14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Eins og hæstv. fjmrh. hefur hér gert grein fyrir, er um að ræða eitt frv. af mörgum sem hæstv. ríkisstj. leggur fram í sambandi við afgreiðslu fjárl. að þessu sinni. Samkv. þessu frv. er um að ræða nýja tekjuöflun. Frv. felur í sér þrenns konar skattlagningu í rauninni. Í fyrsta lagi, sem er meginatriði frv., eru ákvæði um skyldusparnað sem ráðgert er að gefi ríkissjóði um 1 milljarð kr. í tekjur, og er það í rauninni lánsfé, en samt ráðstöfunarfé. Í öðru lagi er ákvæði um hækkun á flugvallagjaldi, sem nemur 300 millj. kr. Og í þriðja lagi að gjald verði hækkað í sambandi við veitingu á gjaldeyrisleyfum. Það gjald er áætlað að muni gefa í kringum 200 millj. kr., eða m.ö.o.: það er gert ráð fyrir að þetta frv. leggi ríkissjóði til í viðbótartekjur við það, sem er í gildandi lögum, um 11/2 milljarð kr. á ári.

Þetta frv. er aðeins eitt af mörgum, sem hér ern á ferðinni nú, og það er varla hægt að ræða um það nema í beinu samhengi við hin frv. Það er skoðun mín að sú tekjuöflun, sem felst í þessu frv., sé ekki með öllu óeðlileg. Það hefði að vísu komið til greina af minni hálfu að fara aðrar leiðir sem ég hefði talið heppilegri. Ég hefði t.d. talið heppilegra, ef ríkissjóður héldi sig óhjákvæmilega þurfa að fá meiri tekjur, að reynt hefði verið að ná nokkrum tekjum af þeim fjöldamörgu atvinnurekstrarfyrirtækjum í landinu sem engan skatt greiða til ríkisins og ég hygg að næstum allir viðurkenni að nær í rauninni engri átt.

Hér hefur verið horfið að því ráði að leggja viðbótartekjuskatt í formi skyldusparnaðar á tekjur fyrir ofan ákveðið mark. Það er ljóst að í þessari skatttöku lenda ýmsir sem ekki eru of vel í stakk búnir til að bera þennan skatt, en þó verður maður að ætla að meiri hl. þessa skatts lendi á þeim sem betri hafa tekjurnar. Svipað er að segja um það að ákveða tvöföldun á því flugvallagjaldi sem verið hefur. Það er í rauninni ekki neitt stórmál og gat vissulega komið til greina að hækka það gjald. Varðandi það sérstaka gjald, sem er lagt á gjaldeyrisleyfi og hefur verið 1%, en nú er gert ráð fyrir að verði 2%, sýnist mér vera miklu meiri vafi á því, hvað raunverulega er verið að gera með þeirri gjaldtöku. Ég hygg að sá háttur hafi verið hafður, að ríkissjóður hafi fengið um helming af þessu gjaldi til þessa, en hinn helmingurinn runnið til bankanna. Í þessu frv. segir í 6. gr., að ríkisstj. skuli sjálf ákveða hvernig gjaldi þessu verði ráðstafað, en óvenjulegt er að sjá í lagasetningu, að það sé lagt á ákveðið gjald og síðan sé bætt við, að ríkisstj. skuli sjálf ákveða til hvers gjaldinu verði ráðstafað. Eðlilegra hefði að sjálfsögðu verið að legið hefði skýrt fyrir hvort átti að hækka þetta gjald fyrir ríkissjóð, fyrir þarfir ríkissjóðs almennt, eða hvort hér er verið að hækka gjaldtöku vegna bankanna án þess að frá því sé greint. Þetta verður að sjálfsögðu athugað í n. þeirri sem fær málið til meðferðar.

