14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

126. mál, almannatryggingar

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hafði vikið að því áður í þessum umr., að þetta væri ein þessara nýju fjáröflunarleiða hæstv. ríkisstj. í sambandi við afgreiðslu fjárl., að hækka sjúkratryggingagjaldið sem nemur 1.9 milljörðum kr. á ári eða tvöfalda það. Ég tel að þessi skatttaka sé ein af þeim verstu sem hæstv. ríkisstj. kemur með tillögu um. Það er enginn vafi á því, eins og þetta gjald hefur sýnt í framkvæmd, að það er mjög óréttlátt og ósanngjarnt og það er í rauninni mjög hart, að þegar er verið að auka tryggingarnar, eins og óneitanlega hefur verið gert að undanförnu, skuli vera gerðar ráðstafanir í þessa átt til þess að draga raunverulega úr gildi trygginganna með því að leggja gjöld á tekjulágt fólk eftir þessari leið.

Það var mikið framfaraspor þegar nefskattarnir til trygginganna voru afnumdir árið 1971, en þá voru gamla sjúkrasamlagsgjaldið og lífeyrissjóðsgjaldið afnumið, en þá þurftu menn að greiða nokkurt fast gjald alveg án tillits til efnahags eða tekna, og menn sáu það almennt þá, að þetta samrýmdist í rauninni ekki eðli trygginganna, eins og komið var. Þá var ákveðið, að fjár í þessu skyni skyldi aflað eftir hinni almennu fjáröflunarleið í gegnum ríkissjóð, og ríkissjóður tók að sér meginhlutann af kostnaði trygginganna, þó að lítils háttar væri eftir á vegum sveitarfélaga. En nú er sem sagt farið að taka hér upp sem fasta tekjuöflunarleið, að leggja í verulega ríkum mæli gjald á einstaklingana og það á þann hátt, að sá gjaldstofninn er valinn sem er einna ósanngjarnastur þegar um svona mál er að ræða. Það hefði t.d. að mínum dómi verið miklu réttlátara, ef ríkið hefði talið alveg óhjákvæmilegt að afla sér tekna vegna útgjalda af tryggingunum sem nemur 3.8 milljörðum, eins og þetta gjald er farið að nema, að innheimta þetta eftir tekjuskattsleiðinni þannig að gjaldið yrði greitt eftir efnum og ástæðum eða eftir tekjuhæð einstaklinganna. Sá gjaldstofn miðar við það, að þeir, sem hafa lágar tekjur, þurfa ekki að borga tekjuskatt. Menn þurfa ekki að borga tekjuskatt sem neinu nemur nema tekjurnar séu farnar að nálgast það sem kallað er miðlungstekjur hjá alþýðufólki, en hins vegar hefðu þeir, sem hafa miðlungstekjur og hærri, vitanlega borgað talsvert meira ef sá gjaldstofn hefði verið valinn. En með þessu lagi er farið inn á gjaldstofn sveitarfélaganna, þar sem þau hafa talið sér óhjákvæmilegt að innheimta útsvör sín af brúttótekjum og teygja sig þar mjög neðarlega til þess að sveitarfélögin gætu þó fengið nauðsynlegar tekjur, og þar koma svo að segja allir, sem einhverjar tekjur hafa, til með að greiða nokkurn hluta. Á þennan gjaldstofn, sem er lagður til grundvallar í þessu tilfelli, eru nú lögð gjöld á einstaklingana sem nemur 11% til sveitarfélaganna, og síðan er ríkið komið inn á þennan sama gjaldstofn með 2% gjald vegna sjúkratrygginga.

Ég held að enginn vafi sé á því, að þarna hefur ríkisstj. valið ranga leið. Þetta er ósanngjarn tekjustofn, og það hefði verið miklu réttlátara að velja þarna aðra leið. Að sjálfsögðu hefði verið enn þá óréttlátara að mínum dómi að taka upp nefskattsleiðina, sem hæstv. ráðh. minntist hér á. Hún hefði að vísu orðið enn þá óeðlilegri og ósanngjarnari. En að gera ráð fyrir því, eins og kemur fram í þessu frv., að t.d. hjón, sem hafa um 600 þús. kr. í tekjur, þurfi að borga í sjúkragjald 12 þús. kr. gjald á ári, það er mjög óeðlilegt. Slík hjón ættu auðvitað ekki að greiða neitt gjald í tilfelli eins og þessu. Það, sem slíkir lágtekjuhópar greiða samkv. þessu, ættu aðrir, þeir sem tekjuhærri eru, að taka að sér að borga.

