13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

1. mál, fjárlög 1978

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 163 brtt, í sjö liðum. Þar af er um að ræða sparnaðartillögur fyrir ríkissjóð upp á 1220 millj. kr. og útgjaldatillögur fyrir ríkissjóð upp á 243 millj. kr.

Ég ætla mér ekki að ræða hér um fjárlagafrv. almennt. Það hefur komið fram í þessum umr„ að mikilvægum gögnum, sem hljóta að teljast forsend.v raunverulegra umr. hér í dag við 2. umr. málsins, hefur verið skotið undan og þau hafa ekki verið afhent fyrr en í dag. Þar af leiðir, að við stjórnarandstæðingar höfum fallið frá því að halda hér uppi almennum umr. um efni fjárlagafrv. og um þá stefnu sem þar kemur fram. Hitt vita menn, að við höfum margoft bent á veikustu þættina í tekjuöflunarpólitík þessarar ríkisstj. Þar á ég að sjálfsögðu við þá einstæðu hlífð sem atvinnurekstrinum í landinu er sýnd í framkvæmd skattalaga hér á landi, á sama tíma og hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir síhækkandi brúttósköttum á allan almenning, flötum sköttum, sem lenda hlífðarlaust á tekjum launamanna og útgjöldum þeirra. Af þessu höfum við enn einu sinni fengið smjörþefinn í dag.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson var að enda við að gleðjast yfir þeim tíðindum, að bjargráð ríkisstj., jólagjöfin, skyldu ekki innihalda neina nýja skatta á þjóðina, og taldi að við ættum að vera afskaplega lukkulegir yfir þeirri niðurstöðu, því að nú væri, að því er mér skildist, í fyrsta sinn gripið til ráðstafana sem fælu ekki í sér nýja skattlagningu. Ég er nú hræddur um að þessi ágæti hv, þm. hafi ekki lesið lexíuna sína nægilega vel áður en hann steig í ræðustól í þetta sinn, því að hæstv. fjmrh. var einmitt að upplýsa okkur þm. um það fyrr í dag, að til stæði að leggja á þjóðina þriggja milljarða kr. nýjar álögur og þar af mundi verða um að ræða enn einn brúttóskattinn, enn einn flatan skattinn, með fyrirhugaðri hækkun sjúkragjalds um 1%, sem mun gefa ríkissjóði í nýjar tekjur hvorki meira né minna en tæpa 2 milljarða. Hinir skattarnir, sem nefndir voru, voru að vísu af smærra tagi: innflutningsgjald á sérstakar sætar vörur, flugvallagjald, gjald á gjaldeyrisleyfi, þ. á m. á ferðagjaldeyri, og hækkun bensínverðs. Allt mun þetta gefa um 3 milljarða kr. í tekjur. Ég er ansi hræddur um að það sé lítil hrifning hjá sveitarstjórnarmönnum yfir þessum boðskap hæstv. fjmrh. í dag, þar sem það er nú staðfest að ríkisvaldið ætlar sér ekki aðeins að gera þann bráðabirgðatekjustofn, sem þetta vandræðasjúkragjald var fyrir einu ári, að varanlegum tekjustofni, heldur ætlar hún einnig að tvöfalda þennan tekjustofn. Þar með ætlar hún að ráðast inn á tekjuöflunarsvið sveitarstjórnanna í landinu, en það hefur fram undir þetta verið þeirra verksvið að leggja á brúttóskatt 10–11%. Hafa lengi verið uppi miklar óskir af hálfu sveitarstjórnarmanna um að fá að hafa þann skatt hærri, vegna þess að vitað er að flestar sveitarstjórnir í landinu eiga við gífurlega fjárhagsörðugleika að etja, ekki síst af völdum verðbólgunnar og vegna þess að tekjur sveitarfélaganna eru miðaðar við verðlag í landinu árið á undan. Þær hafa ekki fengið heimild til þess, vegna þess að staðið hefur verið á móti því að þessi flati brúttóskattur væri hækkaður. En svo þegar hæstv. fjmrh. vantar eitthvað í kassann, þá er bara gripið til þess skatts á hverju ári nú um sinn, 1% á ári.

