15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Af hálfu iðnrn. hefur verið reynt að láta hv. iðnn. í té þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir. Við 1. umr. þessa máls bar hv. 5. þm. Austurl. fram óskir um vissar upplýsingar og voru honum sendar þær, sem tiltækar voru frá iðnrn. í gær eins og hann minntist á í ræðu sinni.

Ég vil þakka iðnn. skjóta og góða afgreiðslu hennar og frsm. hv. n. fyrir hans ágætu framsögu.

Hv. 4. þm. Suðurl. spurðist fyrir um það, hvort Sunnlendingar mundu njóta sömu kjara og Vestfirðingar ef þeir ákvæðu að yfirtaka virkjanir á Suðurlandi. Það mál liggur á nokkurn annan veg fyrir varðandi Suðurland en Vestfirði þegar af þeirri ástæðu, að mér hafa ekki borist neinar óskir eða uppástungur frá Sunnlendingum um að stofna Orkubú Sunnlendinga á svipaðan veg og Vestfirðingar hafa óskað eftir sínu. Þvert á móti bárust mér á sínum tíma óskir frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi um að skipa n. til að kanna hugsanlega aðild Sunnlendinga að Landsvirkjun, en Landsvirkjun er sem kunnugt er að hálfu eign ríkisins, en að hálfu eign Reykjavíkurborgar. Sú n. var skipuð eftir ósk Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi og ég held, að það sé rétt að bíða með frekari svör um þessi mál þangað til till. eða grg. þeirrar n. liggur fyrir. En þessar hafa verið þær óskir sem mér hafa borist hingað til.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góða afgreiðslu í hv. d. Alþingis í samræmi við till, iðnn.