15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í þeim umr. sem hér hafa farið fram leiðir maður hugann að réttlæti og kannske ekki spurningu um réttlæti aðeins á sviði raforkumála. Ég minnist þess, að ég flutti hér einu sinni þáltill. um að allar fiskbátahafnir á landinu skyldu verða landshafnir. Það var enginn af hv. þm. Suðurl. sem stóð þá upp til að styðja þá till., og skil ég þá afstöðu mætavel.

Hitt er svo annað mál, að það vekur ekki undrun nokkurs manns að umr. um raforkumál og orkumál skuli leiða hugann að því, að í þeim málum í heild er skipulagsleysi í landinu. Hv. a. þm. Austurl. gat um þetta skipulagsleysi og hvernig það lýsti sér, þegar hann ræddi um að Rafmagnsveita Vestmannaeyja kynti dísilvélar á sama tíma og nægileg orka væri til hjá Landsvirkjun, vegna þess að samkv. þeim samningi sem Rafmagnsveita Vestmannaeyja hafði við Landsvirkjun, var hagkvæmt að hegða sér þannig, þó að það væri þjóðhagslega séð óhagkvæmt. Þetta sama horfðum við á fyrir vestan hvað við kom viðskiptum Rafmagnsveitu Ísafjarðar og Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég treysti mér ekki til að fara hér út í almennar umr. um orkumál í landinu og þá stefnu sem þar ber að hafa, en vil þó lýsa því sem grundvallarsjónarmiði mínu, að ef ekki verður farið út í orkujöfnun í þessu landi, þannig að það sé ekki mjög misjafnt hvað hinir almennu þegnar þessa lands þurfa að greiða fyrir rafmagn og upphitun á sínu húsnæði, þá er enginu grundvöllur fyrir því að hafa aðeins eina skattvísitölu í landinu. Það mættu menn gjarnan hugleiða.

Rafmagnsveitur ríkisins stóðu frammi fyrir því stóra vandamáli, þegar verð á olíu hækkaði mjög verulega í heiminum, hvort þær ættu að veita öllum, sem um það bæðu, leyfi til beinnar rafhitunar á íbúðarhúsnæði. Ef Rafmagnsveitur ríkisins hefðu á þessu stigi tekið þá ákvörðun að fara út í það að selja heitt vatn til upphitunar íbúðarhúsnæðis og lögum verið breytt svo að það hefði verið hægt, þá hefði verið hægt að bíða eftir ákvarðanatöku hjá sveitarfélögunum. Rafmagnsveitur ríkisins og hv. Alþ. báru ekki gæfu til að bregðast þannig við vandanum. Ef í dag er beðið, þýðir það einfaldlega það að t.d. í sjávarþorpunum fyrir vestan verður búið að dreifa beinni rafhitun það víða um þorpin, að það verður ekki hagkvæmt að koma þar upp hitaveitum, jafnvel þó að heitt vatn fyndist í næsta nágrenni, að því viðbættu, að sennilega er það dýrasta aðferð sem hugsast getur til að halda hita á þegnum þessa svæðis að keyra dísilvélar á fullu til að selja mönnum rafmagn til að hita upp íbúðarhúsnæði. Það er þjóðhagslega séð rangt. Þess vegna er ég andvígur því að bíða með stofnun Orkubúsins.

Eins og nú er komið málum í þessu landi, að ekki virðist grundvöllur fyrir því að fara lengra í kröfunni um verðjöfnun eftir þeirri leið að leggja á verðjöfnunargjald, þá tel ég að verði að reyna á það fyrir alvöru, hvort það er rangt að leita þá eftir því að stofnkostnaður sé greiddur niður svo hægt sé að koma á einhverjum jöfnuði á þessu sviði. Ég vil líka minna á það, að með þeirri ákvörðun Alþ. að greiða styrk til þeirra, sem hita upp íbúðarhúsnæði sitt með olíu, er Alþ. búið að marka þá stefnu, að það skuli beint greiða niður orkuverð í landinu. Það skiptir ekki máli í því sambandi, hvort það er fyrir einn hlut eða annan sérstaklega. Auðvitað er hér um stefnumótun að ræða. Það er augljóst mál. Ég held að það þurfi að kanna mjög ákveðið hvort sú leið að greiða niður stofnkostnaðinn er ekki að einhverju leyti fær til að hraða þeirri þróun að orkunotkun almennings í landinu á þeim svæðum, þar sem hitaveita er ekki í dag, komist í viðunandi horf.

Ég hefði gjarnan viljað að það frv. um Orkubú Vestfjarða, sem mér virðist að sé aðalrót þeirra deilna sem nú eiga sér stað, hefði verið betur kynnt fyrir þm. á frumstigi, þ.e.a.s. á því stigi þegar sú ákvörðun er tekin, og þá hefði legið fyrir jafnframt, að það hefði verið hugmyndin að standa undir vissum hlutum af þeim skuldum sem Rafmagnsveitur ríkisins segja að tilheyri Vestfjörðum. Vel að merkja, það hefur ekki verið sundurgreint bókhald hjá þeim á undanförnum árum gagnvart hinum einstöku svæðum, og jafnframt hafa þær tekið ákvarðanir um virkjanir algerlega án þess að hugleiða þær í landssvæðalegu tilliti. Þær hafa sagt sem svo: Það er þér ekki að neinum skaða þó að við virkjum á hinum staðnum, því að við seljum raforkuna alls staðar á sama verði. — Þetta ber líka að hafa í huga.

Ég undirstrika það sérstaklega, að ég hygg að við stöndum ekki í dag í þeim sporum að geta sagt sem svo: Við frestum því að Orkubúið taki til starfa. — Ég hygg að við stöndum, eins og málum er komið núna, frammi fyrir því, að annaðhvort verður þetta gert eða þetta verður ekki gert, því að ef það verður stöðvað núna tel ég vist að sveitarstjórnirnar, hver á sínum stað, muni reyna að fara að snúa sér að því að leysa upphitunarmál þorpanna. Og jafnerfitt sem það hefur verið að ná samstöðu milli þeirra þriggja aðila, sem þarna hefur verið um að ræða, þ.e.a.s. Rafmagnsveitur ríkisins, Rafmagnsveitu Patreksfjarðar og Rafmagnsveitu Ísafjarðar, þá ætla ég að það verði nánast vonlaust verk eftir 2–3 ár, þegar menn telja sig vera komna mjög misjafnlega vel á leið með að leysa þessi mál hver á sínum stað, að ná um þau samstöðu. Ég held þess vegna að sú hugmynd yfir höfuð, að þessu sé hægt að fresta, verði ekki framkvæmanleg. Séu menn aftur á móti svo ákveðnir í þeirri skoðun sinni, þá verða þeir að velja á milli þess, hvort þeir ætla að koma í veg fyrir að þetta verði gert. Allt annað er óraunhæft í þessu sambandi.