Nei, ég er ansi hræddur um að hv. þm. Eyjólfur Konráð hefði átt að gleðjast minna yfir þessum nýju tíðindum og að hann hefði kannske átt að haga sínum bindindisorðum á annan veg en hann gerði í lok ræðunnar, því að þó að segja meg að ríkisstj. hafi farið í bindindi hvað snertir framlög til margra mikilvægustu þátta þjóðlífsins, svo sem eins og byggingar sjúkrahúsa. skólamannvirkja og annarra slíkra nauðsynjamála, þá er síður en svo að hún hafi farið í neitt bindindi enn þá hvað snertir vaxandi og síauknar álögur á almenning í landinu.

Þessi hv, þm. flutti reyndar hér alllanga framsöguræðu um þingmál sem hann hefur nýlega flutt hér í þinginu og mun það sjálfsagt vera nokkuð óvanalegt að menn flytji framsöguræður um þingmál sín við 2. umr. fjárl. En allt er nú einu sinni fyrst, Það gefst að sjálfsögðu tækifæri til þess síðar að ræða um þessa till, hans, og ég vil sannarlega taka það fram, að engir hafa meir lagt áherslu á það en við Alþb: menn, að ástæða væri til að draga úr þeirri miklu yfirbyggingu, sem við Íslendingar búum við, og fækka mannskap í bankakerfi — og reyndar á mörgum öðrum sviðum. Ég held hins vegar að till. hans þurfi að skoða svolítið nánar, því að ég er ekki viss um að sú einfalda lausn að skera niður um 10% sé eðlileg eða auðveld í framkvæmd. Kannske er ekki alveg laust við að sannleiksneisti fellst í orðum þess ágæta þm., sem gegnir starfi framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins, hv. þm. Tómasar Árnasonar, sem sagði í blaðaviðtali nú fyrir skemmstu um þessa till., að hún bæri nokkurn áróðurssvip, bæri nokkurn svip af því, að kosningar nálguðust. Staðreyndin er auðvitað sú, að ef við eigum að fækka og grisja bankakerfið verður að fækka bönkunum. Það verður ekki gert með einfaldri þáltill., heldur verður það einungis gert með því að sameina þær bankastofnanir sem fyrir eru. Á þetta mál höfum við Alþb: menn lagt mjög ríka áherslu, eins og margir vita, og reyndum hvað við gátum að koma frv, þess efnis fram fyrir nokkrum árum, en nutum til þess minni aðstoðar hv. þm. Eyjólfs Konráðs en ástæða hefði verið til. Ég efast hins vegar ekki um að hann er nú þeirrar skoðunar, að þetta frv. hefði gjarnan mátt ná fram að ganga, og gleðst yfir því að eignast samherja í þessu máli. En ég vil undirstrika það hér, að það er auðvitað á mörgum öðrum sviðum sem þörf er á að grisja kerfið, og þar á ég ekki hvað síst við olíudreifingarkerfið. Ég vona líka að hv. þm. verði mér sammála um að það verði til mikilla bóta og mjög til að minnka yfirbygginguna í þjóðfélaginu að við þurfum ekki lengur að búa við þrefalt olíudreifingarkerfi. Reyndar er ég sannfærður um það, miðað við þá stefnu sem hv. þm. hefur tekið í þessum efnum, að hann væri til viðtals um grisjun innflutningskerfis landsmanna, því að þar fer sennilega fram mest sóunin. (Gripið fram í.) Þá á ég bara við innflutninginn almennt. (Gripið fram í.l Og ég efast ekki um að skoða verður alla þætti innflutningsverslunarinnar.

