14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

126. mál, almannatryggingar

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa upplýsingar hæstv. ráðh. um að kostnaður við sjúkratryggingar hækki geigvænlega ört. Það er talið þessi árin í nágrannalöndum okkar, að þar hafi orðið það sem kallað er útgjaldasprenging í heilbrigðismálum, og við Íslendingar erum þar engin undanþága. Það er því ljóst, að hér er um mikil og vaxandi vandamál að ræða hvað fjáröflun snertir. Ég hef heyrt ungan íslenskan lækni segja, að sennilega sé fjárþörf heilbrigðismála nálega takmarkalaus, m.ö.o. að það væri með góðu móti hægt að verja öllum þjóðartekjunum til þeirra. Það er því pólitísk ákvörðun og hún mjög erfið, sem taka verður á hverjum tíma, hversu langt við treystum okkur að ganga á þessu sviði, og um það eru vafalaust allir sammála, að við viljum ganga eins langt og fjárhagur þjóðarinnar framast leyfir.

Þrátt fyrir þetta verð ég að lýsa fullkominni andstöðu við það frv., sem hér er til umr., vegna þeirrar aðferðar sem þar er beitt til fjárútvegunar til sjúkratrygginga.

Við höfum um árabil fallist á að sveitarfélögin hefðu útsvör sem fastan brúttóskatt af tekjum, og gera það vafalaust flestir hálfnauðugir, en þó til þess að tryggja sveitarfélögunum tekjur. Ég tel hið mesta óráð, ef nú á að bæta ofan á þetta ríkisútsvari og ríkissjóður ætlar sér að fara inn á þessa leið ofan á allar aðrar. Útsvarið er þannig að það leggst með sömu prósentu á alla að heita má og nær auðvitað, eins og síðasti ræðumaður benti á, allt of langt niður í þær tekjur sem sjálfsagt fáir eða engir nema sjúklingar og gamalmenni hafa, og útsvarið fer eftir tekjuupphæðinni gersamlega án tillits til þess, hvort fjölskylda er stór eða lítil, án tillits til nokkurs þess sem hægt er að tel ja eðlilegan frádrátt varðandi skatta.

Ég tel að ríkið megi alls ekki fara inn á þá braut að auka innheimtu slíkra skatta, hvað þá þegar þeir bætast ofan á 11% útsvar og þetta eru orðin 13% og hver veit síðan hve mörg prósent til viðbótar af heildartekjum fjölskyldnanna.

Hér er gömul saga að gerast á ný. Fyrst var sett á 1% sjúkratryggingagjald og látið fylgja útsvarinu og átti auðvitað að vera til takmarkaðs tíma, neyðarúrræði einu sinni. Það kom að sjálfsögðu aftur næsta ár, og nú er það enn komið og orðið 2%. Ef ekki verður spyrnt við fótum strax er kominn þarna einn skatturinn enn sem mun reynast jafnrótfastur og fjöldamargir aðrir sem við höfum kynnst.

Ég tel að af tvennu illu séu stighækkandi skattar eins og tekjuskattar miklum mun réttlátari í eðli sínu en útsvarið, sem er fastur brúttóskattur. Ef um hefði verið að velja þær tvær leiðir, hefði ég hiklaust viljað fara hina stighækkandi tekjuskattsleið.

Hæstv. ráðh. nefndi ýmsar aðrar leiðir sem fara mætti. Ég tel að það væri fráleitt að taka aftur upp gömlu aðferðina, sem lögð var niður fyrir 5 árum eða svo, og ég tel einnig algjört neyðarúrræði ef byrjað verður að taka gjöld af sjúklingum á sjúkrahúsum, af því að hætt er við að þau mundu fljótt hækka og einnig að það yrði erfitt varðandi þau að taka nokkurt tillit til aðstæðna, hvort um er að ræða stóra barnafjölskyldu, tekjulítið fólk eða efnamenn, sem geta staðið undir slíku. Þá erum við komin inn á hina upprunalegu braut, hið ameríska frumskógarkerfi, þar sem eitt alvarlegt slys eða uppskurðartilfelli getur gert fjölskyldu gjaldþrota.

Helst hefði ég viljað kanna möguleika á því að leggja eitthvert prósentubrot á veltu fyrirtækja í landinu, eins og ég nefndi í fyrstu ræðu minni um þessa frumvarpakippu í kvöld, og hygg ég að sú prósenta þyrfti ekki að vera há til þess að ná þeim tekjum sem hér er um að ræða. Með þessu á ég að sjálfsögðu ekki við útflutningsatvinnuvegina og tel eðlilegt að athuga hvort þeir yrðu undanskildir, enda er eðli þeirra allt annað en þúsunda af fyrirtækjum, sem lifa æðimörg, að því er virðist, góðu lífi á því að veita margs konar þjónustu, framleiða eða selja okkur vörur.

Að lokum vil ég minna á að ein af forsendum fyrir samkomulagi á vinnumarkaði s.l. sumar var loforð ríkisstj. um að lækka tekjuskatta, eins og gert var með brbl. Ég er að vísu ekki alveg viss um að það hafi verið heimilt samkvæmt stjórnarskránni, en skattalækkun er svo gott mál að við skulum ekki nefna það.

Hitt fer ekki á milli mála, að með þeim álögum, sem nú er verið að leggja á þjóðina samkv. þessu frv, og með einfaldri yfirlýsingu um það hvernig skattvísitala verði framkvæmd, svo ég nefni bara tvö dæmi, er búið að svíkja öll þau loforð sem launþegum voru gefin s.l. sumar. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geri sér grein fyrir því, að slík brigð geti dregið dilk á eftir sér. Fátt væri okkur erfiðara eða óþægilegra heldur en að upp risu nýjar og alvarlegar deilur á vinnumarkaðinum.

Ég ítreka andstöðu við þá aðferð sem beitt er í þessu frv. til tekjuöflunar, en frekari grein fyrir afstöðu Alþfl. mun koma fram í nál. og við 2. umr.