19.10.1977
Efri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

15. mál, skipulagslög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Frá því að lög um skipulag voru samþ. á Alþ. 1964 hefur orðið veruleg breyting á afstöðu fólks til umferðar, og einkum er það, að komið hefur í ljós að vissir minnihlutahópar eiga oft erfitt með að nota sér og hagnýta ýmis svæði og möguleika sem öðrum er greiðfært um. Og þar sem þessi mál hafa verið allmikið í sviðsljósinu að undanförnu, þá er að mínu áliti komið mál til að breyta nokkuð þessari löggjöf. Hér er einkum um að ræða erfiðleika fatlaðra og aldraðra til að komast um útivistarsvæði og síðar, og með tilliti til þess að til stendur breyting á þessum lögum hvort eð er, þá hef ég lagt til, að þeim verði breytt enn frekar, og hef lagt fram hér á Alþ. brtt. á þessa leið:

„Á eftir 2. gr. komi ný gr. er verði svo hljóðandi :

13. gr. IV. kafla orðist svo:

Ráðherra skal að fengnum till. skipulagsstjórnar setja reglugerð um gerð skipulagsuppdrátta, samkv. 10. og 11. gr. Þar skal m.a. ákveðið um mælikvarða og frágang uppdrátta og hver grg. skuli fylgja uppdrætti. Einnig skal þar ákveðið, hvaða lágmarkskröfur skuli gera um fjölda opinna bifreiðastæða, er fylgja hverju húsi eða byggingarreit, og skal í því efni miða við notkun þess, svo og um stærð leiksvæða fyrir börn á lóðum íbúðarhúsa og athafnasvæði fyrir íbúa að öðru leyti.

Enn fremur skal þar kveðið á um lágmarksfjarlægð milli húsa, og skal í því efni við það miðað að í íbúðarhverfum njóti fullnægjandi birtu á aðalsólarhlið húss.

Þá skal og kveða þar á um nýtingarhlutfall í hinum ýmsu hverfum, en nýtingarhlutfall er hlutfallið milli samanlagðs gólfflatar húss og lóðarstærðar.

Kveðið skal á um að hið skipulagða svæði geri fötluðum og öldruðum auðvelt að komast leiðar sinnar. Ef um sérstök íbúðarhús fyrir fatlaða og aldraða er að ræða á framkvæmdasvæðum, skulu þau sett sem næst miðju, þar sem umferðarmöguleikar eru bestir, og í nágrenni þjónustustofnana. Götur, gangstéttir, bílastæði og opin svæði skulu gerð þannig, að fatlaðir og aldraðir eigi þar greiðan gang um. Bifreiðastæði næst aðalinngangi hvers húss skulu ætluð fötluðum og stærð miðuð við þarfir þeirra. Gangbrautir yfir götur skulu merktar í sterkum litum vegna sjóndapurra og afmarkaður með nokkurra millimetra upphækkunum. Ákveða má að auðkenndir skulu sérstaklega og upphækkaðir þeir staðir, sem eru áberandi t.d. við torg og aðalgötur, og sé leyfi til byggingar þar bundið samþykkt skipulagsstjórnar.“

Von er einnig á breytingu á lögum um byggingarsamþykktir þar sem frekar verður kveðið á um umbætur vegna fatlaðra og aldraðra. Það hafði verið ætlun þeirra, sem í n. hafa unnið að þessum málum á undanförnum árum, að byggingarlög gætu grípið yfir þessi ákvæði, en nú þykir hagkvæmara að breyting verði gerð á þessum gömlu lögum, skipulagslögum og lögum um byggingarsamþykktir, en að síðan verði kveðið nánar á í byggingarreglugerðum um einstök atriði þessara umbóta.