14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

126. mál, almannatryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er væntanlega öllum hv. þm. enn í fersku minni sem gerðist hér haustið 1975, þegar verið var að ræða einmitt það mál sem hér er nú til umr., að vísu er prósentan, sem taka skal, nú breytt frá því sem áður var. Um frv. um sjúkratryggingagjald urðu miklar og harðar umr., ekki bara harðar deilur um gjaldtökuna, hversu mikil hún væri, heldur einnig um þann þáttinn, að hér væri verið að fara aðrar leiðir en gefið hafði verið undir fótinn með að því er varðar verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Á þeim tíma voru miklar umr. einmitt um það og önnur frv. hér í þinginu sem þá voru til umr. og voru afgreidd sem lög.

Ég hygg að allir hv. þm. muni enn, hver í raun og veru var ástæðan fyrir því, að frv. um sjúkratryggingagjald var lagt fram haustið 1975, en það var fyrst og fremst vegna þess að í raun og veru þurfti að fela hluta af þeirri hækkun sem varð á milli ára á fjárl. Þetta var því kannske fyrst og fremst — þessi lög frá 1975 — rós í hnappagat hæstv. fjmrh., að vísu fölnuð rós, því að þarna skipti ekki verulegu máli hækkun fjárl. milli áranna 1975 og 1976 varðandi þessar upphæðir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að almennt er það einróma álit sveitarstjórnarmanna, að sjúkratryggingar eigi einvörðungu að heyra undir ríkið. Þegar umr. áttu sér stað um frv. 1975, var m.a. komið að því, að það væri starfandi nefnd sem væri að endurskoða lögin um tryggingarnar, almannatryggingalöggjöfina, og hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði þá við umr. í Ed., 15. des. 1975, að hann gerði ráð fyrir að þeirri endurskoðun yrði lokið haustið 1976, þannig að ný almannatryggingalöggjöf gæti þá tekið gildi. Nú er komið haustið 1977 og ekki bólar enn á því, að því er ég best veit, að fram hafi verið lagðar till. um nýskipan heildarlöggjafar um almannatryggingar í landinu. Við þessar umr. í Ed. kom það einnig fram í máli hæstv. heilbr,- og trmrh., að hér væri aðeins um að ræða löggjöf sem væri hugsuð til eins árs. Hann sagði orðrétt í þessu sambandi, með leyfi hæstv. forseta: „Á meðan ég var sveitarstjórnarmaður og var í sveitarstjórn, þá leiddust mér alltaf samþykktir um kröfur á ríkið. Ég vildi fá tekjustofna og aukin verkefni sveitarfélaganna og færa meira af verkefnum, hinum sameiginlegu verkefnum, yfir í sveitarfélögin og rit um byggðir landsins. Það var rauður þráður í samþykktum sveitarfélaga á þessum árum að krefjast alltaf að ríkið tæki á sig aukin verkefni. En ég vildi hafa þann hátt á að taka aukin verkefni og fá auknar tekjur. mín skoðun er alveg óbreytt þó að þennan þátt þessa frv., sem stærsti þátturinn í því, samkv. 3. gr., sé aðeins hugsað að framkvæma í eitt ár.“ Þetta sagði hæstv. heilbr.- og trmrh. haustið 1975.

Eins og hér hefur komið fram, hefur það verið og er eindregin skoðun sveitarstjórnarmanna, að þessi þáttur eigi að vera hjá ríkissjóði, og þessari gjaldtöku eða þessum skatti var harðlega mótmælt 1975 af fjölda aðila. En kannske hefðu þessu mótmæli orðið miklum mun harðari, ákveðnari og fjölmennari hefðu menn gert ráð fyrir því, að hér væri verið að setja í lög, festa í lögum skatt til framtíðar.

Það er sem sagt komið fram — sem allt of oft verður því miður — að þó að verið sé að tala um tímabundna skattheimtu í einu eða öðru formi, þá er reynslan alltaf sú, að það verður um langtímaskattheimtu að ræða, eins og hér virðist ætla að sýna sig, og þar breytir engu hvað hæstv. ráðh. segja, hverjir sem þeir eru og á hvaða tíma. Í þessu tilfelli sagði hæstv. heilbr: og trmrh.: Þetta er aðeins hugsað til eins árs. Það er búið að gilda í tvö ár, og hér er lagt til að það gildi þriðja árið. — Og þá á að hækka það um helming.

Ég lýsti eindreginni andstöðu við þessa gjaldtöku haustið 1975 og ég hef ekkert breytt um skoðun frá þeim tíma. Ég lýsi algjörri andstöðu við þetta frv., ekki kannske hvað síst vegna þess að það er mjög ranglátt. Hér er verið að leggja skatt á tiltölulega stóran hóp láglaunafólks í landinu, sem efnalega þolir hvað síst frekari skattpíningu. Það er því full ástæða til að mótmæla þessu harðlega.

