14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Þegar frv. til fjárl. fyrir árið 1978 var lagt fram í þingbyrjun var kjarasamningum opinberra starfsmanna ólokið. Kauplags- og verðlagsforsendur frv, voru í aðalatriðum reistar á kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda frá því í júní að því er tekur til grunnkaupshækkana, en ekki var reiknað með áhrifum verðbóta á laun eftir 1. sept. s.l. Með frv. var stefnt að aðhaldi í ríkisfjármálum í því skyni að draga úr verðbólgu og koma í veg fyrir aukinn halla í viðskiptum við útlönd. Til þess að ná þessu markmiði var talið nauðsynlegt að draga úr opinberum framkvæmdum í heild og takmarka aukningu samneyslu við fólksfjölgun og beita sköttun á þann veg, að einkaneysla ykist heldur hægar en annars mætti búast við.

Nýgerðir kjarasamningar við opinbera starfsmenn og síðustu spár um verðlagsþróun á næsta ári gefa til kynna, að ríkisútgjöld muni hækka verulega — einkum laun og tryggingagjöld — umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Jafnframt stefnir í meiri aukningu einkaneyslu og þar með þjóðarútgjalda en samrýmist markmiðum fjárlagafrv.

Í ljósi þessara viðhorfa þarf að endurskoða bæði gjalda- og tekjuhlið frv. Við þessa endurskoðun er miðað við sömu verðlagsforsendur og við gerð lánsfjáráætlunar, eða um 30% almenna hækkun verðlags á næsta ári, og þó rúmlega 42% hækkun á verðlagi samneysluútgjalda. Eins og nú horfir er fremur hætt við því, að þessar verðspár séu of lágar en of háar, og því brýnt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að hamla gegn verðbólgu.

Fjárlaga- og hagsýslustofnun áætlar að hækkun ríkisútgjalda til samræmis við þessar breyttu horfur muni verða um 18.3 milljarðar kr. frá fjárlagafrv., þar af 13.1 milljarður á launalið og 3.9 milljarðar á útgjöldum almannatrygginga, sem fylgja launum að miklu leyti. Hækkun á öðrum liðum er talin nema 1.3 milljörðum, þar af 500 millj. vegna ullarniðurgreiðslna og tæplega 500 millj. vegna hækkunar markaðra tekjustofna til samræmis við nýja tekjuáætlun.

Þjóðhagsstofnun vinnur nú að endurskoðun tekjuáætlunarinnar 1978 í ljósi nýjustu vitneskju um innheimtu ríkistekna 1977 og nýrrar þjóðhagsspár fyrir næsta ár. Þar kemur fram, að innheimta ríkistekna á árinu 1977 verði að líkindum svipuð og spáð var í fjárlagafrv. í haust, eða 96.5 milljarðar kr., þó fremur undir þeirri fjárhæð en yfir. Á þessum grunni og með breyttum verðlagsforsendum 1978 — en hins vegar áfram miðað við 4% aukningu þjóðarútgjalda — er áætlað að innheimtar ríkistekjur verði 10.7 milljörðum meiri en áætlað var í fjárlagafrv. Í þessari áætlun er miðað við að skattvísitalan verði 131 stig, en hækkun meðaltekna verði líklega um 42% milli 1976 og 1977. Þetta hefur í för með sér hækkun tekjuskatts um 300 millj. umfram áætlun fjárlagafrv., þar sem miðað var við 40% tekjuaukningu. Auk þess er reiknað með að tekjur af eignarskatti verði um 300 millj. kr. meiri en áætlað er í frv., þar eð verðhækkun fasteignamats mun yfirleitt verða á bilinu 30–35% í stað 30% í fyrri áætlun. Skattfrjáls eign mun hækka úr 6 í 8 millj. fyrir einhleyping og úr 9 í 12 millj. kr. fyrir hjón samkv. till. sem fram hafa komið í fjh: og viðskn. Ed. við það frv. sem d. fjallar um varðandi breyt. á skattalögunum. Hækkun gjalda af innflutningi er talin vera nálægt 3.7 milljörðum kr. og á sköttum af seldum vörum og þjónustu nálægt 5 milljörðum kr. Hækkun á mörkuðum tekjustofnum er innan við 500 millj. kr. og hækkun almennra tekna verður því líklega nálægt 10.2 milljörðum kr.