Ég vil benda á að svo er komið með þessari leið að það, sem telja verður almennar tekjur hjá t.d. verkafólki, þar sem eiginmaðurinn og eiginkonan verða að vinna bæði tvö að verulegu leyti fyrir tekjum heimilisins, þá er það sennilega ekki orðið óalgengt að brúttótekjurnar, eða þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar við útsvarsálagningu, séu orðnar í kringum 2 millj. kr. miðað við núverandi verðlag, og mun víst ekki teljast háar tekjur. Þessir aðilar verða þá að greiða í flestum tilfellum þetta sérstaka gjald sem nú er til komið og orðið 40 þús. kr. Það er orðið býsna hátt gjald. Og séu samanlagðar tekjur hjóna 3 millj. kr., sem ekki gætu talist háar tekjur eins og verðlagi er nú háttað, yrði þetta gjald í þessu skyni orðið 60 þús. kr. Að sjálfsögðu kemur svo útsvar þar til viðbótar og ýmis önnur gjöld.

Ég vil því lýsa fyrir hönd míns flokks algjörri andstöðu við þetta frv. Það hefði þurft að stefna í þá átt að losa sig við þetta gjald, en svo var að skilja á hæstv. ríkisstj., þegar hún lagði það á, að hún hefði gripið til þess í nauðum sínum þegar illa stóð á með fjárhag ríkissjóðs og gjaldið væri tekið aðeins til bráðabirgða. Nú er sýnilegt að þetta er að verða fastur tekjustofn fyrir ríkið og gengið meira að segja á lagið og þetta gjald hækkað. Þetta tel ég stefna í ranga átt.

Þá vil ég aðeins vekja athygli á því, að nú er sem sagt gert ráð fyrir því, að í ýmsum greinum geti komið til, að þeir aðilar, sem ekki bera neitt útsvar, verði eigi að síður að borga þetta sérstaka sjúkragjald, því það er á ýmsum stöðum í landinu ekki farið upp í 10% útsvarsálagningu, en lágtekjuhópar yrðu þó að borga þetta eigi að síður í ýmsum tilfellum.

Þá er í 5. tölul. 1. gr. líka ákvæði, sem ég vil benda hæstv, ráðh. á að er í rauninni afleitt ákvæði í framkvæmd, en þar er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins, sem fær þessar tekjur samkv. þessu gjaldi að lokum, þegar það hefur verið innheimt, geti í rauninni ávísað á þetta gjald á hinum ýmsu stöðum, þó að það sé ekki innheimt, dregið það frá greiðslum sínum til sjúkrasamlaga og sjúkrasamlögin á hinum einstöku stöðum þannig á óbeinan hátt gerð ábyrgð fyrir innheimtunni, þó að þau hafi ekkert með innheimtuna að gera, og þau geta augljóslega — og reynslan hefur líka verið sú — komist í vandræði af þessum ástæðum. Við viljum að þetta er í framkvæmd þannig, að sjúkrasamlögin verða að greiða sjúkrakostnað einstaklinganna á sjúkrahúsum. Sjúkrahúsin ganga að sjálfsögðu fast eftir því að fá inn sínar tekjur fyrir daggjöld, en sjúkrasamlögin geta ekki í mörgum tilfellum staðið við greiðslur sinar fyrir hina tryggðu til sjúkrahúsanna vegna þess að þeim er vísað á það, að þau eigi að fá svona og svona mikið af hinni mánaðarlegu greiðslu af innheimtu þessa gjalds á viðkomandi stað eða stöðum. Sjúkrasamlögin hafa ekki á neinn hátt með þessa innheimtu að gera og geta því ekkert úr þessu gert og lenda augljóslega í vanskilum af þessum ástæðum oft og tíðum. Ég vil ná beina því til hæstv. ráðh., að hann íhugi þetta ákvæði, hvort ekki er hægt að koma þessu fyrir á annan hátt, þannig að aðilar, sem hafa framkvæmd þessara mála á hendi, séu ekki settir í algjör vandræði í sambandi við greiðslur, — aðilar sem hafa ekki með innheimtuna að gera og geta ekki beitt neinu valdi til þess að sjá um að þetta innheimtist.

Þetta er aðeins framkvæmdaratriði og ég vildi aðeins minnast á það í leiðinni, en aðalatriðið er að við í Alþb. erum algjörlega á móti þessari gjaldtöku, teljum hana mjög ósanngjarna og alveg fráleitt að hækka þetta gjald. Auk þess er svo, eins og ég sagði í almennum umr. um þessi tekjuöflunarmál öll, að gjaldtaka af þessu tagi fer auðvitað þvert á loforð ríkisstj. til stéttarfélaganna í samningagerðinni á s.l. sumri, þar sem gert var ráð fyrir að ríkisstj. greiddi fyrir samningum með því að vinna að því að lækka nokkuð skatta, en þetta gjald kemur til með að hvíla mjög þungt á þeim, sem þar áttu hlut að máli.

Ég er ansi hræddur um að ríkisstj. eigi eftir verða vör við það, að þessu gjaldi verður mótmælt og þeim mótmælum getur vel verið fylgt eftir með ýmsum hætti. ég hefði því viljað vænta þess, að hæstv. ríkisstj. áttaði sig á því, að þetta er röng leið. Hún hefði átt að leita annarra úrræða en að fara inn á þessa braut.