14.12.1977
Neðri deild: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

21. mál, kosningar til Alþingis

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Umr. hafa orðið allmiklar um þetta frv, og alllangar. Hygg ég að nú sé það í fimmta eða sjötta sinn tekið fyrir. Ég skal ekki tefja umr. úr hófi fram. Ég ætlaði mér satt að segja ekki að tala í þessu máli fyrr en þá kannske eftir að frv, kæmi úr n., en mér sýnist allt stefni að því, að það sé mjög vafasamt að það komi úr n. nú á þessu þingi. Þess vegna vil ég fara um frv. örfáum orðum.

Aðalefni frv. er, eins og fram kemur í 1. og 2. gr., að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur um framboðslista, en þar hefur mönnum verið raðað eftir ákvörðun viðkomandi flokka. Nú á að breyta því í það horf, að frambjóðendum sé raðað í stafrófsröð. Mér sýnist fljótt á litið að þetta sé verulegt skref aftur á bak og geti orðið þannig framkvæmt, að það mundi verulega torvelda kjósendum að greiða atkv. og örugglega tefja kosningar talsvert.

Um tilgang með flutningi þessa frv. skal ég ekki taka eins djúpt í árinni og hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði, sem hélt því fram, að frv. væri fram komið vegna áróðurs frá einstaka mönnum sem kannske hefðu hug á því að fá kosningalögunum breytt þannig að það gæti orðið möguleiki fyrir þá, sem annars hefðu ekki fylgi innan sinna flokka, að komast í efstu sæti eða í vonarsæti á listum flokkanna. Ég skal ekki um þetta dæma, en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að áhrif hafi haft sá áróður, sem hefur verið fyrir því í fjölmiðlum að undanförnu að gera kosningarnar persónulegri eða láta kjósendur hafa meiri bein áhrif á kosningarnar, þannig að þeir gætu frekar valið um persónur heldur en nú er, er þeir standa frammi fyrir því að þurfa að velja um flokka. Ég skal ekki neitt um það fullyrða að þetta hafi ráðið nm flutning þessa frv., en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að þetta hafi haft nokkur áhrif á flm., hv. 14. þm. Reykn.

Ég skil 4. gr. frv. þannig — og ég held að flm. hljóti að meina það — að ef menn greiða atkv. án þess að gera nokkra breytingu á listann, þannig að þeir númeri ekki frambjóðendur, setji þá ekki í neina röð, falli atkv. að sjálfsögðu til listans og þá jafnt til allra þeirra á listanum sem raðað er í stafrófsröð, en eins og segir í 2. málsl. 4. gr.:

„Hafi kjósendur notað rétt sinn skv. 2. málsgr. 84. gr. til þess að raða frambjóðendum á listann ræður sú röðun við úthlutun þingsæta af listanum.“

Ég tel mig hafa nokkra og alllanga reynslu af kosningum og ég fullyrði að það er rétt, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að það er ekki almennur vilji kjósenda að vera settir í þá aðstöðu að þurfa að tölusetja frambjóðendur, heldur er það örugglega ósk þeirra, að kosningin sé gerð sem allra einföldust. Ég geri mér að sjálfsögðu ljóst, að það eru einstakir menn innan flokkanna og einstakir kjósendur í landinu sem vilja hafa það fyrirkomulag að geta haft þessi beinu áhrif en almennt er það ekki, það þori ég að fullyrða. Það er yfirgnæfandi meiri hl. kjósenda, sem vill hafa kosningarnar sem einfaldastar, en ekki láta flækja þær með því að þurfa að setja númer framan við nöfn manna á listanum, enda á ég satt að segja mjög erfitt með að sjá hvernig hægt væri að framkvæma með góðu móti kosningar, t.d. hér í Reykjavík þar sem eru um 48–50 þús. manns á kjörskrá, ef ætlast væri til þess að allir kjósendur færu að setja númer fyrir framan þá frambjóðendur á listanum sem þeir vildu helst, þar sem getur verið um allt upp í 6–8 nöfn að ræða, sem þeir teldu að gætu verið eða væru örugg sæti, og þyrftu kannske að raða 10 og allt upp í 12 sæti. Af þeirri reynslu sem ég hef af kosningum, er ég sannfærður um að það yrði mjög erfitt að framkvæma kosningar hér á þessu svæði, bæði í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi, þar sem kjósendur eru þetta margir, og kosningarnar yrðu örugglega mjög tafsamar, bæði sjálfar kosningarnar og eins þegar ætti að fara að gera upp úrslit kosninganna.

