14.12.1977
Efri deild: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

Umræður utan dagskrár

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil nú hefja mál mitt með því að láta í ljós ánægju mína yfir þeim miklu umr. sem orðið hafa vegna þeirra fsp. sem ég beindi utan dagskrár til hæstv. menntmrh. Þessar umr. hafa farið nokkuð á víð og dreif, og er það út af fyrir sig ekki óeðlilegt. En eins og þeim er kunnugt, sem í upphafi hlustuðu á mál mitt, þá einskorðaði ég nokkuð mikið mál mitt við það, hvernig fréttaflutningur gæti haft áhrif á skoðanir manna og hvernig fjölmiðill eins og ríkisútvarpið gæti verið áhrifamikill um skoðanamyndun, ef tækinu væri til þess beitt.

Mig langar að víkja ofurlítið að einstökum atriðum, sem hafa komið fram í þessum umr., og ég vil leyfa mér að byrja á því að nefna með nokkrum orðum það sem kom fram í tveimur ræðum hv. 2. þm. Reykn., en hann endaði einmitt mál sitt hér með því að nefna það sem ein rök fyrir því, að landbúnaðarvörur væru kannske ekki mjög dýrar hér, það mætti skilja það svo, að bændur væru lægst launaða stétt landsins.

Ég ætla ekki að deila við hv. þm. um hollustu einstakra vara, Það treysti ég mér ekki til að gera. En ég get ekki neitað því, að mér fannst þess gæta nokkuð mikið í máli hans, eins og oft vill verða í sambandi við umr. um mataræði, að ákveðnar vörutegundir eru sífellt nefndar og aðrar alls ekki, þegar talað er um hollustu. Og þar á ég t.d. við það, sem ég held að ég hafi getið um í framsöguræðu minni, að við Íslendingar borðum um það bíl helmingi meira af smjörlíki en smjöri. Langmestur hluti af þessu smjörlíki mun vera framleiddur úr hertri jurtafeiti sem hefur flesta þá sömu eiginleika og nefndir eru að óhollusta stafi af í smjöri. en í það mun vanta ýmisleg þau efni sem hollust eru í smjörinu. Í þessu finnst mér einmitt koma það fram, sem oft vill verða, að menn einskorða sig við ákveðin atriði og gleyma svo öðrum, sem eru í raun og veru miklu varasamari, þegar verið er að tala um hollustu. Nú verður því kannske svarað til, að við höfum verið að tala hér um verð á íslenskum landbúnaðarvörum, en ekki um verð á smjörlíki, En því er þá til að svara að það hefur enn fremur komið fram í máli manna, að menn með verðlagningunni sveigðu almenning til ákveðinnar neyslu eða neyslubreytingar, og auðvitað getum við ekki gengið fram hjá því, að smjörlíki, sem framleitt er með nútímaaðferðum, er mikill keppinautur smjörsins, mjólkurfitunnar, og alveg sérstaklega verður það skæður keppinautur ef því er mjög haldið að mönnum, að önnur þessi vara sé miklu hollari. Ég held einmitt að það sé eitt af því sem varhugavert er í þessum málflutningi, að því hafi verið mjög haldið að almenningi hér á landi á undanförnum árum, að smjörlíki væri miklu hollara en smjör, án þess að fyrir því væru óhrekjanleg rök. Og ég hygg að það sé ekki rangt, að til skamms tíma hafi sjúklingum verið ráðlagt að borða hér smjörlíki, sem var með hertri fitu, engu síður en smjörið, sem við borðum. Ég hygg að það sé ekki rangt, að til skamms tíma hafi læknar hér á landi ráðlagt sjúklingum smjörlíki og við rannsókn hafi komið í ljós, að einmitt þessi vara var að mestu leyti gerð úr hertri fitu, en það er einmitt herta fitan sem ýmsir telja varhugaverða.

Þegar menn eru komnir í þá aðstöðu að geta ekki selt vinnu sína að fullu hljóta menn náttúrlega að bregðast þannig við því, að þeir reyni að leita einhverra úrræða til þess að bæta upp vinnutapið. Og í raun og veru er það sú staðreynd, sem blasir nú við íslenskum bændum, að það er ekki að fullu markaður fyrir vinnu þeirra í landinu. Þetta hefur breyst tiltölulega mikið á skömmum tíma. Ástæðurnar eru aðallega tvær: annars vegar allmikill aukning á framleiðslu vissra vörutegunda og ber þar kannske hæst mjög mikla aukningu á framleiðslu mjólkur nú á örfáum mánuðum, sem hefur gerbreytt markaðsstöðunni, og hins vegar er nokkur samdráttur í neyslu einkum smjörs og nýmjólkur. Þetta hefur valdið vissum örðugleikum, sem koma fram í birgða söfnun og koma fram í því, að þau lög, sem áttu að tryggja bændum fullt verð fyrir ákveðið magn framleiðsluvöru, duga ekki til þess að bændur fái fullt verð fyrir alla sina framleiðslu, og þá skapast vandkvæði sem nú blasa við og erfitt verður úr að leysa.

