14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

121. mál, áfengislög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þetta frv. Mig langar í leiðinni að forvitnast um það, hvort það hafi verið athugað gaumgæfilega, sem hefur komið hér upp á Alþ. áður, sú aldursviðmiðun, eins og segir í 6. gr. frv., að 34. gr. orðist svo, e-liður, að áfengi, sem ungmenni yngri en 20 ára hafa undir höndum, skuli gert upptækt til ríkissjóðs.

Það, sem mig langar til að forvitnast um, er hvort þetta aldursmark er rétt miðað við svo margt annað í þessu þjóðfélagi og hvernig beri að skilja þetta. Ég tel að það þurfi að athuga það gaumgæfilega, hvort aldursmarkið mætti ekki vera 19 ár eða jafnvel 18, þar sem ég tel að 18 ára maður sé orðinn fullþroska og fullgjaldgengur alls staðar í þjóðfélaginu. Ef við ætlum á annað borð að hafa bann slíkan, þá held ég að hann hljóti að mega hafa þetta undir höndum eins og aðrir eldri. Nú er þetta mjög viðkvæmt mál, ég viðurkenni það, og ég tel að hér þurfi að athuga mjög gaumgæfilega, hvort þessi tala er rétt eða röng. En ég veit af leiðinlegri reynslu, að 20 ára aldursmarkið er ákaflega erfitt í framkvæmd og orsakar deilur hjá fólki, t.d. giftu fólki. Það er mikið vandamál að setja þetta aldursmark og ég geri þessa fsp. aðeins til að vita hvort það hefur verið íhugað gaumgæfilega, þegar þessi ákvörðun var tekin og þetta sett inn í frv., eða hvort menn treysta sér til að fara einu ári eða tveimur neðar.

Í öðru lagi segir í 7. gr. frv., að skip og flugvélar og annar farkostur, sem áfengi hefur verið flutt ólöglega með, skuli gert upptækt. Nú leikur mér forvitni á, ef áfengi finnst hér í bifreið, t.d. vöruflutningabifreið á leið út á land með farm, ekki áfengi auðvitað, heldur eitthvað annað, en svo finnst þar áfengi, hvort slík bifreið sé þá veðhæf til tryggingar eða ekki, einnig ef veitingahús finnst sekt um það að misnota sitt leyfi og aðstöðu sína, er þá eignin veðhæf líka alveg hliðstætt við skip og flugvél? Oftast er sektin auðvitað miklu, miklu minna virði en flugvél og skip. En þar sem svo hörð ákvæði eru látin gilda um skip og flugvél og annan farkost, eins og segir í 7. gr. frv., sem áfengi hefur verið flutt með. vildi ég fá að vita um það, hversu viðtæk þessi trygging er gagnvart því að hafa aðhald að þeim er freistast til að brjóta. Ég tel hiklaust að veitingahús eigi að vera jöfn að veði og skip eða flugvél gagnvart þeim er þar starfa, svo að brot eigi sér síður stað, ef þetta er talið verða til þess, að brot séu sem minnst framin eða alls ekki. Ég vil sem sagt ekki gera greinarmun á þeim hlutum, þar sem áfengi er skotið ólöglega undan, heldur hafa allt jafnt, fyrst við erum að gera þessar breytingar.

Að öðru leyti vil ég ítreka það, að ég tel bráða nauðsyn á því, að við endurskoðum alla okkar áfengislöggjöf og meðferð áfengis í landinu og áróður um það og setjum einn lagabálk um það. Það er svo mikið vandamál, hvernig almenningur í landinu fer með áfengi og neytir þess, að það er sannarlega tímabært að koma á heildarlöggjöf um þessi mál. Ég treysti hæstv. dómsmrh. til að stuðla að því manna best, að rökrétt og skynsamleg löggjöf fáist í því efni.