Eins og ég sagði áður, er þetta frv. út af fyrir sig aðeins liður þessa máls og í rauninni ekki aðalatriði málsins. Hitt skiptir meira máli í þessu samhengi, að átta sig á því, hvort það hafi verið rétt leið, eins og nú standa sakir, að fara í þessa skattlagningu eða hvort það hefði verið til önnur leið að koma málum þannig fyrir að hægt væri að afgreiða fjárl. að þessu sinni án rekstrarhalla. Það er skoðun mín að hægt hefði verið og það hefði átt að fara hina leiðina að lækka viss útgjöld á vegum ríkisins, sem hefði gert kleift að þeir tekjustofnar hefðu mátt duga, sem ríkið hjó við áður, og þó er ég á þeirri skoðun að sumir þeirra tekjustofna hefðu þurft að víkja, eins og ég hef tekið fram nokkrum sinnum áður þegar þessi mál hafa verið rædd.

Það verður ekki heldur undan því vikist að benda á það, að þessi aðferð til nýrrar tekjuöflunar, nýrrar skattlagningar, þó með þessum hætti sé, skýtur nokkuð skökku við. Það gerðist sem sagt á miðju þessu ári, um það leyti sem var verið að semja á vinnumarkaði um launakjör, að ríkisstj. féllst á að það skyldi m.a. verða hennar framlag til þess að kaupgjaldssamningar næðust að lækka nokkuð tekjuskatt á lægri tekjum. Sett voru brbl. í þá átt og þau hafa legið fyrir þinginu til afgreiðslu. Sem sagt, það átti að vera framlag ríkisins að lækka skatta á lægri tekjum. Þó að það hafi verið gert er hins vegar farin sú leið nú eftir nokkra mánuði, að raunverulega er þetta allt tekið aftur og meira en það með þessum ráðstöfunum, ekki fyrst og fremst með þessu frv. sem hér liggur fyrir, það er aðeins hluti ráðstafananna. en miklu fremur kemur þetta fram í frv., sem hér hefur einnig verið lagt fram og er um hækkun á sjúkratryggingagjaldi, en með því er meiningin að innheimta sem nemur 1.9 milljörðum kr. með viðbótarskatttöku. Þar er gengið miklum mun lengra en áður var samkv. skattalagaákvæðum, vegna þess að þessi gjaldtaka, hækkunin á sjúkratryggingagjaldinu, er miðuð við gjaldstofn til útsvars sem gengur miklu neðar í tekjuskalanum, leggst á lágtekjufólk í ríkum mæli. Þessi nýja gjaldtaka kemur því í rauninni þvert á loforð ríkisstj. í sambandi við lausn kjarasamninganna. Þarna er verið að leggja nýjan viðbótarskatt á það fólk sem átti að létta sköttum af.

Það er einnig brot á þessu samkomulagi að mínum dómi, sem gert er einnig ráð fyrir í meðferð þessa máls í heild í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv., þar sem nú er gengið út frá því, að skattvísitala ársins verði 31%, á sama tíma og fyrir liggur að tekjur á milli ára hafa hækkað um 42%. Í þessu felst veruleg þynging á tekjuskattinum. Þarna er verið að taka það til baka aftur sem lofað hafði verið áður í sambandi við lausn kjarasamninga. Það kemur ekki skýrt fram í þessu frv. eða í grg. ríkisstj., sem ég man eftir að hafa séð, hvað þessi ákvörðun er um miklu lægri skattvísitölu en hún hefði átt að vera, hve miklu þetta nemur til hækkunar á tekjuskatti. En mér hefur skilist að þetta næmi raunverulega um 2 milljörðum samtals. Þá er auðvitað sýnilegt að ríkisstj. er búin að gera að engu það loforð sem hún gaf til að stuðla að lausn kjarasamninganna, því hún er á þennan hátt búin að hækka aftur tekjuskattinn mjög verulega, með því að ákveða skattvísitöluna á þennan hátt og með því að hækka sjúkratryggingagjaldið eins og nú er stefna að.

