14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

120. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Samkv. 3. gr. gildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga frá 1972 skal leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Þessi skattur skal miðaður við fasteignamat og vera 1/2% af fasteignamati íbúða og íbúðarhúsa, en 1% af öðrum fasteignum. Samkv. þessu lagaákvæði er hverju sveitarfélagi skylt að leggja þennan fasteignaskatt á, en auk þess er sveitarstjórnum heimilt að innheimta allt að 50% álag á fasteignaskattinn. Hið fyrra er skylda, en hið síðara er heimild.

Samkv. ákvæðum laga nr. 94 frá 1976, um skráningu og mat fasteigna, átti nýtt fasteigna mat að taka gildi 1. des. 1976. Gildistökunni var frestað til 31. des. 1976 samkv. auglýsingu frá fjmrh., sem er dags. 21. des. 1976. Í þessari auglýsingu var einnig tekið fram, að yfirfasteignamatsnefnd hefði ákveðið svonefndan framreikningsstuðul fyrir matsverð fasteigna og skyldi hann vera 51/2%, en í auglýsingunni var þó gert ráð fyrir að hækkunin kynni að verða meiri í einstökum sveitarfélögum, og mun hún hafa komist í 61/2. Þar sem augljóst var, ef ekki væri að gert, að fasteignaskattar mundu hækka mjög verulega á árinu 1977 vegna þessa nýja fasteignamats og sveitarstjórnir, sem ekki óskuðu eftir svo mikilli hækkun, fengju ekki við það ráðið, þar sem skylt er að leggja á fyrrnefnda hundraðstölu af fasteignamati sem fasteignaskatt, þá varð það að ráði, að til þess að koma í veg fyrir að svo yrði var flutt í des. 1976 frv. um breytingu á tekjustofnalögunum. Þar var ákveðið að á árinu 1977 skuli fasteignaskattar ekki verða hærri en þeir hefðu orðið samkv. þágildandi mati fasteigna, sem þýddi að fasteignagjöld skyldu ekki hækka um meira en rúm 23% á árinu 1977 frá því sem þau voru á árinu 1970. Þetta bráðabirgðaákvæði var lögfest með lögum nr. 115 frá 1976 og tók aðeins til notkunar fasteignamatsins við ákvörðun gjalda til sveitarfélaga á árinu 1977.

Álagning fasteignaskatts á árinu 1973 mun að óbreyttum lögum byggjast á framreiknuðu fasteignamati sem yfirfasteignamatsnefnd ber að annast. Við þann útreikning er höfð hliðsjón af breytingu verðlags fasteigna við kaup og sölu frá síðasta viðmiðunartíma matsins, þ.e. í des. 1976, Forstjóri Fasteignamats ríkisins hefur upplýst að fasteignamat, miðað við framreikning í þessum mánuði, verði 36% hærra en það var í des. Af þessu má ljóst vera, að verði ákvæði um álagningu fasteignaskatts óbreytt mun lágmarksfasteiguaskattur hækka á næsta ári talsvert umfram þær almennu hækkanir sem orðið hafa og verða væntanlega á þessu tímabili meira en ýmis sveitarfélög eða sveitarstjórnir óska eftir.

Til þess að bæta úr þessum annmarka, sem leiðir af gildistöku hins nýja fasteignamats og að fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði fellur niður er þetta frv. flutt, en í því felst það nýmæli, að sveitarstjórnum er heimilað að lækka um allt að 25% þá lágmarksprósentu sem tilgreind er í tekjustofnalögunum frá 1972. Jafnframt er gert ráð fyrir í þessu frv. að heimild sveitarstjórna til hækkunar á fasteignagjaldinu verði lækkuð úr 50% í 25%.

Í gildandi lögum er samkv. þessu, sem ég nú hef greint, svo fyrir mælt, að allar sveitarstjórnir skuli leggja 1/2% fasteignagjald miðað við fasteignamat á íbúðir, en heimild til hækkunar allt að 50%. Þetta svigrúm helst því með 50%, en það breytist að þessu leyti, að það er heimild til 25% lækkunar frá þessari lögmætu prósentu og heimildin til álagsins er 25%.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur fjallað um þetta frv. og lýst sig sammála því eins og getið er í niðurlagi grg. með frv.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.