Ég ætla ekki hér að fjölyrða um þá stefnu í útgjöldum ríkisins sem fjárlagafrv. sýnir. En þar er um að ræða niðurskurð þýðingarmikilla framkvæmda á mjög mörgum sviðum: hafnamála, skólamála, vegamála, sjúkrahúsmála. Það má að vísu vera, að í einstaka tilviki sé um að ræða hlutfallslega hækkun frá árinn áður. En það, sem máli skiptir, er að sjálfsögðu að lítil úrbót fæst eftir hinn mikla niðurskurð sem átt hefur sér stað á seinustu tveimur árum, og fjárveitingar til þessara málaflokka eru því algjörlega ónógar. Einnig einkennir það þetta frv. að framlög til stofnlánasjóða og Byggingasjóðs eru stórlega skorin niður og framlög til framkvæmda í þágu atvinnuvega. Ég nefni hér sem dæmi framlög til graskögglaverksmiðja í landinu. Hitt einkennir svo frv. einnig, að um er að ræða glórulausa eyðslu í stóriðjuframkvæmdir. Þar á ég að sjálfsögðu í fyrsta lagi við framkvæmdirnar á Grundartanga, sem taka 1220 millj., og framkvæmdirnar við nýja virkjun hjá Hrauneyjafossi, sem munu taka um 1500–2000 millj. kr., að því er ég hygg, þó að vísu vanti enn gögn um það nákvæmlega, hversu háa upphæð þar er um að ræða.

Þær till., sem ég flyt hér, snerta einmitt þessi svið sem ég hef hér lýst örfáum orðum. Við Leggjum til í fyrsta lagi, hv. þm. Lúðvík Jósepsson og ég, að Grundartangaframkvæmdirnar við höfn þar verði felldar niður og einnig framlag til Íslenska járnblendifélagsins. Þess í stað erum við með allmargar tillögur um framkvæmdir í hafnamálum, og ég flyt hér sérstaklega till. um þrjár framkvæmdir á Norðurlandi vestra.

Þar er í fyrsta lagi um að ræða Skagaströnd, að til byggingar stálþils með kanti og til dýpkunar þar verði veittar 74 millj. 500 þús, í staðinn fyrir 40 millj. 500 þús. Þessi framkvæmd tengist þeim áformum Síldarverksmiðja ríkisins að endurbyggja verksmiðjuna á Skagaströnd. Að því er fróðustu menn telja eru líkur á því, að heildarframleiðsla Íslendinga á loðnu muni aukast sem nemur úrvinnslu úr 50 þús. tonnum af loðnu, ef þessi verksmiðja verður byggð, einungis vegna þess hversu haganlega hún liggur að miðunum. Verksmiðjur, sem fyrir eru í dag, anna ekki vinnslunni og þessi verksmiðja endurbyggð mundi færa þjóðarbúinu á einu ári 1.5–2 milljarða kr. Til þess að hægt sé að hefja vinnslu í þessari verksmiðju verður að koma hafnarmálum á þessum stað í fullnægjandi horf, og það liggur nú fyrir að fjárveiting upp á 40.5 millj. nægir ekki til þess. Framkvæmdir hafa staðið yfir á þessum stað sem þegar hafa tekið nokkurt fjármagn, og til þess að unnt sé að ljúka þeim framkvæmdum og svo einnig þeim dýpkunarframkvæmdum, sem ráðast þarf í til viðbótar vegna byggingar þessarar verksmiðju, dugir ekki minna en rúmar 70 millj. kr. Þetta eru nýjustu upplýsingar sem fyrir liggja í þessu máli. því miður er málið þannig vaxið, að fyrir nokkrum vikum fékk fjvn. í hendur rangar upplýsingar um þetta efni og talið var á þeim tíma að 40 millj. kr. nægðu, en þetta hefur nú verið leiðrétt af Vita- og hafnamálaskrifstofunni. Ég vil því mjög eindregið fara þess á leit við fjvn. að hún athugi, hvort ekki væri hægt að hnika til þessari fjárveitingu og hækka hana sem þessu nemur, því hér er um mjög stórt mál að ræða fyrir þjóðarbúið allt. ekki bara fyrir þennan eina stað. Það liggur fyrir álitsgerð um það, að með þessari verksmiðju yrðu útflutningstekjur þessarar þjóðar 1.5–3 milljörðum meiri en þær eru í dag Það er því um ólíkt þýðingarmeiri og brýnni framkvæmd að ræða en hafnargerðina við Grundartanga, sem þó á að taka fimm sinnum meira fjármagn en sú sem hér er gerð að umtalsefni.

