa svar, er náttúrlega annað en umsögn.

Mér þykir það auðvitað í hæsta máta eðlileg ósk eða krafa, að það sé jafnan reynt í öllum fréttaflutningi útvarpsins að gæta nokkurs samræmis í frásögnum af hliðstæðum atriðum, við skulum segja eins og verðhækkunum hinna ýmsu vara, t.d. hinna ýmsu matvæla, þó ég auðvitað viðurkenni að erfitt er að fullyrða nákvæmlega hvað sé hliðstætt og hvað sé ekki hliðstætt, því að margt getur blandast þar inn í og m.a. mat á mismunandi fréttagildi þeirra upplýsinga sem um er að ræða hverju sinni, svo að allt er þetta nokkuð afstætt. En það tel ég ákaflega mikils vert og raunar grundvallaratriði — og það vil ég gjarnan láta koma hér fram — að tryggja ætíð mismunandi sjónarmiðum rúm í ríkisfjölmiðlunum. Og í umræddum fréttatímum og samtalsþáttum komu vissulega fram fulltrúar tveggja sjónarmiða.

Ég held, að það sé ekki nokkur vafi á því, að útvarpinu er hér mikill vandi á höndum, og hvort tveggja er jafnillt, tel ég, að gagnrýnendur gangi á það lagið með óbilgirni, að þarna verður lengi hægt um að deila, og svo hins vegar það, og það væri náttúrlega ekki betra, ef starfsfólk útvarpsins skellti skollaeyrum við gagnrýninni af sömu ástæðum og varaði einfaldlega, að enginn geri svo að öllum líki! Þetta er hvorugt gott, heldur verða menn að reyna að leggja sig í líma að komast að sameiginlegum niðurstöðum um svona hluti, þó að það kunni að kosta nokkra vafninga og umræður.

Mig undrar það ekki, þó að íslenskir bændur eða fulltrúar þeirra snúist til varnar gegn þeim gífurlega áróðri sem beitt hefur verið á síðustu missirum gegn þeim, gegn þeirra atvinnuvegi og framleiðsluvörum þeirra sérstaklega, og þá á ég við blaðaskrif margvísleg þeirra sem ég vil kalla skillitla orðháka, menn sem slíta úr samhengi einstök atriði og þvarga um þau í blöðum daginn út og daginn inn og til þess að koma þessum áróðri sem best til skila er valið leiðaraformið. Það er náttúrlega von að menn velti því fyrir sér, hvort kannske sé brotið hlutleysi útvarpsins í gegnum leiðaralesturinn. En það er ákaflega erfitt að setja þar við skorður sem ekki verði að fundið. En það er eðlilegt að menn velti þessu fyrir sér.

Og nú er þetta nýjasta nýtt og kom að nokkru leyti fram í þessum tímum sem hér er rætt um, að bændum beri að verðleggja vörur sínar á læknisfræðilegum forsendum! Þetta finnst mér afskaplega langsótt. Bæði fer því fjarri að allir fræðingar séu þar á einu máli um hollustuna, en auk þess man ég nú ekki dæmi, — það má vel vera að það sé misminni, — ég veit ekki dæmi til þess að slíks hafi verið krafist af nokkurri annarri matvælaframleiðslu að verðleggja í samræmi við hollustu. Og ég held að það sé mjög erfitt, m.a. af því að það er svo erfitt að fá alveg ákveðinn úrskurð um hollustuna.

Ég ætla nú ekkert að fara að ræða um þessa heilbrigðishætti. En ég vil þó með fullri virðingu fyrir læknavísindum nútímans minna á lýsingu sem séra Sigurjón á Kirkjubæ gaf á sínum tíma um afleiðingar þess þegar stofnað var rjómabú og bændur kepptust við að selja rjómann í rjómabúið og höfðu undanrennu eftir heima. Þá komu til glanslegir mjólkurbrúsar í fyrsta skiptið og þá orti prestur:

„Senda á silfurdunk

svolítinn rjómaslunk,

fitu úr fjósnytjum alla.

Fyrir það flestir menn

fá ekki annað en

horlopa, skyrbjúg og skalla.“

En að slepptu öllu gamni, og þó felst í þessu alvara einnig þá er orðin hefð að nota þennan rétt sinn til þess að mæla hér utan dagskrár, — það er orðin hefð að alþm. noti þennan rétt til þess að vekja athygli á málum sem þeir telja mikilsvert að hreyfa á áberandi hátt og jafnframt þá að leita upplýsinga hjá viðkomandi ráðh. um þau tilteknu mál.

Að því er varðar kvartanir um útvarpsefni og meinta hlutdrægni í fréttaflutningi og í ýmsum þáttum, þá er auðvitað ekkert athugavert við það, þó að vakin sé athygli á þessu eins og öðru. En mér sýnist þó að rétta boðleiðin til þess að koma á framfæri slíkum umkvörtunum ásamt rökstuðningi í þá veru að fá það tekið til efnislegrar meðferðar og úrbóta, eftir því sem eðlilegt sýnist við nánari athugun, sé að koma þessu á framfæri við útvarpsstjóra og útvarpsráð. Og ég vil leyfa mér að fullyrða að þessir aðilar muni leitast við að meta málsatvik á hlutlægan, en þó um leið óhlutdrægan hátt.