13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

1. mál, fjárlög 1978

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla að mæla fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 164 við fjárlagafrv., og er hún við 4. gr. frv., liðinn 02 201, Háskóli Íslands. Þessi brtt. er um það, að gjaldfærður stofnkostnaður, sem í fjárlagafrv. er 388 millj., verði lækkaður niður í 340 millj., og 500 þús. Vel má vera, að einhverjir telji þennan tillöguflutning bera merki andstöðu við þá mikilsmetnu stofnun sem hér á hlut að máli. Ekki er það svo í mínum huga. En ég tel að í þeim fjárhagsvanda, sem mér heyrist þeir stjórnarliðar ekki hvað síst tala um, sé engin sérstök goðgá, að leggja tii, að þessi stofnun hægi á framkvæmdum á sínum vegum, eins og ótalmargir aðrir aðilar í þjóðfélaginu verða að gera, ef við gerum ráð fyrir að afgreiðsla fjárl. verði með eitthvað Iíkum hætti og hér er nú talað um.

Því hefur oft verið haldið fram, ekki síst við afgreiðslu fjárl., að stjórnarandstaðan sýndi mjög mikið ábyrgðarleysi varðandi tillöguflutning til.hækkunar á fjárl., samhliða því sem hún talaði um allt of há fjárl. í heild. Eins og fram kemur í þskj. með brtt. við fjárlagafrv. og till. fjvn. stend ég að nokkrum brtt. Þær eru á þskj. 160. Þar er um að ræða hækkunartillögur, og eru þær allar undir liðnum: Hafnarmannvirki og lendingarbætur. Þessar hækkunartillögur, sem ég stend að á þskj. 110, eru jafnháar í krónutölu þeirri upphæð sem ég legg til á þskj. 164 að verði tekin af Háskóla Íslands, gjaldfærðum stofnkostnaði. Hér er því einungis um það að ræða að færa til fjármuni. Þetta er ekki tillöguflutningur sem veldur hækkun á heildarútkomu fjárlaga.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég vil aðeins undirstrika það, að þær till., sem fluttar eru á þskj. 160 og ég stend að, eru í mínum huga svo nauðsynlegar, að ég tel jafnvel réttlætanlegt að lækka að nokkrum hluta þær fjárhæðir sem ætlaðar eru til framkvæmda við Háskólann á næsta ári eða á hans vegum. Eftir sem áður, þó að þessi till. næði fram að ganga og yrði samþ., hefur Háskólinn úr að moða rösklega 340 millj., og er það nokkuð góður stabbi fyrir stofnun til þess að nota til framkvæmda, a.m.k. miðað við margar aðrar stofnanir sem líkur eru á að fái úrlausn sem gert er ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil, um leið og ég mæli fyrir þessari brtt. lýsa stuðningi mínum við brtt. á þskj. 161, brtt. frá Pétri Sigurðssyni, alveg sérstaklega þó við 3. lið þeirrar till., að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af myndsegulböndum, sem eru til afnota í íslenskum skipum. Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þessa till. svo og 2. brtt. á þessu sama þskj. frá Pétri Sigurðssyni varðandi orlofsstarfsemi verkalýðssamtakanna.

Ég vil einnig lýsa yfir stuðningi við till. á þessu sama þskj., frá Lúðvík Jósepssyni og Ragnari Arnalds, þar sem gert er ráð fyrir að fella niður heimild í fjárlagafrv. til að kaupa húseignina Laugaveg 166. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ekki séu hagkvæm kaup á þessari húseign, og ég styð því þessa brtt. um að liðurinn verði felldur niður.

Ég vil svo að lokum lýsa stuðningi mínum við brtt. á þskj. 163, einnig frá Ragnari Arnralds og Lúðvík Jósepssyni. Hún er um að fella niður liðinn: Hafnarframkvæmdir við Grundartanga. Hér er að vísu um að ræða atriði, sem er inni í lánsfjáráætlun og snertir ekki beint fjárlagafrv. eða fjárl. sem slík. Ég hef alla tíð verið andvígur framkvæmdum við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, ég er enn frekar andvígur þeim nú eftir nýjustu upplýsingar sem fyrir liggja, og ég lýsi því stuðningi mínum við þessa brtt.

Ég vil svo að lokum aðeins ítreka það, að þessi till, mín varðandi lækkun á gjaldfærðum stofnkostnaði Háskólans er á engan hátt af minni hálfu sett fram eða flutt í þeim anda, að ég sé andvígur þeirri stofnun. En ég tel mjög réttlætanlegt í því árferði sem nú er, að því er best verður séð, að sú stofnun verði að sniða sér nokkuð stakk eftir vexti, eins og almennt er talið eðlilegt í þjóðfélaginu, jafnvel að því er mannahald áhrærir eins og hæstv. fjmrh. var að benda á.