Í öðru lagi geri ég till. um að unnið verði að gerð stálbils og þéttis ásamt kanti í höfninni á Sauðárkróki fyrir upphæðina 40 millj. kr. Hér er líka um mjög mikið nauðsynjamál að ræða, — óvenjulegt nauðsynjamál vegna þess að fyrir liggur að hafnargarðurinn þar er að hrynja, liggur undir stórskemmdum og raunveruleg hætta á því, að bæjarfélagið og þar með þjóðfélagið tapi allmörgum milljónum á þeim skemmdum sem geta orðið á næstu mánuðum ef ekki fer þar nú þegar fram viðgerð sem kostar um 50 millj. kr. Ríkishlutinn af þeirri framkvæmd væri þá nærri 40 millj, Þessar upplýsingar hafa borist fjvn., og liggja fyrir um þetta langar og miklar skýrslur ásamt myndum af ástandi þessa hafnargarðs sem er að hrynja. Ætti ekki að þurfa frekar vitnanna við, hversu nauðsynlegt þetta verk er. En bersýnilegt er, að ef ekki verður af þessu á þessu ári getur orðið um margfalt dýrari framkvæmd að ræða að einu ári liðnu.

Það er svo aftur partur af þessari hrapallegu sögu, að fyrir 3 árum, þ.e.a.s. árið 1974 var ákveðið að ráðast í þessa framkvæmd og stál var pantað til að framkvæma verkið. Það kom til Sauðárkróks og átti að fara að setja það niður, en hafnamálaskrifstofan ákvað á þeim miklu niðurskurðartímum, sem þá fóru í hönd, m.a. með tilkomu nýrrar ríkisstj., að þvinga þá Sauðkræklinga til að láta stálið af hendi, og þeir urðu að gera það vegna þess að dýpkunarframkvæmdir, sem átt höfðu sér stað í höfninni, höfðu orðið dýrari en reiknað var með. Þeir höfðu ekki fjármagn undir höndum til þess að pota stálinu niður í höfnina og það fór því á annan stað. Auðvitað hefði strax árið eftir átt að útvega fé til þessara framkvæmda, en það var ekki gert, og nú er í algjört óefni komið.

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að ef fjvn., ef ríkisvaldið ætlar að haga sér þannig í þessu máli að láta eignir samfélagsins eyðileggjast í stórum stíl á komandi ári vegna hirðuleysis og vanrækslu, þá spretta af því mikil blaðaskrif. Það þarf enginn að vera í neinum vafa um það, að þetta verður talið til meiri háttar afglapa og hneykslismála af hálfu meiri hl. fjvn., ef ekki verður úr bætt.

Að lokum er ég hér með þriðju till. varðandi hafnargerð á Norðurlandi vestra, en það er á Siglufirði. Gerð er till. um dýpkun og gerð smábátahafnar þar fyrir 50 millj. kr. Þetta er líka mikil nauðsynjaframkvæmd, því Siglufjarðarhöfn er nú orðin ein stærsta útflutningshöfn landsins og hún samræmist ekki á nokkurn hátt þeim aðstæðum sem skapast hafa eftir að miklar loðnuveiðar eru hafnar fyrir Norðurlandi. Í Siglufjarðarhöfn eru nú mjög ónotaleg og hættuleg þrengsli, vegna þess að ekki hefur farið fram sú dýpkun í höfninni, sem þörf er á, vegna þess. að á erfiðleikaárunum á seinasta áratug var bókstaflega ekkert gert fyrir þessa höfn árum saman — bæði vegna þess að ríkisvaldið var mjög naumt á fjármagn og einnig hins, að Siglufjarðarkaupstaður hafði þá ekki fjármagn til þess að standa að sínum hlut í hafnargerðinni. Nú er þetta breytt. Nú hefur þessi höfn mjög verulegar tekjur og þarf á því að halda, að um verði að ræða stórfelldar framkvæmdir þar.

Í fjórða lagi flytjum við tveir þm. Alþb. Kjartan Ólafsson og ég, till. um hækkun á greiðslu til Félagsstofnunar stúdenta, en eins og kunnugt er hefur fjvn. nú þegar lagt til að fjárveiting til Félagastofnunar stúdenta verði hækkuð úr 11 millj. kr. í 19 millj. Þó er það svo. að þetta framlag af ríkisins hálfu er algjörlega ófullnægjandi. Nægir að benda á það, að þörf er á stórfelldu viðhaldi á báðum Görðunum. Eðlilegt viðhald á þeim hefur ekki farið fram um langt árabil, og nú er ástand þeirra orðið svo slæmt, að þeir teljast varla í íbúðarhæfu ástandi, eru bæði heilsuspillandi og á annan hátt stórlega varasamir. Þess má geta einnig, að Heilbrigðiseftirlitið og Eldvarnaeftirlitið hafa gert ítrekaðar kröfur um umfangsmiklar endurbætur á Görðunum og beinlínis hótað lokun þeirra ef ekki yrði af framkvæmdum hið fyrsta. Ef Görðunum verður lokað lenda 100 stúdentar á götunni og það mun að sjálfsögðu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þetta fólk.

Framlög til Félagsstofnunar stúdenta hafa rýrnað mjög verulega frá því sem var í tíð vinstri stjórnarinnar. Nægir að benda á það, að jafnvel þótt við miðuðum við sömu stúdentatölu og var árið 1972, en við gerum ráð fyrir því, að upphæðirnar hækkuðu að verðgildi frá því sem var á vinstristjórnarárunum, þá nægði ekki minna en 26–27 millj. Ef við hins vegar miðum við þann stúdentafjölda sem er í dag, þ.e.a.s. um 3000 stúdenta, og miðum við það verðlag sem er í dag, þá mundi ekki nægja minna en fast að 40 millj. Ég tel að það sé mjög í hófi, að við gerum hér till. um 30 millj. kr.

Við flytjum, hv. þm. Stefán Jónsson og ég, till. um að til grænfóðurverksmiðja verði veittar 40 millj. til viðbótar því sem gert er ráð fyrir í till. fjvn., en það eru 35 millj. 848 þús. sem fjvn, ætlar til grænfóðurverksmiðja. Í fjárlagafrv. kemur skýrt fram, að framlög til verksmiðjanna í Saltvík og í Hólminum hafa verið skorin niður, en til þeirra voru veittar 20 millj. kr. á s.l. ári. Nú virðist hins vegar ætlunin að leggja þessar 20 millj. kr., sem veittar voru í fyrra, í salt um óákveðinn tíma og hætta gjörsamlega við byggingu þessara verksmiðja. Ég geri ráð fyrir því, að ástæðan til þess sé sú, að innlent kjarnfóður þykir nokkru dýrara í framleiðslu en innflutt kjarnfóður. Ég tel hins vegar að sú ástæða sé alls ekki nægileg til að hætta við byggingu þessara verksmiðja. Í fyrsta lagi kann hér að vera aðeins um tímabundið ástand að ræða og óvíst að þetta lága verð haldist til frambúðar, — hitt er miklu líklegra, að verð á innfluttum fóðurbæti eigi eftir að hækka, — og í öðru lagi bendi ég á, að þær verksmiðjur, sem í dag framleiða grasköggla, nota eingöngu innflutt eldsneyti, þær nota eingöngu rándýra olíu. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að undir þeim kringumstæðum sé innlent kjarnfóður óeðlilega dýrt, dýrara en innflutt. Verksmiðjurnar, sem áformað hefur verið að byggja í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu, verða væntanlega kynntar með jarðhita og með ódýru rafmagni, og þess er því að vænta, að framleiðslukostnaður í þessum verksmiðjum geti orðið talsvert lægri en hann er í þeim verksmiðjum sem nú eru í landinu.

Ég tel að það sé eitt af mörgum dæmum um ranga stefnu ríkisstj. í atvinnumálum, að hún skuli ætla sér að halda fast við svimandi háar fjárveitingar til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, en skera á sama tíma niður framlög til framleiðslu innlends kjarnfóðurs, sem mundi spara þjóðinni mikinn gjaldeyri ef það yrði mestallt framleitt hér innanlands. Talið er fullkomlega raunhæft að framleiða 40 þús. tonn af kjarnfóðri hér innanlands, sem mun vera um 80% af því sem Íslendingar þurfa á að halda, en í dag framleiðum við aðeins um 8 þús. tonn af innlendu kjarnfóðri. Það er því stórverkefni, sem bíður okkar, að fimmfalda þessa framleiðslu á næstu árum, en það verður auðvitað síst af öllu gert með því að skera niður fjárveitingar til svo brýnna framkvæmda.

Í fjórða lagi flyt ég till. um skólamál á þskj. 163. Það er einn af þeim þáttum sem verulega hafa rýrnað í meðferð núv. ríkisstj. Vil ég leyfa mér að benda á því til sönnunar, að ef fjárveitingin, sem veitt var til skólamála á árinu 1974, þ.e.a.s. í fjárl. í des. 1973, væri hækkað til núverandi verðlags þá væri þar um að ræða 3300 millj, kr. sem þá voru veittar til byggingar skóla í landinu, og þá á ég við grunnskólana og framhaldsskólana, en samsvarandi fjárveiting í dag á sama verðlagi virðist ætla að vera 1621 millj. — sem sagt helmingi lægri að verðgildi. Þetta sýnir í hnotskurn niðurskurðinn sem þessi ríkisstjórn hefur framkvæmt.

Ég er hér með þrjár till. um hækkanir til skólamála, og margir aðrir þm. Alþb. ein með till. fyrir önnur kjördæmi.

Mínar till. snerta í fyrsta lagi skólann á Hofsósi, og fjárveiting til hans hækki úr 10 millj. í 16 millj. Þar er um það að ræða að unnt verði að ráðast í byggingu nýrrar álmu við skólann, eins og staðið hefur til, en bersýnilegt er að ekki verður af því nema fjárveitingin verði hækkuð.

Í öðru lagi er um það að ræða, að áformuð skólabygging í Haganeshreppi fái 10 millj. kr. í staðinn fyrir 4 millj. Þar er um að ræða framkvæmd sem staðið hefur til að ráðast í mörg undanfarin ár. Ég minnist þess að við afgreiðslu fjárl. í des. 1974, fyrir þremur árum, flutti ég till. um að raunveruleg fjárveiting yrði veitt til þessa skóla. Mig minnir að sú till. væri um 3 millj. á þeim tíma. Þá var sýndarfjárveiting á ferðinni — algjör sýndarfjárveiting og auðvitað ekkert fyrir hana gert. Síðan var aftur sýndarfjárveiting í des. 1976. Ég flutti till. um raunverulega fjárveitingu. Sú till. var felld. Enn gerist það í des. 1976, að enn ein sýndarfjárveitingin var veitt til þessa mannvirkis, — sýndarfjárveiting, segi ég, vegna þess að reynslan hefur sýnt að svo er. Enn er ekki búið að stinga niður einni skóflu á þessum stað. Og ég tel að hætta sé á því, að enn sé um að ræða sýndarfjárveitingu, þar sem hún er aðeins upp á 4 millj kr., og ekki verði þarna um að ræða raunverulega fjárveitingu nema að hún sé a.m.k. 10 millj.

Þriðja till. er aftur á mótt mjög smá. Hún snertir skólabyggingu í Varmahlíð, 3. áfanga hennar. Vissulega væri hægt með fullum rökum að bera hér fram till. um stórfellda fjárveitingu til skólabyggingar í Varmahlíð, vegna þess að öll fjárveitingin, sem felst í till. fjvn., mun fara til að greiða það sem þegar hefur verið unnið fyrir eða til að laga í kringum húsið, ganga frá lóð, ganga frá þeim mannvirkjum, sem búið er að reisa, búið er að taka í notkun. Það veitti svo sannarlega ekki af verulega stórri fjárveitingu til þessa skóla eins og margra annarra skóla, en ég hef látið nægja að óska eftir því, að tekin verði inn 300 þús. kr. fjárveiting sem byrjunarfjárveiting í 3. áfanga, vegna þess að ég óttast að verði þessi fjárveiting ekki tekin nú inn muni allar framkvæmdir við þessa skólabyggingu stöðvast um tveggja ára skeið, því að alkunnugt er að ekki er byrjað á nýjum áfanga við slíka skóla nema fyrst sé veitt byrjunarfjárveiting.

Loks vil ég geta hér nokkurra till. af minni hálfu um framlög til heilsugæslumála. Þar er fyrst og fremst um að ræða heilsugæslustöðvarnar á Hvammstanga annars vegar og á Blönduósi hins vegar. Það gildir alveg nákvæmlega það sama um báðar þessar heilsugæslustöðvar og um skólabygginguna, sem ég nefndi hér áðan í Haganesvík, að í mjög mörg undanfarin ár, og rekur sig líklega allt aftur til ársins 1973, hefur verið um að ræða örsmáar fjárveitingar til þessara heilsugæslustöðva, alla tíð svo smáar að ekki hefur verið hægt að byrja á verkinu. Það er ekki hægt að byrja á stórri byggingu, sem á að kosta kannske 200 millj., með nokkrar millj, í höndum. Menn geta kannske grafið grunn og átt þá á hættu að hann standi lítt hreyfður og valdi börnum og ungmennum hættu og verði til óprýði staðnum, án þess að þar sé nokkuð annað gert í mörg ár. Þess vegna doka menn við, og þannig hefur reyndin verið.

Ég tel að ef veruleg hreyfing eigi að komast á hið mikla vandræðaástand, sem er í heilsugæslumálum á Hvammstanga, þá dugir þar ekki minna en 50 millj. kr„ því ég sé fram á það, að með 25 millj. kr. fjárveitingu yrði heilsugæslustöðin þar líklega ein 8 ár í smiðum. Það er ekki aðeins að byggja þurfi þar heilsugæslustöð fyrir 150–200 millj. kr., heldur þarf einnig samhliða að framkvæma allverulegar breytingar á sjúkrahúsinu, fyrir um 50 millj. kr., og með því að fjárveitingar séu ekki hærri en þetta mundi taka 8 ár að koma upp þessu bráðnauðsynlega mannvirki. Ég hygg að óvíða sé jafnmikið vandræðaástand ríkjandi, þar sem á annað borð er heilsugæslustöð, og einmitt á sjúkraskýlinu á Hvammstanga. Það held ég að yfirmenn heilbrigðismála, sem heimsótt hafa þennan stað, séu nokkuð sammála um.

Á Blönduósi eru að vísu miklu myndarlegri mannvirki ætluð til heilsugæslu, en þar er einnig þörf á byggingu heilsugæslustöðvar fyrir mannmargt hérað. Verður að hafa í huga, að hún yrði ekki bara fyrir Blönduós, heldur einnig fyrir Skagaströnd. Til þess að verulegur skriður komist á byggingu heilsugæslustöðvarinnar þar, þarf að steypa hana upp í einum áfanga. Það verður ekki farið að gera það í mörgum áföngum og á mörgum árum. Menn steypa upp á einu ári og til þess dugir ekki minni fjárhæð en þær 50 millj. kr. sem ég hef gert till. um.