14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

128. mál, tímabundið vörugjald

Lúðvík Jósepsson:

Hv. forseti. Ég leyfi mér að vísa til þess, sem ég sagði um það mál, sem var hér næst á undan á dagskránni. Þetta er eitt af þeim frv. sem hæstv. ríkisstj. er með á ferðinni í sambandi við afgreiðslu fjárl. Þetta er að vísu afbrigðilegt að því leyti, að hér er um gjald að ræða sem hefur nú staðið í rúmlega 21/2 ár. Nú er verið að Leggja til að framlengja það fyrir næsta ár. Ég hef nokkrum sinnum áður minnst á það, hversu fráleitt þetta gjald er og hvað það er hættulegt að halda sig við gjald eins og þetta, sem er lagt á til stutts tíma og með mikilli ónákvæmni Um það verður ekki deilt, að þetta gjald liggur með býsna miklum þunga á ýmsum vörutegundum, en snertir hins vegar ekki aðrar, og gjaldið er mjög ósanngjarnt og óheppilegt. Það er í rauninni alveg fráleitt að ætla að halda þessu gjaldi. Þetta er svo sem svipað og gerst hefur stundum áður hjá okkur, eins og t.d. með launaskattinn, sem enn stendur þó að þar væri um ráðstöfun að ræða á sínum tíma, þegar byrjað var á því gjaldi, sem átti í rauninni að koma í staðinn fyrir tiltekna hækkun á vísitölu sem sem annars hefði orðið. En þessi leið var valin. Síðan hefur veríð spunnið við þetta allan tímann og eftir stendur gjaldið og það í sama búningi og þegar það var sett upphaflega. Ég lýsi aðeins yfir fullkominni andstöðu minni við þetta gjald, því að ég er á móti þessu gjaldi nú eins og áður og tel að það hefði átt að útvega ríkissjóði tekjur eftir annarri leið en þeirri sem farin er í þessu frv.