14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þær umr., sem fóru hér fram, voru um margt áhugaverðar og ég verð að segja það, að mér fannst ekkert óeðlilegt þótt það kæmi við kaunin á einhverjum þegar auglýst var hér um kvöldið 18% hækkun á landbúnaðarafurðum, en viss hluti þeirra afurða, þ.e.a.s. undanrennan, hækkaði um 60%. Það eru örugglega margír landsmenn núna sem hafa áhuga á undanrennudrykkju vegna þess, eins og hér hefur komið fram rækilega, að okkar lifnaðarhættir hafa breyst á þann veg, að við brennum nú minna en áður, en höfum meiri peninga til að éta fyrir, og árangurinn er svo sá, að við göngum ekki um sem talandi dæmi um heilsuvernd og heilsurækt, en hættir við að offitna. Og það er ekkert launungarmál og það er ákaflega vel staðfest, að offita, af hverju sem hún stafar, hvort sem hún stafar af áti á landbúnaðarvörum eða öðru, er óholl og styttir lífið, hún gerir það erfiðara. Því var það að margir, sem bundu vonir sínar við undanrennudrykk, hrukku í kút þegar allt í einu var komin 60% verðhækkun á þessa vöru.

Nú er ég ekki þar með að segja að þessi hækkun muni hafa veruleg áhrif á neyslu undanrennunnar. En hitt finnst mér jafneðlilegt, að menn hrökkvi við og um þetta verði einhverjar umr. Aftur á móti verð ég að segja að það eru önnur áhrif, sem hafa verið mjög áberandi á undanförnum árum, mörgum árum, gagnvart landbúnaðarafurðum, en það er hin markvissa barátta stjórnvalda undanfarið fyrir því að breyta þessari þjóð úr fiskneysluþjóð og yfir í kjötneysluþjóð. Að þessu hefur verið unnið með miklum árangri og á þann hátt sem jafnan er árangursríkastur, með því að greiða niður kjöt í stórum stíl, en ekki fisk. Á sama tíma og þetta hefur verið gert hafa miklar umræður víða úti um heim farið fram um fiskneyslu og kjötneyslu, og yfirleitt hefur verið talið að fiskneysla væri hollari en kjötneysla, Þess vegna held ég að enginn þurfi að hlaupa upp til handa og fóta þótt einhver smáauglýsingastarfsemi sé höfð í frammi gagnvart slíkum skyndihreytingum eins og hér fóru fram. En ég álít að þetta hafi verið hættulegt og óeðlilegt athæfi, sem hefur farið fram hér á undanförnum árum að gera höfuðatvinnuvegunum svo mishátt undir höfði í raun og veru, þ.e.a.s. að stjórnvöld ýti sí og æ undir kjötneysluna á kostnað fiskneyslunnar. Þar sem ég er mikill fiskneyslumaður hefur mér lengi fundist þetta mjög óeðlilegt og ósanngjarnt, en við því hefur ekkert verið hægt að gera vegna þess að landbúnaðarafurðir eru hagstjórnartæki og það er það sem hefur valdið þessu.

Það er alveg rétt, að það er erfitt að kveða upp dóm um það, hvort kransæðasjúkdómur standi í beinu sambandi við neyslu á landbúnaðarafurðum. Þó er ýmislegt sem bendir til þess. Hitt mun þó sanni nær og öruggt að það er fita fyrst og fremst, sem orsakar gjarnan kölkunina í æðunum og þann sjúkdóm, M.a. man ég eftir einni tilraun sem mér fannst vera mjög athyglisverð. Fyrir mörgum árum gerðu Finnar tilraun á skógarhöggsmönnum. Hér var um mörg hundruð manna flokk að ræða. Þeir mældu fituefni í blóði þessara manna og fylgdust með því ár eftir ár. Það kom í ljós, að einn hópur af þessum mönnum sýndi merki þess, að um kölkun í hjartaæðum væri að ræða. Þetta vakti nokkra athygli, og þegar farið var að taka þetta saman kom í ljós að verkstjórarnir skáru sig alveg úr, þeir sýndu einkenni um fitusöfnun og kölkun, en þeir skógarhöggsmenn, sem hjuggu skóginn, voru aftur á móti í miklu betra formi og sýndu engin merki um sjúkdómseinkenni.

