15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja með að þakka þeim hv. þm., sem hafa tekið þátt í þessum umr. Ég geri það í tilefni af því, að mér finnst umr. hafa verið málefnalegar og fyrst og fremst vinsamlegar í garð þess fyrirtækis, sem ég hef verið að skýra frá eða minntist aðallega í framsöguræðu minni, þ.e.a.s. Orkubú Vestfjarða. Auðvitað getur mönnum sýnst sitt hvað í þessum efnum eins og gengur og gerist, en við því er ekki neitt að segja. En ég vænti þess, að það fari nú sem oft áður í þessari hv. d., að menn sannfæri aðra eða láti sannfærast og við komumst að tiltölulega sameiginlegri niðurstöðu, sem þýddi það að frv. þetta yrði skjótlega afgreitt óbreytt frá deildinni.

Ég skal aðeins víkja að nokkrum atriðum. Það er brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég tek undir það, sem hv. 4. þm. Suðurl. kom inn á, að hvað sem öðru liður, þá tel ég að fjvn. sé ekki heppilegasti aðilinn til að kveða á um skiptingu á verðjöfnunargjaldinu. Ég held að þetta mál sé þess eðlis, að það sé ekki ástæða til að fela slíkt verkefni fjvn. ríkisins. En að mínu viti er það þegar útilokað, ef við ætlum okkur að stofna Orkubú Vestfjarða, eins og ég veit að hv. 5. þm. Norðurl. e. er mér sammála um, þá mundi sú leið ekki ganga vegna þess að það er tekið fram í sameignarsamningi fyrirtækisins og ríkisstj. hefur þegar samþykkt að 20% af verðjöfnunargjaldinu skuli ganga til Orkubúsins. Þegar ég segi að það geti ekki gengið, þá á ég auðvitað við það, að þetta er svo mikið atriði fyrir Vestfirðinga, að þá verða þeir að skoða sitt mál á nýjan leik.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði að það hefði verið illa gengið frá skiptingu eigna Rafmagnsveitna ríkisins í lögum um Orkubú Vestfjarða. Ég held að þessi fullyrðing sé á misskilningi byggð. Það var náttúrlega ekki hægt að setja tölur um eignirnar í lög. Það varð hins vegar að kveða skýrt og ákveðið um, með hverjum hætti eignayfirfærslan skyldi fara fram og það er gert í lögunum. Það er kveðið svo á, að það skuli yfirfæra allar eignir héraðsrafveitnanna á Vestfjörðum svo og eignir Rafmagnsveitna ríkisins til Orkubúsins með þeim skilmálum sem um semst milli sveitarfélaganna og ríkisins, og það er það sem hefur skeð. Það hefur verið samið um þessa hluti.

Hv. 5. þm. Austurl. sagði: Það var ekkert farið að tala um verðjöfnunargjaldið og skiptinguna fyrr en búið var að samþykkja lögin um Orkubú Vestfjarða. Og hann vitnaði í framsöguræðu mína til áherslu þessari skoðun. En hann hefur þá misskilið það sem ég sagði. Ég lagði mikla áherslu á að það hefðu legið fyrir ítarlegar upplýsingar um öll þessi mál í meginatriðum þegar frv. um Orkubú Vestfjarða lá fyrir Alþ. og hefðu allir þm. fengið bók sem var gefin út af orkunefnd Vestfjarða og hafði titilinn: „Tillögur um orkumál Vestfjarða.“ Og það þarf ekki annað en vísa til þessa rits til að sýna fram á, að það er mikill misskilningur, að engum hafi dottið þessi mál í hug fyrr en búið var að setja lög um Orkubú Vestfjarða.

Það var einnig sagt, hvort sem það var hv. 5. þm. Austurl. eða einhver annar hv. þm., að það hefði ekkert verið hugsað um skiptingu á skuldum Rafmagnsveitna ríkisins í hluta Orkubúsins og það sem Orkubúið tekur ekki við, fyrr en búið var að setja lög um Orkubú Vestfjarða. Þetta er jafnmikill misskilningur. Ég skal ekki vera að fjölyrða um þetta, en ég vil aðeins láta þess getið hér og mér er vel kunnugt um það, af því að ég átti sæti í orkunefnd Vestfjarða, að það voru nokkrir mánuðir í störfum n., sem gengu svo að segja eingöngu út á þessi tvö atriði, margs konar útreikningar, margs konar athuganir sem voru gerðar einmitt á þessum atriðum. Í skýrslunni segir með leyfi forseta:

„Það verður að gera ráð fyrir, að af hálfu ríkisins sé haldið áfram aðgerðum til að jafna aðstöðumun milli landshluta í formi verðjöfnunar eins og nú er eða með einhverjum öðrum hætti. Hljóta þá Vestfirðingar að eiga eftir sem áður að njóta sem aðrir landsmenn slíkra almennra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins. Talið er, að á árinu 1975 hafi verðjöfnunargjaldið alls numið 540 millj. kr. Miðað við umsvif Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum eða í réttu hlutfalli við skiptingu bókfærðra eigna milli landshluta svarar þetta til að í hlut Vestfirðinga hefðu átt að falla um 100 millj. kr. í verðjöfnunarfé. Slík fjárhæð árlega nægir til að standa undir fjármagnskostnaði Orkubús Vestfjarða af yfirtöku eigna Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum. Er þá reiknað með yfirtökuverði sem miðað yrði við stofnkostnað mannvirkjanna að frádregnum afskriftum og eignayfirfærslan verði gerð möguleg með sama hætti og staðið yrði undir nýjum framkvæmdum, þ.e. með lánskjörum sem svarar til 40 ára lána og 12% árlegs kostnaðar auk afborgana. Hér er um að ræða stofnkostnað í árslok 1974 sem nemur um 500 millj. kr. og um 300 millj. kr. stofnkostnað af Mjólkárvirkjun II, sem kom til á árinu 1975. Þetta dæmi má setja upp með öðrum hætti eða á mismunandi vegu, en það breytir engu að mati n. um það meginatriði málsins, að yfirfærsla eigna Rafmagnsveitna ríkisins verði að vera með þeim kjörum sem Orkubú Vestfjarða fær staðið undir, enda verði fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins jafnframt borgið.“

Það eru vel valin orð hér fram undan, en ég sé ekki ástæðu til þess að vera að lesa þau upp. Ég aðeins minni á þetta að gefnu tilefni.

Hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þórðarson, lét þau orð falla eitthvað á þá leið eða mátti skilja þannig, að þetta mál hefði kannske ekki verið nægilega kynnt fyrir þm. Ég vil aðeins geta þess, að það var gert og alveg sérstaklega var þm. Vestfirðinga kynnt þetta og öllum þm., með því að allir, hver einasti þm. fékk í hendur till. orkunefndar Vestfjarða um orkumál Vestfjarða. Og það var einmitt af hálfu hv. þm. Steingríms Hermannssonar tekið fram við 1. umr. um frv. til l. um Orkubú Vestfjarða, hve allur undirbúningur þessa máls hefði verið vandlegur. Og af því að mér hefur fundist jaðra við það, að menn teldu að það hefði verið flaustrað við undirbúning frv. að Orkubúi Vestfjarða, leyfi ég mér að vitna hér í hv. þm. Steingrím Hermannsson, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með það starf, sem hefur verið unnið að úttekt orkumála á Vestfjörðum. Ég held að ekki verði um það deilt, að sú n., sem að því starfaði, vann gott starf og vann það hratt og vel, og koma niðurstöður hennar fram í þeirri skýrslu sem þm. hafa fengið um orkumál Vestfjarða.“

Ég gæti haldið hér áfram lofsamlegum ummælum. En ég hef í raun og veru ekki heyrt það og vonandi er það misskilningur, að menn telji að frv. um Orkubú Vestfjarða hafi verið eitthvað sérstaklega ábótavant, og það kom ekki fram í umr. um frv. Annað mál er það og það er rétt, sem hv. 5, þm. Norðurl. e. tók fram, að það voru ýmsir hugsandi út af meginstefnunni í þessu máli, og tjáðu sig um það, þegar frv. um Orkubú Vestfjarða var til umr. En ég minnist ekki að það hafi verið sérstaklega um einhver einstök eða sérstök missmiði á frv. út af fyrir sig.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson, 5. þm. Austurl., ræddi um þetta frv. bæði við 1. umr. og nú við 2. umr. Það var eins og vænta mátti margt skynsamlegt og athyglisvert sem fram kom í máli hans. En þó virðist mér að það gæti viss misskilnings og það er kannske í og með, og álasa ég honum ekki fyrir það, að hann sé ekki að öllu leyti nægilega kunnugur gangi þessa máls. Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda að það mundi nokkuð hamla honum að komast að réttri niðurstöðu um heildarstefnu í málunum eftir hans skoðun. En við 1. umr. las hv. þm. langan kafla úr skýrslu sem hann sagði að væri álit Rafmagnsveitna ríkisins á stofnun Orkubús Vestfjarða. Sú skýrsla, eins og þá kom fram, var rituð af þáv. rafmagnsveitustjóra og skrifstofustjóra Rafmagnsveitnanna. Þessi skýrsla kom fram áður en frv. um Orkubú Vestfjarða var afgreitt. Og mér er óhætt að segja það, að störf iðnn. