14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

128. mál, tímabundið vörugjald

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Afstaða mín til þessa tímabundna vörugjalds hefur ekki farið á milli mála allt frá upphafi. Ég hef margoft lýst því yfir hér á Alþ., að ég er algjörlega andvígur þessu gjaldi. Það byggist kannske fyrst og fremst á því, að hér er um herfilega rangláta skattheimtu að ræða. Það hefur margoft komið fram í umr, hér á Alþ. um þetta gjald, að t.d. með 18% vörugjaldi, eins og það er nú, þýðir það í raun og veru í ýmsum tilvikum skattlagningu á fólk úti á landsbyggðinni, allt upp í 29% álagningu á vöru.

Þetta er því að mínu viti einhver ranglátasti skattur sem á hefur verið lagður. Þetta var, eins og fram hefur komið, fyrst sett með brbl. um mitt ár 1975 og átti þá að gilda, ef ég man rétt, aðeins til áramótanna næstu á eftir. Mig minnir, að það hafi verið í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 sem boðað var að þetta skyldi lækkað í smáskömmtum á því ári og því síðan eytt. En þá var ein kúvendingin tekin af hálfu hæstv. ríkisstj. og í stað þess að fara þessa leið, sem boðuð var í frv. og mig minnir að hafi verið fremur fyrir árið 1976 en 1977 — ég skal ekki um það fullyrða — var þetta gjald hækkað úr 12% í 18%. Við afgreiðslu fjárl. fyrir það ár sem fjárlagafrv. boðaði niðurfellingu gjaldsins — (Gripið fram í.) Var það ekki 1976, já? Nú, hæstv. ráðh. man þetta allt saman, ég efast ekki um það, en samkvæmt því, sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv., er hér um 7 milljarða kr. skattlagningu að ræða. Það eru 7 milljarðar sem gert er ráð fyrir í frv. Væntanlega hækkar það nú frá því að frv. var lagt fram og þar til fjárl. verða endanlega afgreidd, en þar er sem sagt um 7 milljarða kr, skattheimtu að ræða. Þessi upphæð er nú orðin nokkru hærri en allur launaskattur sem greiddur er í landinu.

Ég vil, þó að það sé kannske ástæðulaust vegna þess að ég hef margoft lýst algjörri andstöðu við þetta mál, ítreka það, að ég lýsi algjörri andstöðu við þetta frv. á þeim forsendum, sem ég hef margoft lýst hér á Alþ. Þær eru fyrst og fremst að hér um svo rangláta skattheimtu að ræða að engu tali tekur. Við höfum í landinu nægilega löggjöf í sambandi við skattheimtu, sem er svo háttað að bæði er löggjöfin sem slík ranglát og einnig er framkvæmdin á löggjöfinni mjög ranglát og mismunandi, Það er komið nóg af slíkum skattpóstum, þó ekki sé verið að halda við þeim sem kannske ganga lengst í því að vera óréttlátir og ranglátir.