Það gerir ekkert til þó þess verði getið hér, að til skamms tíma var sú framleiðsla á nýmjólk, sem ekki var seljanleg í landinu sjálfu, nú fyrir bara 2–3 árum, einhvers staðar á milli 5 og 10 millj. lítra, og þetta skapaði ekki mjög mikið vandamál. En það lítur út fyrir að sú mjólkurframleiðsla, sem ekki selst í landinu sjálfu, verði á þessu ári milli 25 og 30 millj, lítra, þannig að það er nokkuð augljóst að á mjög skömmum tíma hefur sú framleiðsla, sem ekki er seljanleg í landinu, aukist gífurlega þó að framleiðslan sjálf hafi ekki aukist um mjög mörg prósent. Framleiðslan jókst að vísu nokkuð í fyrra og allverulega á þessu ári. Þessu veldur, eins og ég sagði, hvort tveggja í senn: aukin framleiðsla og minnkandi markaður.

Annað langaði mig til þess að nefna aðeins í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Reykn. og það voru þau orð hans, eitthvað á þá leið, að honum fyndist ekki óeðlilegt að þessi mikla hækkun á undanrennu vekti athygli fréttamanns og kæmi kannske við hann að einhverju leyti, Þetta er kannske út af fyrir sig alveg rétt. En það er alltaf gott, ef maður undrast eitthvað, að reyna þá að gera sér grein fyrir ástæðunum til þess. Áður en þessi verðhækkun varð fengu framleiðendur ekki nema aðeins rúmar 11 kr. fyrir hvern lítra af undanrennu, og undanrennan hafði ekki hækkað að neinu ráði eða svo til ekkert í meira en tvö ár. Ef við berum þetta saman við það, að talið er að kauphækkanir á þessu eina ári séu í kringum 60%, þá veit ég ekki nema það sé fullkomlega eins mikið undrunarefni og það, að undanrenna, sem ekki hefur breyst verð á í tvö ár, hækki — þó að reyndar skyndilega sé — á milli 60 og 70%. Ég vil líka geta þess, að ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að jafnvel þó að undanrenna með umbúðum kosti núna 100 kr. lítrinn, þá er það ekki dýr drykkur, og ég vil gjarnan fáupplýsingar um þá drykki sem seldir eru hér í verslunum almenningi og eru ódýrari í lítratölu.

Ég held að þarna hafi verið mjög fljótfærnislega ályktað, þegar menn undruðust svo mjög þessa verðbreytingu. Þó er auðvitað rétt að geta þess, að það hefur verið veruleg tregða á því að sumir fulltrúar í sexmannanefnd féllust á breytingar á hlutfalli þessara vara sem verið er að verðleggja í sexmannanefnd. En eitt af því, sem ég tel óeðlilegt við þá verðlagningu og hafi verið óeðlilegt við þá verðlagningu, er það, að hér eru allt önnur hlutföll á milli verðs á mjólk, hvort sem hún er fituskert eða ekki, og t.d. smjöri heldur en er í nágrannalöndum okkar. Og vegna þess, hvernig verðlagningu er hagað, á smjörið erfitt uppdráttar í samkeppninni við smjörlíkið, einmitt af þessum ástæðum.

Í sambandi við fréttaflutninginn vildi ég gjarnan taka það fram, að ég er algerlega á þeirri skoðun, að Ríkisútvarpið eigi að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti. Mér hefur aldrei dottið í hug að halda því fram — þó að ég kunni að hafa einhvern tíma notað ónákvæmt orðalag þá er það alls ekki mín meining — að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutlaust í þeirri merkingu að það láti sig litlu skipta það sem fram fer í þjóðfélaginu. En ég álít að ákaflega nauðsynlegt sé að Ríkisútvarpið bókstaflega leitist við að koma sem flestum skoðunum á framfæri og þegar um viðkvæm mál er að tefla, þá sé það beinlínis mjög nauðsynlegt, að þess sé sem hest gætt, að bæði sé farið með rétt mál af þeim, sem eru starfsmenn stofnunarinnar, og gætt sé jafnvægis í því að leiða hin ýmsu sjónarmið fram. Það, sem ég deildi á, var einungis það, að mér fundust fréttamennirnir sjálfir gerast heimildamenn sjálfra sín um fréttaflutninginn. Þeir voru ekki bara að flytja það sem aðrir höfðu sagt þeim, ekki bara að flytja það sem maðurinn á götunni sagði eða sérfræðingarnir sögðu um þessi mál, heldur kom ný heimild til sögunnar, og það voru fréttamennirnir sjálfir. Það er það sem ég tel í þessu sambandi athugavert.