Þetta er nú kannske ekki aðalatriðið. Aðalatriðið hjá mér er það, að ef þetta er rétt skilið, að þeir kjörseðlar, þar sem kjósendur hefðu ekki notað sér rétt samkv. 2. málsgr. 84. gr., eins og lagt er til í frv., og ekki hreyft neitt við röðun manna á lista, heldur krossað við listann í stafrófsröð, komi jafnt til góða öllum á listanum, þá gæti farið svo, að það væri raunverulega aðeins lítill hluti þeirra kjósenda, sem greiddu atkv., sem hefði áhrif og réði í raun og veru um það, hverjir væru kosnir af hverjum lista. Við skulum segja að helmingur kjósenda greiddi listanum atkv. án þess að nota sér rétt sinn til röðunar, en hinu helmingurinn gerði það, þá væru aðeins þeir, sem notuðu rétt sinn til röðunar, sem raunverulega hefðu áhrif. Hin atkv. féllu dauð og ómerk að þessu leyti. Ég hygg að það sé ekki spor í rétta átt að setja kjósendur í þá aðstöðu, að ef þeir vilji í raun og veru láta atkv. sín gilda eitthvað, þá séu þeir neyddir til þess að taka upp þetta kerfi, sem lagt er til í 4. gr., að raða frambjóðendum eða tölusetja frambjóðendur í þeirri röð sem þeir telja að eigi að vera á listanum.

Það er þetta ákvæði sem ég tel að sé spor aftur á bak. Ég þykist þekkja svo vel til þessara mála, að ég er sannfærður um að aldrei yrði meira en helmingur af kjósendum sem mundi nota sér þennan rétt. Þar með kæmu atkv. hinna ekki til greina í þeim skilningi að þeir hefðu áhrif á það hverjir kosnir yrðu, þar sem tekið er fram í síðari málsl. 4. gr., að það er aðeins röðun á listann sem ræður úrslitum við úthlutun þingsæta. Ég held því að grundvöllurinn fyrir þessu frv. sé þannig, að það mundi verða stórt skref aftur á bak í kosningum ef inn á það væri farið, bæði í þeim skilningi, að það mundi tefja mjög kosningarnar, gera þær allar erfiðari í framkvæmd, og annað, sem er þó verst, að það mundi alls ekki vera rétt mynd af vilja kjósenda hverjir færu inn af hverjum lista. Þetta er það sem ég tel þurfa að athuga, og ég mun ekki undir neinum kringumstæðum treysta mér til að greiða atkv. með frv. eins og það liggur fyrir.

Annað atriði, sem ég sé varhugavert við þetta frv., er að í grg. kemur það greinilega fram og er beint tekið fram í c-lið aths. með frv., að flm. ættast til þess að þau prófkjör, sem nú eru framkvæmd í sambandi við val manna á framboðslista legðist niður og prófkosningarnar verði raunverulega samtímis hinum almennu kosningum. Þetta táknar að hver frambjóðandi, sem hefði áhuga á því að komast áfram, ná sér í fylgi, yrði — eins og nú er gert í prófkjöri — að setja upp sína kosningaskrifstofu og reyna að hafa áhrif á þá kjósendur, sem hann hefði tök á, til þess að setja sig í það sæti sem hann sjálfur teldi sig eiga að vera í.

Nú vitum við að framkvæmd á þeim prófkjörum, sem verið hafa í sambandi við þær kosningar sem fram undan eru, hefur verið á þann veg, að ég hygg að flestir séu búnir að gera sér grein fyrir því, að það eru tvær hliðar á framkvæmd prófkjöra. Ég hygg að menn séu orðnir almennt sammála um það, að ef prófkjör eiga að vera í framtíðinni verði að setja um þau einhverjar ákveðnar reglur, þannig að það mundi ekki ske, það sem nú hefur skeð í þessum prófkosningum og öllum er ljóst, að sömu menn kjósa kannske hjá tveimur og jafnvel þremur flokkum og kannske fleiri en einum flokk sama daginn. Þetta er örugglega ekki mynd af því lýðræði sem við ætlumst til að við sé haft í prófkjörum. Þess vegna hlýtur að koma að því, að Alþ. setji reglur um prófkjör. Prófkjör geta verið ágæt og þau geta verið nauðsynleg, en það form, sem nú er viðhaft, þar sem hver flokkur getur ákveðið, hvaða form hann hefur í prófkjöri, og alveg ráðið því, er vafasamt. Ég tel að þetta þurfi að endurskoða og að fram þurfi að koma ákveðnar reglur, þar sem opinberir aðilar hefðu eitthvert eftirlit með framkvæmd á sjálfum prófkjörunum.

Flm, bendir á í grg., að hann vilji forðast að prófkjörin skilji eftir „sár meðal samherja, sem síðar verða að vinna saman í sjálfum kosningunum“, eins og segir orðrétt í grg. með frv. Ég hygg að þetta yrði enn þá erfiðara ef kosningalögin ættu að vera þannig, að hin raunverulegu prófkjör færu fram samtímis eða í sjálfri kosningabaráttunni, því þar yrðu auðvitað hörð átök innbyrðis meðal frambjóðenda hvers flokks og kosningabaráttan mundi sennilega nokkuð fara út í það, að menn í flokkunum færu að berjast innbyrðis um sæti á listunum, en áróður fyrir málstað hvers flokks sæti þá frekar eftir, Og ef það er rétt, sem hér kemur fram í grg. sem ég las áðan, að flm. telur að prófkjörin hafi skilið eftir sár hjá mönnum, þá væri síst betra, að slíkt ástand skapaðist í sjálfri kosningabaráttunni og þá daga sem á undan kosningunni fara, en á sjálfan kjördaginn.

