14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

121. mál, áfengislög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. gerði að umtalsefni vínveitingahúsin sérstaklega að gefnu tilefni. Þau eru sérstakur þáttur í okkar áfengisvandamáli. Satt er það, að örugglega má finna ljótari dæmi um áfengisneyslu og ýmsar afleiðingar hennar en þar finnast, en þáttur vínveitingahúsanna er því miður ekki fallegur það ég best fæ séð.

En varðandi það löggjafaratriði, sem hér var Komið inn á varðandi aldursmarkið, vildi ég aðeins segja þetta:

Ég tel að það þurfi að vera samræmi í löggjöfinni hvað þetta snertir. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að það gildi sama aldursmark inn á vínveitingahús og varðandi afgreiðsluna. Þarna er um tvenns konar aldursmark að ræða í dag. 13 ára unglingar mega fara þar inn, en það má ekki veita þeim áfengi innan við tvítugt.

Þegar við vorum að fjalla um þetta mál í áfengismálanefndinni voru mjög skiptar skoðanir um þetta mál þar. Meiri hl. n. lagðist mjög eindregið með því að aldursmarkið yrði alfarið fært upp í 20 ár. Ég tel mig þokkalegan bindindismann og talsmann þessara mála. Ég var ekki á þessari skoðun. því meira sem ég hef hugsað um þetta mál verð ég að hallast að því, að það sé óraunsætt, það beri vott um fullmikla tvöfeldni hjá okkur einnig að viðurkenna ekki þá staðreynd sem við blasir að hluta til, en herða þá jafnframt eftirlit og viðurlög að sama skapi þegar við höfum stigið þetta skref, þannig að það þýði ekki neina allsherjartilslökun í áfengismálum okkar. Það er fjarri mér að vilja slíkt. En við það að horfa á þessi mál og það mikla vandamál, sem þarna er um að ræða, hef ég orðið sannfærður um að þrátt fyrir að það sé mér ekki ljóst, þá verðum við að beygja okkur fyrir þessari staðreynd, þrátt fyrir að ég sjái hrikaleg dæmi um það frá mörgum öðrum þjóðum til hvers þetta hefur leitt, því að það virðist svo, því miður, að því lengra sem farið er niður með þetta aldursmark, þá fer neyslan bara þeim mun neðar aftur í aldursflokkunum í þessum löndum. En þetta er staðreynd hjá okkur þrátt fyrir okkar 20 ára aldursmark. Það er staðreynd í dag, að þeir aldursflokkar, sem farnir eru að neyta áfengis, þetta færist æ neðar í aldursstigann. Og það er ekkert óalgengt, að jafnvel 12 og 13 ára börn neyti áfengis í dag. Þetta er viðurkennd staðreynd sem ekki þýðir að mæla á móti. Við höfum þó verið með þetta aldursmark svo hátt sem raun ber vitni.

Ég verð því að taka undir það, að það er vissulega rétt, að lög geta stutt okkur vel í þessu, en þau geta auðvitað aldrei lagfært þetta ástand. Þau ein geta aldrei komið í veg fyrir allt það böl sem fylgir ofneyslu áfengis og neyslu áfengis hjá ungu fólki.

Ég ætla ekki að ræða frekar þetta afmarkaða málefni hér. Þar þarf miklu meira til en lög til að koma einhverju í lag. Þar kemur almenningsálitið til fyrst og fremst, eins og margoft hefur verið bent á. Ég var að vona að sú hreyfing, sem á undanförnum mánuðum hefur verið að vaxa upp hér á landi, væri e.t.v. til bóta. Ég vænti þess, að hún verði það. Ég hef ekki séð mikinn árangur af því enn þá gagnvart því að fyrirbyggja það að menn verði áfengisneyslu eða ofneyslu áfengis að bráð. En hitt er auðvitað virðingarvert, að vera með aðgerðir til varnar þeim og bjarga þeim sem hafa sokkið. Það er virðingarvert. En miklu fremur vildi ég sjá þessa hreyfingu þó beita sér fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum í þessu efni, sem tækju jafnt til fræðslu og annarra atriða sem við þurfum að stórauka og reyna, ef við getum, þó að mér sæki sífellt meira vonleysi í þessum efnum, — reyna ef við getum að snúa þessu ógæfuhjóli eitthvað við.