Það er rétt, sem kom fram hjá einum ræðumanni, að þetta er ekkert nýtt og er ekki í fyrsta skipti sem slíkt hefur gerst í Ríkisútvarpinu. Og það getur vei verið að einmitt hv. þm. séu of seinir til að taka vafasaman fréttaflutning ríkisfjölmiðlanna til umfjöllunar hér á hinu háa Alþ. Það getur vel verið að bæði í þessu efni og ýmsum öðrum veiti hið háa Alþ. stofnunum sínum alls ekki það aðhald, bæði í þessu og á ýmsum öðrum sviðum, sem rétt og nauðsynlegt væri.

Ég get ekki látið hjá líða að þakka menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við fsp. mínum. Ég ætla ekki að fara að svara honum að neinu leyti hér, enda er hann ekki viðstaddur. En þó verð ég að segja það, að ég er ekki víss um að það sé mjög áhrifarík leið að kvarta við starfsmenn Ríkisútvarpsins, þó að mönnum finnist að einhverju leyti hallað máli í fréttaflutningi. Ég held að slíkt verði að gerast a.m.k. annað slagið utan Ríkisútvarpsins.

Það getur líka verið að nokkuð sé til í því sem kom fram hjá 1. landsk. þm., að fólkið í landinu sé orðið þreytt á eilífum auglýsingum um hækkanir á landbúnaðarvörum. En samt er það ekki þreyttara en svo, að það verður, eftir því sem ég best veit, aldrei sú hækkun á landbúnaðarvörum, sem vandlega er raunar auglýst í útvarpi, hvort sem það er rétt eða ekki, að fréttamenn þurfi ekki að endurtaka þessar fréttir — og það oft — fyrir landslýðnum á eftir, þannig að mat fréttamanna er þá alla vega það, að þessar fréttir muni ekki verða ákaflega leiðinlegar.

Það hafa komið mörg ólík málefni fram í þessum umr., eins og ég gat um áðan. Hjá hv. 1. landsk. þm. komu fram ýmsar spurningar, sem beint var til landbrh. Það er sjálfsagt og eðlilegt að hann svari. En mér skilst að hann hafi beint þeim að einhverju leyti til okkar þm. í þessari hv. þd. fyrr og ekki fengið svör þá. Ég ætla mér ekki að fara að þreyta menn með langri ræðu og löngum svörum við þessum spurningum. Þó get ég ekki stillt mig um að geta þess, að ég hef raunar ekki tölur um það, hversu mikla fjármuni ungur maður þurfi í dag til þess að hefja búskap. Ég veit að hann þarf allmarga tugi milljóna til þess að koma sér upp sauðfjárbú í fyrir 1000 fjár norður á Sléttu og byggja yfir sig og búfénaðinn og rækta það sem til þess þarf. (StJ: 50 millj., er það ekki?) Ja, t.d. það, svona 40–50 millj. Þetta geta menn auðvitað gert ef þeir eiga nóga peninga. Menn geta líka keypt sér togara eða annað skip til að veiða loðnu ef þeir eiga nóga peninga. Þeir þurfa bara nokkrum sinnum fleiri milljónatugi til þess að kaupa loðnuskipið heldur en til þess að hefja búskapinn. En það eru litlir lánamöguleikar fyrir þann, sem er að hefja búskap, það er rétt að geta þess. Þeir eru nokkrir, en þeir eru mjög litlir miðað við þann stofnkostnað sem til þarf. Hitt er alger staðreynd, að það er útilokað að setja það niður á blað, eins og verðlag á landbúnaðarvörum er í dag, að það borgi sig að stofna til slíks búskapar. Og auðvitað er það svo, að ef menn ætla að hafa raunverulegt frelsi til atvinnuvals, þá verður það auðvitað að vera í búskap eins og öðrum greinum. Ég er þó ekki meðmælandi þess, að framleiðsla í landbúnaði sé aukin, eins og aðstæður eru í dag, þrátt fyrir það að hungur sé í heiminum og vissulega full þörf fyrir þau matvæli sem íslenskur landbúnaður framleiðir. En aðstæðurnar eru slíkar, fyrst og fremst vegna landbúnaðarpólitíkur nágrannaþjóða okkar, að þess er ekki að vænta að við getum flutt út landbúnaðarvörur með góðum árangri. Norskir bændur fá verulega hærra verð fyrir sitt dilkakjöt heldur en við fáum fyrir okkar hér. Þeir munu fá um 4500 ísl. kr. meira fyrir það sem við köllum meðaldilk, milli 14 og 15 kg þungan, heldur en íslenskur bóndi fær í dag. Við flytjum mest til Noregs af dilkakjöti okkar, þ.e.a.s. við flytjum ekki eins mikið af dilkakjöti til neins eins lands annars og Noregs, en við fáum ekki nema innan við helming af því verði sem norskir bændur fá fyrir sitt kjöt á þeim markaði. Ef við gætum flutt okkar dilkakjöt til Noregs á sama grundveili og Norðmenn flytja skipin sín hingað, sem þeir smíða, eða aðrar iðnaðarvörur, sem þeir selja okkur, þá þyrftum við ekki að biðja um útflutningsbætur á íslenskt dilkakjöt. Íslendingar hafa gert Norðmönnum ómældan greiða með því að byggja upp þeirra fiskiskipaiðnað, byggingariðnað fiskiskipa, með því að kaupa af þeim skip í stórum stíl frá litlum skipasmíðastöðvum. Mér finnst reyndar að þessir frændur okkar ættu nú að taka upp þá viðskiptahætti gagnvart okkur að kaupa þær fáu vörur, sem við seljum þeim, á framleiðslukostnaðarverði, eins og við kaupum allar þær vörur, sem við kaupum af þeim, á framleiðslukostnaðarverði í þeirra landi.