Niðurstöður endurskoðaðra tekju- og útgjaldaáætlana ríkissjóðs á næsta ári leiða í ljós hækkun gjalda er nemur 18.3 milljörðum kr. og hækkun tekna sem að öllu óbreyttu er talin nema um 10.7 milljörðum kr. Sá fjáröflunarvandi, sem við er að glíma, nemur því 7.6 milljörðum kr. Þennan vanda hyggst ríkisstj. leysa bæði með lækkun útgjalda og nýrri tekjuöflun.

Ég greindi í gær í ræðu minni í Sþ. við 2. umr. fjárl. frá till. um lækkun ríkisútgjalda er nema rösklega 3.7 milljörðum kr. Meginatriði þessara till. eru fólgin í lækkun launaáætlunar um rúmlega 1.7 milljarð vegna minni eftirvinnu — og lækkunar annarra aukagreiðslna. Einnig er lagt til að framlag úr ríkissjóði til Byggðasjóðs verði lækkað um 330 millj. kr., en gert er ráð fyrir að ráðstöfunartekjur sjóðsins verði samkv. þeirri löggjöf sem um hann gilda, 2% af heildarfjárhæð fjárlaga. Þátttaka einstaklinga í beinum greiðslum fyrir lyf og sérfræðilega læknisþjónustu verður og aukin, auk þess sem reynt verður að draga úr ýmsum útgjöldum eftir því sem við verður komið.

Samtals er gert ráð fyrir að lækka ríkisútgjöldin um rúmlega 3.7 milljarða kr., en að auki er gert ráð fyrir lækkun tekjuöflunar og framkvæmdafjár til vegagerðar frá því sem var í fjárlagafrv. Til viðbótar þessu er síðan ráðgert að draga úr lánsfjármögnuðum opinberum framkvæmdum um nálega 900 millj, kr. frá því, sem var í fjárlagafrv., í því skyni að erlendar lántökur fari ekki fram úr endurgreiðslu eldri lána og því sem telja má nauðsynlegt til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna. Þessum málum eru gerð rækileg skil í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1978 sem lögð var fram á þingi í gær.

Nauðsyn aukins aðhalds í ríkisfjármálum, eins og að var stefnt í fjárlagafrv., er nú enn brýnni en áður í ljósi þróunar verðlags og utanríkisviðskipta á síðustu mánuðum. Hætta á vaxandi verðbólgu og auknum viðskiptahalla er nú greinilegri en fyrr á árinu og því enn mikilvægara að haldið verði fast við markmið fjárlagafrv. Jafnvægi í ríkisfjármálum og endurgreiðsla á skuldum ríkissjóðs er einnig eitt af frumskilyrðum þess, að stjórn peningamála verði með þeim hætti sem að er stefnt í lánsfjáráætlun.

Við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum, einkum með tilliti til verðlagsþróunar, er nauðsynlegt að brúa bilið milli tekna ríkissjóðs fyrst og fremst með ráðstöfunum sem hafa ekki bein áhrif á verðlag og auka innlendan sparnað er komi í stað erlendrar lántöku.

Það frv., sem hér er til umr., mun færa ríkissjóði, ef samþ. verður, aukin fjárráð á næsta ári sem nemur 1.5 milljarði kr. Öflun þess fjár er þríþætt: 1) Álagning 10% skyldusparnaðar á tekjur fyrir ofan visst mark skilar á árinu 1978 1 mill;jarði. 2) Tvöföldun flugvallagjalds á utanlandsferðir gefur í auknar tekjur 300 millj. 3) Heimild til álagningar gjalds á gjaldeyrisleyfi verði rýmkuð í 2% og henni beitt þannig að það gefi ríkissjóði í auknar tekjur 200 millj.