Ég held að þessi tilraun sé nokkuð marktæk. Hún segir ekkert um það, hvort þeir hafi étið mikið smjör eða mikið kjöt, en hún segir til um það, að hreyfingin og áreynslan ráða úrslitum í þessu efni. Við höfum hætt að leggja mikið á okkur líkamlega, við höfum hætt að þræla eins og gert var áður fyrr, og þess vegna er okkur nú meiri hætta búin. Þetta er ekki eingöngu af setunum, sem auðvitað hjálpa til að verulegu leyti, innisetunum, en það er fyrst og fremst vegna þess að við róum ekki lengur með árum, við gröfum ekki skurðina lengur með skóflu og við höggvum ekki með haka, heldur látum vélarnar um þetta, en sitjum sjálfir inni í vélunum og stjórnum þeim. Þarna er orsökina að finna fyrir þeirri aðgæslu sem nú er nauðsynleg á ýmsum sviðum umfram það sem áður var. Þetta kemur víðar fram, matvæli geta verið ágæt og fýsileg til neyslu séu þau notuð í hófi, en séu þau notuð í óhófi eru þau skaðleg. Þetta á ekki bara við um smjör, og þetta á ekki bara við um kjöt. Við skulum bara taka áfengi líka. Það vita allir, að áfengi notað í óhófi er stórskaðlegt. En þó menn greini kannske á um það er þó mikill fjöldi manna sem lítur svo á áfengi, að sé þess neytt í hófi geri það ekki neinn verulegan skaða.

Ég held að þessi aðferð hafi verið óheppileg, að hækka þessa vörutegund svona mikið og svona skyndilega, í einu vetfangi, og m.a. vegna þess að þar sem Mjólkursamsalan hefur ekki tekið tillit til óska um að selja léttmjólk, þ.e.a.s. fituminni mjólk, þá sé eðlilegt að undanrennunni sé haldið í hóflegu verði þar til léttmjólkin kemur. Þetta mætti kannske gera með því að dreifa niðurgreiðslunum eitthvað, — það væri ekki aðeins nýmjólkin, sem væri greidd niður, heldur undanrennan líka. Ég tel að það sé mjög mikið atriði að þessi þróun haldi áfram, að við drekkum meira af undanrennu, og margir munu nota þá aðferð núna að blanda saman nýmjólk og undanrennu og drekka það, og það er án efa mjög hollur drykkur. Þess vegna fyndist mér slæmt ef þetta uppnám yrði til þess að tefja þá þróun sem var að komast á, að við færum í örlitlum mæli að taka tillit til læknisfræðilegra atriða við ákvörðun verðlags. Ég hef fyrir mitt leyti árum saman verið á því, að það væri í raun og veru siðferðileg skylda stjórnvalda, ef þau á annað borð eru að skipta sér af neysluvenjum, að þau reyni a.m.k. að hafa eitthvað í huga að stuðla þá frekar að hollustuháttum. Það hefur, eins og ég sagði áður, ekki lukkast. Hérna mætti þó kannske gera smátilraun í þá áttina að örva léttmjólkur- eða undanrennudrykkju á kostnað nýmjólkurinnar.

Hitt er svo vandamálið, sem við eigum við að stríða nú í ár og kannske verður í nokkur ár enn þá á döfinni, það er minnkandi mjólkurdrykkja og vaxandi framleiðsla. Það er mál sem verður vafalaust að leysa á annan hátt en þann sem við erum nú að tala um. En ég endurtek það, að mér fyndist æskilegt að í framtíðinni yrði eitthvað hugað að hollustuháttum um leið og niðurgreiðslur eru ákveðnar eða stjórnvöld fara að hafa áhrif á neysluvenjur.