13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

1. mál, fjárlög 1978

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þessi umr. hefur nú staðið býsna lengi og er liðið nokkuð á nýjan dag. Ég hef leyft mér að flytja aðeins eina brtt. við þetta viðamikla fjárlagafrv. þar sem niðurstöðutölur eru enn um 125 þús. millj. kr. og koma til með að verða nálægt 140 þús. millj. kr. Mér skilst að siður sé að tala hér fyrir þeim till., sem maður leggur fram, strax við þessa umr., þó að það hefði verið hagkvæmara að geyma það til 3, umr., og tala þá í einu fyrir bæði þessari litlu till. og þeim öðrum till. hugsanlegum, sem maður kynni að flytja.

Á þskj. 165 er þessi litla brtt. frá mér, um aukna fjárveitingu til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum. Nú veit ég það, að flestir landsbyggðarmenn og raunar Reykvíkingar líka gætu komið með till. um hækkanir til sjúkrahúsa, hver á sínum stað, og heilsugæslustöðva, og ef allir legðu til miklar hækkanir á þeim fjárhæðum, sem fyrir eru, þá færi þetta auðvitað allt úr böndunum og augljóst að ekki yrði hægt að verða við því. Það geri ég mér ljóst.

Það, að ég skuli flytja brtt. við þennan lið, er ekki vegna þess að ég átti mig ekki á þessari staðreynd, heldur er ástæðan sú, að það, sem þarna stendur í frv.: Vestmannaeyjar, sjúkrahús, skuldagreiðsla, ætti að vera: Vestmannaeyjar, sjúkrahús, vanskil — í stað skuldagreiðslu — því að ríkissjóður skuldar Vestmannaeyjakaupstað 100 millj. kr. til sjúkrahússins, — peninga sem Vestmannaeyjakaupstaður hefur lagt fram fyrir mörgum árum. Þessir peningar eru óverðtryggðir. Við töldum okkur hafa lagt fram nokkuð á annað hundrað millj, kr., en við athugun ríkisendurskoðunarinnar gátu þeir aðeins fallist á að þeir skulduðu rétt tæpar 100 millj. kr.

Í þessu verðbólgubáli, sem enn brennur, hverfur verðgildi peninganna fljótt, og þeim mun verr fer Vestmannaeyjakaupstaður út úr þessum samskiptum við ríkisvaldið sem lengur dregst að greiða þessa skuld. Það fer svo sannarlega ekki mikið fyrir fjárveitingum til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum, sem er stórt deildaskipt sjúkrahús í einum af stærri kaupstöðum landsmanna, þar sem ekki eru áætlaðar nema 20 millj. af heildarupphæð sem er nokkuð á annað þúsund millj. í frv. Það er ekki nema 12/3% af heildarfjárveitingunni. En þeim mun verra er þegar svo stendur á eins og ég var að segja frá. Þarna er um 100 millj. kr. skuld að ræða sem eftir þessari fjárveitingu á sýnilega að greiðast á árum í stað þess að greiða hana upp á einu ári, eins og bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum höfðu farið fram á, og þeir samþykktu aðeins úrskurð ríkisendurskoðunarinnar um tæplega 100 millj. kr. — niðurstöður hennar — á þeirri forsendu að þessi upphæð yrði greidd öll í einu lagi á þessu ári.

Nú vill svo til, að um það bil sem líða tók á starfstíma Viðlagasjóðs beitti núv. hæstv. forsrh. sér fyrir því, að sett yrði á stofn svokölluð úttektarnefnd. Verkefni þessarar úttektarnefndar átti að vera það að bæta úr fjárhagsvandræðum Vestmannaeyjakaupstaðar, fyrirtækja hans og annarra fyrirtækja í bænum, þar sem sagt var að það væri ekki í verkahring Viðlagasjóðs að leysa úr þeim vandamálum. Þegar þessi úttektarnefnd, skipuð af hæstv. forsrh., skilaði áliti, lagði hún eindregið til, að þessi skuld við Vestmannaeyjakaupstað vegna sjúkrahússins, upp á 100 millj. kr. tæpar, yrði greidd minnst í tvennu lagi, 50 millj. í hvort skipti. Og þaðan er einmitt komin upphæðin í brtt. minni, til samræmis við það sem kemur fram í áliti úttektarnefndarinnar. Ef við fengjum 50 millj, til þessarar greiðslu á þessum fjárl. og 50 millj. á þeim næstu, þá mætti segja að sú krafa væri mjög hófsamleg og skaði kaupstaðarins ekki eins tilfinnanlegur og ef á að dreifa þessu á 5 ára tímabil. Ef við hugsum okkur það, að komandi ríkisstj. yrði kannske eitthvað álíka dugleg og núv, hæstv. ríkisstj. að glíma við verðbólguna, og verðbólgan héldi áfram eins og hún hefur gert nú undanfarin 3 ár, og yrði einhvers staðar á bilinu milli 40 og 60% á ári að jafnaði, þá getur hver maður séð, að síðustu greiðslurnar mundu verða orðnar harla lítils virði að raungildi: Með þessari aðferð, að dreifa skuldagreiðslunni á 5 ár, er verið að hafa stórkostlega fjármuni af Vestmannaeyjakaupstað sem ég hélt að menn gerðu sér grein fyrir að væri ekki vel stæður, af alkunnum ástæðum, Þar er að sjálfsögðu í geysilega mörg horn að líta við að byggja upp staðinn á mjög stuttum tíma, á svo mörgum sviðum að það tekur við venjuleg skilyrði áratugi.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það og minna hv. viðstadda alþm. á að hér er um till. að ræða þar sem farið er fram á leiðréttingu á miklu ranglæti sem illa staddur kaupstaður er beittur að mínum dómi. Ég er viss um að þeir, sem skoða málið, eru mér sammála innst inni, og ég er líka viss um að þetta mál er, eins og ég hef greint frá, mjög sérstætt. Hækkunarbeiðnin er komin af sérstökum ástæðum og engin leið fyrir aðra að hafa hana til fordæmis. Ég vil þess vegna sérstaklega beina máli mínu til hv, 6. þm. Sunnl., form. fjvn., að hann taki þetta mál upp í n. milli umr. og reyni að koma auga á leið til þess að þessi litla brtt. geti náð fram.

Herra forseti. Ég ætlaði að hafa þetta stutt og skal standa við það. En ég get ekki, fyrst ég er kominn hingað á annað borð, gengið héðan aftur nema minnast aðeins á annan þátt fáum orðum, þar sem mér finnst hlutur Vestmannaeyja ótrúlega lítill. Það er áætlaður hluti til Vestmannaeyjahafnar sem er skorinn meira niður og miklu meira niður en áætlað fjármagn til annarra hafna í landinu. Þar var gert ráð fyrir framkvæmd sem kostaði 70 millj. og hluti Vestmannaeyjakaupstaðar yrði þar eitthvað milli 50 og 60 millj., en þeir leyfa sér, þessir menn, að skera þetta niður í rúmlega 37 millj. kr. Það verk, sem framkvæma á fyrir þessa peninga, er nefnt hér einhvers staðar vörukantur, þ.e.a.s. bryggjukantur fyrir vöruflutningaskip. Nú hef ég heyrt það, að háttsettur embættismaður í kerfinu hafi sagt, að við Vestmanneyingar hefðum ekkert við þetta að gera, þetta væri flottheitaframkvæmd og hálfgerð óþarfaframkvæmd, og ég hef þetta eftir mönnum sem ég get fyllilega tekið mark á. Auk þess veit ég líka, að það hefur heyrst því miður frá sumum hv, þm., sem jafnvel gerst ættu að þekkja til, að við hefðum litla þörf fyrir að þetta verk yrði unnið. Það er mikill misskilningur og það eru mikil ósannindi, því að með því að gera þennan vörukant eru vöruflutningaskipin tekin frá bryggju, sem liggur næst mjög stórum vinnslustöðvum í kaupstaðnum, og losnar þar með löndunarpláss í höfninni, sem er af skornum skammti og meira að segja af svo skornum skammti, að fiskibátarnir í höfninni, sem munu vera um 70 talsins plús fjórir togarar, þurfa oft að bíða löndunar svo að mörgum klukkutímum skiptir, en þar með verða sjómenn á þessum fiskibátum að stytta hvíldartíma sinn, oft að mjög miklum mun. Þetta er ekki eina gagnið af þessu. Að sjálfsögðu kemur þarna þá vörukantur fyrir flutningaskipin, sem yrði þá á þeim eina stað, þar sem hugsanlegt væri að koma upp vöruskemmu fyrir skipafélögin. Með það í huga er auðvitað um geysilega hagræðingu að ræða — að hafa vöruskemmu á hafnarsvæðinu sjálfu, sem ekki er nú við löndunarbryggjuna, í stað þess að þurfa að keyra allan varning langt í burtu frá þeim stað þar sem hann er tekinn á land. Við þennan kant er einnig meiningin að koma upp aðstöðu til viðgerða á skipum á floti, auk þess sem gert er ráð fyrir í áætlun hafnarstjórnar í Vestmannaeyjum að þarna verði aðstaða til nótaviðgerða, því að það vita allir, að mikill hluti loðnuflotans kemur þarna á vetrarvertíðinni af öllu landinu og þarf auðvitað að fá viðhald og viðgerðir á sínum veiðarfærum, en til þess þarf gott bryggjupláss. Því yrði mjög vel fyrir komið á þessum stað, því að sannleikurinn er sá, að hin stærri nótaskip fljóta ekki inn að bryggjunni vestur af þessum kanti sem þarna er fyrirhugaður.