Að einhverju leyti hefur þetta frv. um skyldusparnað líka áhrif, en það liggur ekki ljóst fyrir mér enn þá, að hvað miklu leyti þessi skyldusparnaður kemur einnig á þá sem var ætlunin að lækka skatta á með loforðum frá því í sumar. En að því leyti til sem þessi skyldusparnaður þýðir skattahækkun á hina tekjuhærri í þjóðfélaginu finn ég ekki að því. Það er skoðun mín, að tekjuskatturinn og eins eignarskattur hafi verið hjá okkur tiltölulega mjög lágir á háum eða góðum tekjum og enginn vafi er á því, að þessir skattar hafa verið mjög lágir hér hjá okkur ef við berum saman við það sem mun vera algengast í löndunum í kringum okkur.

Það eru ýmis atriði í sambandi við þetta frv. sem þarf að fá frekari upplýsingar um. Ég mun ekki við 1. umr. um málið tefja það á neinn hátt. Það verður leitað eftir upplýsingum um þessi atriði í n. og síðan gefst tækifæri til að ræða þau nánar þegar málið kemur frá nefnd.

Aðeins eitt atriði vil ég minnast á til viðbótar við það sem ég hef rætt um, en það er sú ákvörðun að gera ráð fyrir hækkun á bensíngjaldi um 7.50 kr. umfram þá hækkun sem hægt er að gera samkv. gildandi lögum og reglum, en þetta mun þýða, skilst mér, eitthvað rúmlega 13 kr. hækkun á bensíngjaldinu á lítrann. Ég hef sagt það áður, að út af fyrir sig það atriði að hækka bensíngjaldið til Vegasjóðs gat fyllilega verið réttlætanlegt miðað við það ófremdarástand sem okkar vegagerðarmál hafa komist í nú á síðustu þremur árum, því keyrt hefur alveg úr hófi hvernig á þeim málum hefur verið haldið. En ég er á þeirri skoðun enn, eins og ég hef lýst áður, að ég tel að það nái engri átt að fara að hækka þetta gjald án þess að einnig komi til nokkur hluti af öllum þeim skattpeningi sem ríkissjóður tekur af hækkuðu bensínverði og hefur tekið. Það nær vitanlega engri átt að ætla sér að hækka bensíngjaldið til Vegasjóðs vegna þarfa Vegasjóðs og að það eigi þá að þýða að ríkissjóður fái viðbótartekjur bara af þessari ráðstöfun sem nemur 20% af þessari hækkun. Ég er á þeirri skoðun, að auðvitað ætti að koma þessum málum þannig fyrir að ríkissjóður tæki ekki söluskatt af því sérstaka viðbótargjaldi sem lagt verður á bensín í þágu Vegasjóðs. Einnig er ég á þeirri skoðun, að ríkissjóði beri skylda til að skila Vegasjóði nokkru af því fé sem hann hefur tekið að undanförnu með sérstakri skattlagningu á hækkandi bensínverð.

Ég mun svo ekki ræða um þetta mál frekar við 1. umr. Ég segi, að líta verður á þessi mál sem heild. Hér er valin sú leið af hæstv. ríkisstj. að taka upp nýja skattlagningu í ýmsum greinum, mjög vafasama og ósanngjarna skattlagningu, — skattlagningu sem ekki er í neinu samræmi við loforð hennar og yfirlýsingar til launþegasamtakanna áður. Hins vegar virðist ríkisstj. hafna því að reyna að takast á við þau vandamál sem óhjákvæmilegt er þó að takast á við,en það eru ekki aðeins þau vandamál sem ríkissjóður stendur frammi fyrir, heldur þau vandamál sem atvinnuvegirnir í landinu eiga við að glíma og verður að fást við innan tíðar. En allt, sem stefnir í þá átt að hækka verðlag í landinu eða gera hag hinna almennu launþega verri en hann er í dag, eykur fremur á vandann sem þarf síðan að takast á við í sambandi við atvinnuvegina, en minnkar hann ekki. Það er því skammt hugsað í þessum efnum að hugsa aðeins um það, hvernig hægt verði að koma saman fjárl., jafnvel þó að það sé gert á þann hátt að hinn vandinn, hinn stóri vandi í efnahagslífinu, verður enn þá meiri eftir en áður.

Ég mun svo og minn flokkur lýsa afstöðunni til þessara mála í heild við afgreiðslu þeirra úr þeim n. sem um þau koma til með að fjalla.