Það er vafalaust að margt fleira mætti um þetta segja, en ég ætla að láta hér staðar numið Ég vil endurtaka þakklæti mitt til þeirra sem hafa tekið þátt í þessum umr. Það er rétt, að það er alltaf dálítið vafasamt, þegar jafnannríkt er í þinginu eins og nú er, að hefja umr, sem þessar. Mig óraði raunar ekki fyrir því, að þessar umr. yrðu svona langar. Ég vil einnig árétta það, að ég geri miklar kröfur til fréttamanna. Ég geri alls ekki kröfur til þess að þeir hafi ekki skoðanir á málum hver og einn, það verða þeir vitanlega að fá að hafa eins og aðrir menn. En þeim ber skylda til þess, þegar þeir flytja fólkinu í landinu fréttir af atburðum, hverjir svo sem þeir eru, að láta ekki persónuleg viðhorf til þess, sem þeir eru að segja frá, breyta framburði sínum eða málflutningi á nokkurn hátt. Það verða þeir að gera. Aftur á móti gegnir að mínum dómi allt öðru máli þegar þú talar við manninn sem þú mætir á götunni, eða þann, sem þú kallar til þess að spyrja. Ég treysti því, að fréttamenn Ríkisútvarpsins skoði ekki þessa gagnrýni sem neina persónulega óvild í þeirra garð, því að ég hef ekki um neitt við þessa menn að sakast persónulega. En ég vil vænta þess, að þessar umr. séu ekki búnar, þó að þeim sé um það bil að vera lokið hér í Alþ., og að þær megi halda að einhverju leyti áfram manna á meðal og ekki þá síst þeirra, sem starfa við ríkisfjölmiðlana.

Ég hef hér lítið fjölyrt um annan þátt, sem mér finnst að hefði verið kannske efni í langar orðræður, og það er leiðaralestur úr dagblöðunum á morgnana. Ég er raunar þeirrar skoðunar, að þeir möguleikar, sem menn hafa þar og blöð hafa þar til að koma skoðunum sínum á framfæri, séu stundum mjög misnotaðir og mkr finnst að það væri ekki nema rétt, að Ríkisútvarpið velti því fyrir sér, hvort ekki sé hægt að gera menn á einhvern hátt nokkru ábyrgari fyrir því sem skrifað er í leiðurum blaðanna en nú er. Það gæti sjálfsagt ýmislegt komið þar til greina. Ég vil ekki gera lítið úr því, að leiðaralesturinn hlýtur að flytja landsmönnum ýmsan fróðleik og gefa landsmönnum undir mörgum kringumstæðum mjög gott tækifæri til að átta sig á þeim málum sem eru á baugi hverju sinni, en mér finnst að þess hafi gætt, að vissir hópar í þjóðfélaginu, og þar á ég m.a. við bændur, hafi oft orðið fyrir barðinu á þessum leiðaralestri á ósanngjarnan hátt og án þess að geta svarað á sama vettvangi og í sömu mynt. Þetta ætla ég þó ekki að gera frekar að umræðuefni og læt máli mínu lokið.