Auk þess, sem ég hef þegar nefnt, vil ég segja að rétt hjá þessum bryggjukanti, sem þarna er gert ráð fyrir, er nú þegar sameiginleg fiskgeymsla, kæligeymsla fyrir kassafisk, sem togaraaflinn mun verða fluttur í og síðan dreift út í stöðvarnar eftir þörfum. Það má því öllum vera ljóst, sem hafa hlustað og heyrt þessar röksemdir, að þarna er einmitt um mjög nauðsynlega framkvæmd að ræða, sem hefur verið vandlega undirbúin í framkvæmdaáætlun hafnarstjórnar í Vestmannaeyjum.

Hlutur Vestmannaeyja er sem sagt ekki nema liðlega 37 millj. Ég vil leyfa mér að benda á það, að hlutur Akraness er t.d. 100 millj, Ólafsvíkur 72 millj., svipuð upphæð eins og í Vestmannaeyjum fer til Patreksfjarðar, tvöföld upphæð til Bolungarvíkur, þó nokkru hærri upphæð til Skagastrandar, yfir 40 millj., til Siglufjarðar milli 60 og 70 millj., yfir 50 millj. til Ólafsfjarðar og til Akureyrar 46 millj. Svona mætti miklu lengur telja: Húsavík 41 millj, Vopnafjörður 65 millj., Borgarfjörður eystri 42 millj., Neskarpstaður 46 millj., Sandgerði 83 millj. og hafnarfjörður 52 millj. Allir þessir staðir fá talsvert hærri fjárveitingu og margir margfalt hærri en Vestmannaeyjar, sem hefur þó þennan geysilega flota eins .og þar er og vonandi kemur til með að skila góðum afla á land hér eftir sem hingað til. Mér sýnist að þarna sé ein stærsta verstöð landsins hlunnfarin, svo að ekki sé grófar tekið til orða, og ég harma að fulltrúar Sunnlendinga og Vestmanneyinga í fjvn. skyldu ekki ýta betur á eftir þessu nauðsynjamáli hafnarinnar en rann hefur orfið á, á sama tíma og eitt kjördæmi landsins sker sig alveg úr með fjárveitingar. Kannske vegna þess að tveir af þremur nm í undirnefnd um hafnarmál eru frá því sama kjördæmi. Þær upphæðir eru geysiháar miðað við það sem okkur er boðið. Þó er aðeins farið fram á að setja þetta í eina framkvæmd, jafnvel þótt margar aðrar framkvæmdir séu nauðsynlegar.

Svona mætti auðvitað miklu lengur telja, en ég vil ekki fara að eyða tíma manna, þegar svo langt er liðið á nótt, til þess að ræða fjárlagafrv. í heild, svo að ég tali nú ekki um að fara að minnast á svokallaða efnahagsstjórn hæstv. ríkisstj. Til þess þyrfti álíka marga klukkutíma og ég hef nú talað í margar frímínútur, ef gera ætti því mikla mistakamáli einhver skil.

Herra forseti. Ég vil að lokum endurtaka, að ég beini máli mínu enn einu sinni til hv. þm. Steinþórs Gestssonar og þeirra fjvn.-manna annarra, sem hér eru staddir, að þeir velti nú fyrir sér, hvort það geti talist sanngjarnt að láta Vestmannaeyjakaupstað verða fyrir svona miklu tjóni með því að láta greiða skuldina á eins löngum tíma og þeir leggja til eða hvort þeir vilja milda eitthvað þann skaða með því að skipta skuldagreiðslunni eða vanskilagreiðslunni í tvennt.