14.12.1977
Neðri deild: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

125. mál, virkjun Blöndu

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv.. forseti. Efni þessa frv. um virkjun Blöndu er að veitt sé heimild til þess að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila að reisa og reka vatnsaflsstöð við Blöndu í A.-Húnavatnssýslu með allt að 150 mw. afli.

Þetta frv. var fyrst lagt fram í lok þings 1976, síðan var frv. lagt fram að nýju í mars 1977 og fylgdu því þá ný orkuspá og kostnaðaráætlun. Frv. er nú flutt að nýju nær óbreytt, og því fylgja umsagnir sem hv. iðnn. þessarar d. fékk á síðasta þingi, en með þessu frv, er prentuð umsögn Rafmagnsveitna ríkisins og útdráttur úr umsögn Orkustofnunar.

Þegar frv. var lagt fram í þessari hv. d. í mars á þessu ári urðu um það miklar umr. og málinu var síðan vísað til iðnn. að lokinni 1, umr. Hv, iðnn. leitaði þá, eins og ég gat um, umsagnar ýmissa aðila um frv., og það ætti að greiða fyrir meðferð málsins á Alþ. nú að ýmsar umsagnir höfðu borist.

Blönduvirkjun hefur marga kosti. Eftir þeim rannsóknum og áætlunum, sem gerðar hafa verið, er ljóst að Blönduvirkjun er í hópi hagkvæmustu vatnsaflsvirkjana á Íslandi. Áætlaður stofnkostnaður samkv. fskj. II er 14.8 milljarðar á verðlagi í mars þetta ár. Framleiðslukostnaður á kwst. er 2 kr. 43 aurar og það er mjög sambærilegt við aðrar þær virkjanir og virkjunarmöguleika sem hagkvæmastir eru taldir á Íslandi. Ýmsir aðrir kostir eru við virkjun Blöndu, m.a. sá, að hún er vel staðsett varðandi aðalorkuflutningslínu milli Suður- og Norðurlands, einnig að virkjunin er utan eldvirkra svæða, en stærstu raforkuver landsins eru á eldvirkum svæðum. Blönduvirkjun hefur mjög góða miðlunarmöguleika, sem stuðlar að auknu rekstraröryggi virkjunarinnar og getur einnig aukið orkuvinnslugetu annarra virkjana sem tengdar eru orkudreifingarkerfinu. Þar sem myndarleg virkjun er reist njóta nálæg byggðarlög verulega góðs af. Það örvar atvinnulífið og skapar margvíslega möguleika fyrir traustari atvinnuuppbyggingu.

Það er annmarki á Blönduvirkjun að töluvert af ræktuðu landi mundi fara undir miðlunarlón fyrir þessa stórvirkjun. Vegna þess, hve hér er um mikilvægt mál að ræða og sérstöðu þess að ýmsu leyti, voru þegar á árinu 1975 hafnar viðræður við heimamenn til þess að kynna þeim málið og leita útlits þeirra. Í framsögu með frv. á síðasta þingi rakti ég gang mála allítarlega í þessu sambandi og skal því ekki endurtaka það hér.

Í fskj. III með frv. eru birt drög að samkomulagi um bætur vegna Blönduvirkjunar. Aðalatriði þeirra draga er að virkjunin láti viðkomandi hreppum í té ókeypis raforku að vissu marki, en hrepparnir eða upprekstrarfélögin skipti því milli býlanna. Í þessu sambandi er rétt að vitna í umsögn Rafmagnsveitna ríkisins frá því í apríl s.l., þar sem er vísað til 66. gr. vatnalaganna, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er fallvatn tekið lögnámi samkv. 54., 59., 64. og 65. gr., og er þá eiganda þeirrar landareignar, sem það er í, rétt að krefjast þess, enda hafi rétturinn til orkunýtingar ekki verið áður skilinn frá eigninni, að honum verði látin í té raforka til þarfa sinna, í stað endurgjalds peningum, frá orkuverinu.“

Hugmyndirnar í þessum drögum að samkomulagi eru því byggðar á þessu ákvæði vatnalaga. Ég minntist á það, að allmikið af ræktuðu landi mundi fara undir vatn, en í þess stað er ætlunin að rækta upp jafnmikið og jafngott beitiland og það sem undir vatn fer. Rannsóknir af hálfu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins liggja fyrir um þessa möguleika, og er gert ráð fyrir því, að sú stofnun ásamt Landgræðslu ríkisins annist þessa uppgræðslu og ræktun. Iðnrn. hefur leitað umsagnar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í í sambandi við þessa fyrirhuguðu ræktun og er þeirrar umsagnar að vænta bráðlega.

Það er misskilningur, sem stundum verður vart við, að nægileg raforka eða jafnvel of mikil raforka sé nú til í landinu. svo jafnvel út af flói. Hér er, eins og ég gat um, um verulegan misskilning að ræða. Á. s.l. vetri var ástandið þannig, að lítið mátti út af bera og veruleg hætta var á orkuskorti í landinu. Fyrirhugað var að Sigölduvirkjun tæki til starfa haustið 1976, en af ýmsum ástæðum varð dráttur á því, þannig, að hún tók ekki til starfa fyrr en á þessu ári. Á s.I. vetri var vegna þessa dráttar veruleg hætta á orkuskorti. En það sem kom í veg fyrir að svo yrði, var í fyrsta lagi óvenjumildur vetur, í öðru lagi að sumarið 1976 var mjög gott vatnsár, eins og það er kallað hjá sérfræðingum, og í þriðja lagi að engar alvarlegar bilanir eða truflanir skyldu verða í hinu mikla kerfi Landsvirkjunar. Ef eitthvað af þessu hefði orðið, hvað þá ef allt hefði gerst í senn, hefði hér orðið um alvarlegan raforkuskort að ræða.