Auk þessa frv. hefur verið lagt fram stjfrv., flutt af hæstv. heilbr.- og trmrh., um hækkun sjúkratryggingagjalds í 2%, sem verið hefur 1% af brúttótekjum einstaklinga, en það mun auka tekjur ríkissjóðs vegna tryggingakostnaðar á árinu 1978 um 1.9 milljarða kr.

Enn fremur hefur verið lagt fram stjfrv. um álagningu sérstaks jöfnunargjalds af sælgæti, kexi, brauðvöru o.fl. og er það á dagskrá þessa fundar í kvöld. Það frv. er til þess að jafna samkeppnisaðstöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innflutningi, en jafnframt félli þá niður niðurgreiðsla á hráefnisverði til þessarar framleiðslu. Talið er að gjald þetta muni skila ríkissjóði 300 millj. kr. 1978 þegar allt er talið.

Auk þessara ráðstafana er gert ráð fyrir hækkun bensíngjalds, eins og heimilt er að óbreyttum lögum, en sérstök hækkun — um 7.50 kr. á lítra — er þar að auki með sérstökum lögum. Frv. að þeim lögum hefur verið útbýtt og er til umr. á þessum fundi. Til jafns við þá hækkun hækki þungaskattur. Þessar einstöku ráðstafanir munu skila ríkissjóði 300 millj. kr. lægri tekjum en áætlað er í fjárlagafrv., og framkvæmdafé til vegagerðar mun því lækka um þá fjárhæð, eins og þegar hefur verið getið.

Með þessum hætti skortir eilítið á að náðst hafi fullur jöfnuður í ríkisfjármálum 1978, ef frv. þessi verða að lögum. Nákvæmar niðurstöður fást fyrst í meðförum fjvn. fyrir 3. umr. fjárlagafrv., og verða þá gerða viðeigandi ráðstafanir til að eyða hugsanlegum halla, sem eftir kynni að standa þegar endanleg endurskoðun tekjuáætlunar hefur verið lögð fram.

Þær ráðstafanir, sem hér hefur verið lýst, eru nauðsynlegar til þess að tryggja að þeim þjóðhagslegu markmiðum, sem sett voru fram í fjárlagafrv., verði náð á næsta ári, auk þess sem jafnvægi í ríkisfjármálum er nauðsynleg forsenda við stjórn efnahagsmála á næsta ári.

Séu áhrifin af þeim ráðstöfunum, sem hér hefur verið stuttlega lýst, dregin saman er niðurstaðan sú, að einkaneyslan er talin aukast á næsta ári um 6% eða rúmlega það, sem er svipað hlutfall og miðað er við í fjárlagafrv. Opinberar framkvæmdir dragast saman um nær 9% eða nokkru meira en samkv. fjárlagafrv. Aukning þjóðarútgjalda og þjóðarframleiðslu yrði eftir sem áður svipuð og lagt var til grundvallar við gerð fjárlagafrv., eða 3–4%, og viðskiptahalli ekki meiri en á þessu ári.

Í 1. gr. þess frv. sem hér er fjallað um, en í þeirri grein eru ákvæðin um skyldusparnað, er gert er ráð fyrir að einstaklingur greiði 10% af skattskyldum tekjum sínum sem eru umfram 2.4 millj. Samsköttuð hjón greiði sama hlutfall af skattskyldum tekjum skattársins 1977 að frádregnum 3 millj. 100 þús., en hjón, sem telja fram hvort í sínu lagi, 10% af skattskyldum tekjum hvors um sig á skattárinu 1977 að frádregnum 1 millj. 860 þús. kr. hjá hvoru.

Í 5. gr. frv. er svo gert ráð fyrir að innheimta gjöld samkv. 2. gr. laga um flugvallagjald með 100% álagi 1978. Er hér um að ræða flugvallargjald á ferðir erlendis.

Í 6. gr. frv. er rýmkuð heimild til handa ríkisstj. í sambandi við álagningu leyfisgjalds af gjaldeyris- og/eða innflutningsleyfum.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að þessum orðum mínum sögðum að leggja til. að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.