15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. það, sem hér er til umr., á nokkrum fundum og fékk á einn fund sinn formann og framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins og ráðuneytisstjóra iðnrn. til þess að ræða um málið. Á fundinum lagði ráðuneytisstjóri iðnrn. fram gögn varðandi málið. Það var um að ræða sameignarsamning ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna á Vestfjörðum, rekstraráætlun fyrir Orkubú Vestfjarða árið 1978 og um að ræða útskrift af bókunum og samþykktum ríkisstjórnar Íslands varðandi stofnun Orkubús Vestfjarða. N. leggur til að frv. verði samþ., en einn nm., Stefán Jónsson, áskilur sér rétt til að flytja brtt.

Ég geri ráð fyrir að það hefði ekki verið ástæða til að fjölyrða hér mikið um þetta frv. ef það hefði verið að öllu leyti eins og önnur frv. sem lögð hafa verið fyrir Alþ. á undanförnum árum varðandi verðjöfnunargjald af raforku. Í raun og veru hafa þessi frv. falið í sér einungis að framlengja það gjald sem ákveðið var í lögum nr. 83 1974, framlengja fyrir hvert ár, Nú er það svo um þetta frv., að það gerir ráð fyrir og felur í sér að verðjöfnunargjaldið, tekjuöflunin, verði framlengt á sama veg og verið hefur, en það nýmæli er að þessu sinni, að gert er ráð fyrir að það fé, sem kemur inn fyrir verðjöfnunargjaldið, skiptist í ákveðnum hlutföllum milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. En það er tilgangurinn og hefur verið tilgangurinn með verðjöfnunargjaldinu að afla fjár til að verja til styrktar Rafmagnsveitum ríkisins til þess að bæta hag þeirra. Nú hefur það skeð, svo sem kunnugt er, að Orkubú Vestfjarða hefur verið stofnað og gert ráð fyrir að það taki til starfa um næstu áramót, og þá hefur verið talið eðlilegt að nokkur hluti af því fjármagni, sem fæst inn fyrir verðjöfnunargjaldið, gangi til þess að bæta hag þessa nýja fyrirtækis því að það er litið svo á að aðgerðir hins opinbera til þess að stuðla að verðjöfnun á rafmagni í landinu fari ekki eftir því, hvaða fyrirtæki fer með rekstur raforkumálanna, heldur hvar þörf hefur verið fyrir verðjöfnun. Og þörfin hefur verið á öllu starfssvæði Rafmagnsveitna ríkisins, sem verið hefur, og þar hafa Vestfirðir verið. Að þessu leyti hefur ekkert breyst varðandi Vestfirði þó að Orkubúið sé stofnað. Það er gert ráð fyrir að þar muni vera sama þörf fyrir þessa aðstoð eftir sem áður. Og því gerir þetta frv. ráð fyrir því, að verðjöfnunargjaldinu verði varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins á þann veg, að Rafmagnsveiturnar hljóti 80% af tekjum af verðjöfnunargjaldinu, en að jafnframt verði þeim varið til þess að bæta hag Orkubús Vestfjarða þannig að það fyrirtæki fái 20%.

Þetta, að Orkubú Vestfjarða er komið inn í þetta, gefur mér tilefni til þess aðeins að víkja að því fyrirtæki og hvað er að gerast með stofnun þess.

Ég vil þá minna á það, að Orkubú Vestfjarða var stofnað á þrem meginforsendum: Í fyrsta lagi, að fullnægt yrði þörf Vestfirðinga fyrir orku með innlendum orkugjöfum. Í öðru lagi, að raforkuverðið væri hliðstætt því sem annars staðar gerðist í landinu. Og í þriðja lagi, að Orkubúinu væri tryggður traustur rekstrargrundvöllur.

Til þess að fullnægja orkuþörf Vestfirðinga þarf að gera miklar framkvæmdir í orkumálunum á Vestfjörðum. Þegar undirbúin var stofnun Orkubús Vestfjarða var fjallað um þetta af sérstakri n., orkunefnd Vestfjarða. Hún skilaði skýrslu eða till. um orkumál Vestfirðinga, allmikilli bók, sem allir þm. fengu í hendur þegar frv. um Orkubú Vestfjarða lá fyrir Alþ. á öndverðu síðasta ári. Í þessari bók er gerð grein fyrir því, hvernig menn hugsa sér og hverjar till. n. eru um það, hvernig hinum þrem meginforsendum að stofnun fyrirtækisins verði náð. Þar er m.a. gerð grein fyrir þeim framkvæmdum sem þarf að gera í orkumálum Vestfjarða og voru metnar, miðað við verðlag 1975, milli 5 og 6 milljarða kr. virði eða kostnaður þeirra. Ég skal ekki fara að fjölyrða um þetta. Ég vísa til þessarar bókar sem alþm. hafa undir höndum og lögð var til grundvallar þegar Alþ. afgreiddi lög um Orkubú Vestfjarða.