Það er einnig svo, að þegar Sigölduvirkjun er að fullu tekin til starfa með sínum þremur 50 mw. vélum endist sú stöð að afli til ekki lengur en til ársins 1979. M.ö.o.: Sigölduvirkjun verður fullnýtt að afli á árinu 1979, eftir u.þ.b. 2 ár. Verði Kröfluvirkjun ekki komin þá í rekstur og eðlilega framleiðslu er viðbúið að hér verði orkuskortur, eða þurfi í mjög stórum stíl að nýta dísilstöðvar með öllum þeim gífurlega kostnaði sem því er samfara.

Það er, eins og kunnugt er, búið að veita virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossvirkjun, og er stefnt að því, að á árinu 1982 geti Hrauneyjafossvirkjun tekið til starfa, en að sú virkjun verði fullnýtt að afli á árinu 1986. Verður þá ný virkjun að vera tilbúin. Það er skoðun mín, að mjög væri æskilegt og rétt að stefna að því, að Blönduvirkjun verði næsta stórvirkjun sem ráðist yrði í og yrði tilbúin þegar Hrauneyjafossvirkjun er að verða fullnýtt.

Það er rétt í sambandi við þær hugmyndir og umtal, sem stundum verður um að raforka sé ekki aðeins nægileg, heldur of mikil og að í of mikið sé ráðist um virkjanir, að benda á það að samkvæmt þeim nýjustu orkuspám, sem fyrir liggja, þarf raforkumarkaðurinn um 120–150 mw. nýjar virkjanir á 5 ára fresti til þess að fullnægja eftirspurn eftir raforku. M.ö.o.: virkjun eins og Blönduvirkjun nægir ekki lengur en í 4 eða mesta lagi 5 ár. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda enn þá á það sjónarmið, sem er varasamur misskilningur, að um leið og virkjun tekur til starfa skuli vera seld eða seljanlegt á sömu stundu eða alveg á næstunni allt það afl og orka sem hún framleiðir. Þetta sjónarmið, sem allt of oft vill skjóta upp kollinum hjá sumum, þýðir það að dæma landslýðinn til eilífs orkuskorts.

Það er öllum ljóst, að virkjanir verður að miða við það að þær séu nokkuð við vöxt, þannig að nægileg orka sé jafnan fyrir hendi, ekki aðeins til heimilisnota, heldur ekki síst fyrir atvinnurekstur. Fyrir allan atvinnurekstur — hvort sem hann er fyrir eða um er að ræða hugmyndir um nýjan atvinnurekstur — er brýn nauðsyn að hafa öryggi um að orka sé nægileg, en atvinnureksturinn megi ekki við því búast að þurfa að þola orkuskort.

Það er enginn vafi á því, að hið alvarlega ástand, sem í nokkur ár hefur ríkt á Norðurlandi bæði varðandi orkuskort og horfur í þeim efnum, hefur verið sem lamandi hönd á nýjan atvinnurekstur þar og verður það jafnan ef ekki er búið að orkuframleiðslu þannig að sæmilegt öryggi sé til nokkurrar frambúðar.

Það er rétt að geta hér um þær rannsóknir sem gerðar hafa verið við Blöndu nú á þessu ári. Það fóru í fyrsta lagi fram rannsóknir á stíflustæði og skurðleiðum. Á því svæði voru boraðar 7 kjarnaholur, samtals 226 m á dýpt, og aðrar 14 holur samtals 458 m á dýpt. Niðurstöður af þessum borunum voru jákvæðar. Jarðsveiflumælingar og viðnámsmælingar til könnunar á þykkt lausra jarðefna voru einnig framkvæmdar og kort gerð af þessum svæðum með 1 m hæðarlínu. Þá var fram haldið líffræðirannsóknum í stöðuvötnum, enn fremur haldið áfram leit að byggingarefnum, einkum stífluefnum, og rannsókn þeirra. Þá fóru einnig fram rannsóknir á hugsanlegu stöðvarhússtæði og var þar boruð ein 350 m djúp hola. Fullnaðarniðurstöður af þeirri rannsókn liggja ekki enn fyrir frá Orkustofnun. Kostnaður við þessar rannsóknir á s.l. sumri er um 60 millj., og á næsta ári er áætlað að heimilt verði að verja rúmum 100 millj, til rannsókna á virkjunarsvæði Blöndu.

Ég mun til viðbótar því, sem ég ræddi í vor í framsögu um þetta mál, ekki halda hér lengri framsöguræðu. Ég bendi á að hér er um heimildarlög að ræða sem hafa stefnumótun í för með sér og viljayfirlýsingu af Alþ. hálfu.

Ég legg til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv, iðnn.