Því hefur oft verið haldið fram, og ég held með réttu, að hægt sé að spara töluverða fjármuni í tryggingarkerfinu með bættum rekstri og betri stjórnun. Ég hygg að hægt hefði verið að ná hluta þessara fjármuna, sem hér var um að ræða og er um að ræða nú, með slíkum sparnaði og hefði það ekki á nokkurn hátt bitnað á þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda í gegnum almannatryggingarnar, heldur væri þar aðeins um að ræða sparnað í rekstri, betri stjórnun og annað þess háttar.

Það er enginn vafi á því, að það, sem á vantaði til þess að brúa bilið sem hér er fyrir hendi, yrði fljótfengið með því að leggja tiltölulega lítinn skatt á þann stóra hóp einstaklinga og atvinnufyrirtækja í landinu sem hefur verið vegna ranglátrar skattalöggjafar og einnig vegna ranglátrar framkvæmdar þeirrar löggjafar svo til skattlaus svo árum skiptir. Hér er því meiri spurning um það að ná til þeirra aðila í þjóðfélaginu sem hafa ekki borgað í hinn sameiginlega sjóð eins og þeim í raun og veru ber, og það miklu fremur sú leið sem á að fara til þess að ná í fjármuni, þegar þeirra er þörf, heldur en að bæta endalaust á þá þjóðfélagsþegna sem í raun og veru eru þrautpíndir fyrir með sköttum. Ég vil því taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal. Það hefði ábyggilega þurft lítið prósentubrot að leggja á veltu fyrirtækja í landinu til þess að ná þeim fjárhæðum sem hér er um að ræða, ef á annað borð hefði verið til þess vilji af hálfu hæstv. ríkisstj. að leita á önnur mið en þau hefðbundnu sem alltaf hefur verið og er leitað á, þ.e.a.s. í vasa hins almenna launamanns í landinu.

Hafi verið til þess ástæða, sem ég tel að fullkomlega hafi verið, að mótmæla þessari skattheimtu haustið 1975, þá er hún ekki síður fyrir hendi nú, þegar í fyrsta lagi er um að ræða tvöföldun á þessari skattheimtu og í öðru lagi, sem ekki skiptir minna máli að sumra áliti, að með þessari skattheimtu er framið gróft brot á þeim loforðum sem ríkisstj. gaf varðandi lausn þeirrar kjaradeilu sem yfir stóð á s.l. vori. Með þessari skattheimtu er í raun og veru brostin ein sú forsenda sem fyrir hendi var þegar gengið var frá samningum á hinum almenna launamarkaði á s.l. sumri. Auk þess hefur verið á það bent hér, þó að það sé ekki beint í tengslum við þetta frv., að ráðagerð hæstv. ríkisstj. varðandi skattvísitöluna, eins og nú virðist allt benda til að hún eigi að vera, er einnig gróft brot á einu grundvallaratriði samninganna frá því í vor af hálfu hæstv. ríkisstj. Skattalækkunin, sem gengið var út frá við samningsgerðina, var einhvers staðar á bilinu 2–3.5 milljarðar. Með framkvæmd skattvísitölunnar eins og hún virðist eiga að vera af hálfu hæstv. ríkisstj. eru 2 milljarðar teknir til baka af þessari skattalækkun sem lofað var við samningsgerðina.

Svo slæmt sem það brot er af hálfu hæstv. ríkisstj., tel ég þó að það, sem hér er lagt til, sé miklu verra brot og komi a.m.k. í mörgum tilfellum miklu verr niður á þeim sem síst skyldi. Hér er um að ræða að hækka stórlega skatt á stórum hópi láglaunafólks í landinu, sem lofað var skattalækkun með loforðum ríkisstj. frá því í vor. Það er enginn vafi á því, ef þetta verður gert, að verkalýðshreyfingin mun sýna fyllstu hörku og heimta þau loforð uppfyllt sem gefin voru við samningsgerðina í vor. Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. ríkisstj. geri sér fullkomlega grein fyrir þessu. Hér er það hún sem bregst, og það hefur oftast verið svo og verður svo, að sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Hér er gengið á gefin loforð, og því hefur raunar verið lýst yfir, t.d. af hálfu þings Verkamannasambands Íslands, að öllum tilraunum til þess að rifta að einhverju leyti forsendum samninganna frá því í vor verði svarað af fyllstu hörku. Ég held að enginn vafi sé á að fullkomlega má trúa því, að þetta verður gert.

Ég vil því, án þess að lengja frekar umr. að þessu sinni um þetta mál, vara hæstv. ríkisstj. eindregið við því, að stíga þetta skref, hækkun sjúkratryggingagjalds, sem hér er búist til að stíga því það er freklegt brot á gefnum fyrirheitum og loforðum við lausn kjaradeilnanna. Það er ábyggilegt, að verði þetta gert á það eftir að draga dilk á eftir sér á næstu vikum eða mánuðum, því að eins og áður hefur komið fram, mun verkalýðshreyfingin ekki una því, að endalaust sé gengið á gefin loforð af hálfu ríkisvaldsins, sem það gefur við lausn á kjaradeilum.