En þetta að fullnægja orkuþörfinni var aðeins ein, af meginforsendum fyrir stofnun Orkubúsins. Hinar voru þær, eins og ég gat um áður, að Vestfirðingar byggju víð hliðstæð kjör í orkumálunum, þ.e. orkuverð, og aðrir landsmenn og að fyrirtækinu vari tryggt rekstraröryggi. Til þess að fullnægja þessum forsendum má segja að góð ráð hafi verið dýr. Þá á ég fyrst og fremst við Vestfirðinga sjálfa, sem eru meginfrumkvöðlar og baráttumenn fyrir stofnun Orkubús Vestfjarða. Vestfirðingar gerðu ráð fyrir því, að það væri eðlilegt að það félli í þeirra hlut að afhenda hinu nýja fyrirtæki allar eignir héraðsrafveitnanna á Vestfjörðum án þess að eignarmat færi fram, en á móti kæmi það, að hið nýja fyrirtæki tæki jafnframt við áhvílandi skuldum. En það var og gert ráð fyrir því, þegar Orkubúið var stofnað samkvæmt lögum um Orkubú Vestfjarða, að þetta gildi ekki einungis um héraðsrafveiturnar á Vestfjörðum, heldur og um eignir Rafmagnsveitna ríkisins á þessu landssvæði. En þá var spurningin, með hvaða kjörum ætti að taka við eignum Rafmagnsveitna ríkisins. Það var gengið út frá því, að það færi ekki fram eignarmat á þeim eignum frekar en eignum héraðsrafmagnsveitnanna, en hið nýja fyrirtæki tæki við hluta af þeim skuldum, sem hvíldu á eignum Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum eða var talið að væru til komnar vegna framkvæmda á Vestfjörðum.

Það kom brátt í ljós, að það voru veruleg takmörk fyrir því, hvað Orkubú Vestfjarða gæti tekið við miklu af skuldum Rafmagnsveitna ríkisins, til þess að hægt væri að fullnægja því sjónarmiði, að tryggur rekstrargrundvöllur væri fyrir fyrirtækinu um leið og þess væri gætt að orkuverðið væri hliðstætt og annars staðar og að gerð væru átök til þess að fullnægja betur en nú er orkuþörf Vestfirðinga. Þessar athuganir leiddu til þess, að talið var að Orkubú Vestfjarða gæti ekki tekið nema um 5100 millj. kr, af skuldum þeim, sem hvíldu á eignum Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum, sem voru árið 1975 um 1400 millj. kr. Það var hins vegar gert ráð fyrir því og hefur alltaf verið gert ráð fyrir því og rækilega undirstrikað þegar í tillögum Orkunefndar Vestfjarða, sem ég vilnaði áður til og þm. fengu í hendur, að það væri ekki hægt að íþyngja rekstri Rafmagnsveitna ríkisins á þann veg, að Rafmagnsveitunum væri gert að taka á sig þær skuldir sem þarna yrðu eftir og Orkubúið tæki ekki að sér, heldur yrðu að koma til aðgerðir ríkisin, sjálfs. Þannig hefur alltaf verið litið svo á, að Rafmagnsveitur ríkisins stæðu rekstrarlega hvorki betur né verr eftir stofnun Orkubús Vestfjarða.

En þegar menn lögðu þessi mál niður fyrir sér með það fyrir augum, að fullnægt yrði öllum þrem meginforsendum að stofnun Orkubúsins, þá var ljóst að meira þurfti að koma til. Það var ekki nægilegt að héraðsrafveiturnar á Vestfjörðum afhentu eignir sínar með þeim hætti sem ég hef gert grein fyrir, og það var ekki heldur nægilegt að Rafmagnsveitur ríkisins afhentu eignir sínar með þeim hætti sem ég hef hér greint frá. Það var ekki hægt að ná þessum sameiginlegu meginforsendum, sem ég hef talað um, nema til kæmi meiri aðstoð. Þá var gengið út frá því, að þó að Orkubú Vestfjarða yrði stofnað mundi ekki breytast þau viðhorf og þær skyldur sem ríkisvaldið hefur tekið á sig til að aðstoða þau byggðarlög í landinu sem höllum fæti standa í orkumálunum, annaðhvort vegna landfræðilegra aðstæðna eða vegna vanrækslu í þessum málum á fyrri tíð. Var gert ráð fyrir því, að þó að Orkubúið yrði stofnað yrði haldið áfram hinum almennu aðgerðum ríkisvaldsins til að stuðla að verðjöfnun á rafmagnsverði. Það var gengið út frá því, að það ætti ekki að breyta neinu í þessu efni, hvort Orkubúið yrði stofnað eða ekki stofnað, og Vestfirðingar ættu að njóta að sínu leyti þessarar aðstoðar ríkisvaldsins, sem felst í ráðstöfun verðjöfnunargjaldsins, eftir sem áður. Þess vegna hefur það alltaf verið forsendan fyrir stofnun Orkubúsins, að hér yrði ekki breyting á.

Hins vegar þurfti að ákveða eða meta hver ætti að vera hlutur Vestfirðinga í verðjöfnunargjaldinu eða tekjum af verðjöfnunargjaldinu. Við skulum hafa það í huga, að þó að Orkubúið sé stofnað greiða Vestfirðingar verðjöfnunargjald eins og aðrir landsmenn. En hver átti hlutur Vestfirðinga að vera af tekjum af verðjöfnunargjaldinu? Það var vandlega athugað og grandskoðað eftir ýmsum leiðum, einkum tveim leiðum. Það var athugað, hvort það ætti að miða hlut Vestfirðinga eða ákveða hann í sama hlutfalli og eignir Rafmagnsveitnanna á Vestfjörðum voru í miðað við heildareignir Rafmagnsveitnanna. Það var líka athugað, hvort það ætti að líta á reksturinn og miða hlut Orkubúsins við það, hver væri hlutur Vestfirðinga í rekstrarafkomu Rafmagnsveitna ríkisins.

Í sambandi við fyrra atriðið, eignahliðina, var skipt upp skuldum þeim, sem hvíla á eignunum, milli Vestfjarða og annarra hluta RARIK- svæðisins. En þess skal getið hér, að það hefur ekki verið aðskilið bókhald fyrirtækisins þannig að hægt væri að ganga að slíkum upplýsingum sem þurfti í þessu efni beint í bókhaldi Rafmagnsveitna ríkisins. Það varð þess vegna að vinna mikið starf til þess að sundurgreina þessa hluti. Það var unnið fyrst og fremst af Jakob Gíslasyni fyrrv. orkumálastjóra, sem ég hika ekki við að segja að sé einn kunnugasti maðurinn í því — ja, ég vil nú segja völundarhúsi sem þessi mál voru að vissu leyti. Niðurstaðan af þessu varð sú, að eignir Rafmagnsveitnanna á Vestfjörðum næmu nánast um 20% af heildareignum Rafmagnsveitna ríkisins í landinu. Það var eilítið meira, mig minnir 21% eða 22%.

Þá er það spurningin um reksturinn. Það kom í ljós að t.d. árið 1975 var talið að rekstrarhalli Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum næmi þeirri upphæð sem svaraði eiginlega nákvæmlega til sama hlutfalls og í eignunum eða 20% af rekstrarhalla fyrirtækisins í heild. Nú er það, að rekstrarhalli Rafmagnsveitna ríkisins hefur á undanförnum árum verið greiddur með verðjöfnunargjaldinu að svo miklu leyti sem það hefur hrokkið til, m.ö.o. að það, sem á að greiða með verðjöfnunargjaldinu og var greitt með verðjöfnunargjaldinu, skiptist í þessum hlutföllum milli Vestfjarða og RARIK-svæðisins utan Vestfjarða, að 80% af rekstrarhallanum voru utan Vestfjarða, en 20% innan. Þá hnigu ákaflega sterk rök til þess, að það væri eðlilegt að ráðstafa fjármagni sem ætlað var til að standa undir þessum halla, með þeim hætti sem þurfti til þess að mæta hallanum bæði á Vestfjörðum og annars staðar í landinu og skipta fjármagninu eftir því. Frekari stuðningur við þessa niðurstöðu var svo að þeir, sem reiknuðu þetta, komust að sömu niðurstöðu þegar farin var hin leiðin, sem ég lýsti áðan, eignaleiðin. En það var að sjálfsögðu ekki vitað fyrir fram. Að því er virtist hneig allt í þá átt, að það væri eðlilegt og sanngjarnt að hafa skiptingu á verðjöfnunargjaldinu í hlutfalli 20% á móti 80%, einmitt eins og frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir.

Með því að gera ráð fyrir því, að Orkubú Vestf jarða fái þennan hlut af verðjöfnunargjaldinu, er reiknað með því, að fullnægt verði þeim þrem meginforsendum fyrir stofnun Orkubús Vestfjarða sem ég gat um í upphafi og hef minnst á hér áður.

Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að verðjöfnunargjaldið muni nema á næsta ári 875 millj. kr., en 20% af því nema 175 millj. kr. Það er því þessi tala sem þetta frv. felur í sér að tekin verði ákvörðun um að falli í hlut Orkubús Vestfjarða.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég ætlaði ekki að orðlengja um Orkubú Vestfjarða. Hv. alþm. ætti að vera kunnugt um sögu þess máls, enda hefur Alþ. samþykkt lög um Orkubú Vestfjarða sem farið er eftir í hvívetna. En ég vil aðeins núna minna á það, að það, sem er að ske með stofnun Orkubús Vestfjarða er að Vestfirðingar bjóðast til þess að leggja því lið, með því að taka á sig ábyrgð og skuldbindingar, að orkumálum Vestfjarða verði komið í það horf að þau megi teljast hliðstæð því sem annars staðar gerist á landinu. Vestfirðingar eru ekki að fara fram á annað og meira í raun og veru en það sem best gerist hjá öðrum, en þeir bjóða fram liðveislu sína til þess að vinna að þessu marki.