Ég tel því að þetta frv. þurfi að athuga mjög vel í þeirri n. sem það fer til, og ég satt að segja á varla von á því, að menn geti orðið þar sammála um þetta mál, eftir þeim umr. sem maður hér hlustaði á, eða að samkomulag verði um að koma frv. út úr n. Ég mundi telja best farið að það fengi að daga uppi í þeirri n, sem fær það til meðferðar. Ástæðan fyrir því er sú sem ég hef hér greint frá, að að mínum dómi er þetta spor aftur á bak og mundi verða til þess að tefja framkvæmd kosninganna og mundi verða til þess að gera kjósendum erfiðara fyrir við kosningarnar, sem ég fullyrði að er þvert ofan í vilja meginhluta kjósenda sem óska eftir því að kosningar almennt séu sem allra einfaldastar og auðskildastar og þeir eigi sem greiðastan aðgang að því að láta með sem hægustu móti vilja sinn í ljós með því að setja kannske einfaldan kross við þann lista sem þeir vilja styðja.

Ég hygg að í og með hafi það kannske haft nokkur áhrif á hv, flm., að það er mjög orðið í tísku að tala um klíkur innan flokkanna sem ráði framboðum. Ég hygg að þetta sé á miklum misskilningi byggt. Ég satt að segja fæ ekki almennilega skilið að nokkrum forustumanni flokks detti í hug að láta það ráða framboðum, hvaða menn einhver klíka telur að eigi að vera í framboði. Það hlýtur að vera, að þeir fari þarna nokkuð eftir því sem þeir vita um frambjóðendur, hvort þeir hafa fylgi og traust kjósendanna. Þeir hljóta að láta það frekar sitja í fyrirrúmi, því ef þeir tækju þann kostinn að fara eftir eigin duttlungum eða kröfum einhverra tiltekinna aðila, væri hætt við að þeir fengju að kenna á því í kosningum og að sá listi, sem þannig yrði staðið að, næði aldrei þeim árangri sem flokkslistinn mundi ná, ef þannig yrði að staðið, sem ég held að sé almennt núna, að þeir, sem ráða þar málum, geri það ekki af neinum klíkuskap. Þeir gera það hreinlega vegna þess að þeir telja víst og hafa örugglega látið rannsaka það mjög vel, hvaða aðilar það eru sem fólkið í þeirra flokki helst muni bera traust til og geti náð best til kjósenda. Annað væri að mínum dómi hrein fjarstæða, því auðvitað er hörð samkeppni á milli flokkanna um að koma sínu framboði þannig fyrir, að ætla megi, að listinn hafi sem allra mest traust kjósenda og sé líklegur til þess að draga að flokknum atkvæði og þar af leiðandi styrkja aðstöðu flokksins í heild. Þetta finnst mér líklegra en að einhverjar klíkur ráði málum, kannske eftir geðþótta einstakra manna sem sjálfir vilja komast í framboð. Ég þekki a.m.k ekki annað sjónarmið í sambandi við uppstillingu á lista en það, að á listana eru valdir þeir menn sem almennt er talið að hafi mest traust.

Ég hygg að þeir, sem lengi hafa fengist við kosningar, hafi rekið sig á það, og á ég þar frekar við sveitarstjórnarkosningar, að oft er erfiðara að fá menn til að taka sæti á listum en menn ætla. Það er örugglega um allt land mjög mikið af góðum og gegnum mönnum, sem fólkið vildi fá í kosningar, hvort heldur er til sveitarstjórna eða Alþ., en þeir hafa hreinlega ekki gefið kost á sér og þess vegna ná flokkarnir kannske ekki þeim árangri sem þeir gjarnan vildu, þó þeir hafi innan sinna vébanda menn sem fólkið mundi e.t.v. treysta betur en þeim mönnum sem endanlega lenda á listunum. Ég tel því að það hljóti að vera mjög hörð samkeppni á milli flokkanna einmitt á þessum grundvelli, að búa sína lista sem best út, frekar en að um nokkurn sé að ræða sem geti ráðið því, að listinn verði veikari en hann annars gæti orðið.

Ég sagði í upphafi, að ég mundi ekki telja umr, um þetta mál, og ætla því ekki að hafa þetta lengra, en taldi mig þó vilja segja um frv, nokkur orð áður en það fer til n., af því ég satt að segja á varla von á að það komi úr n. aftur á þessu þingi.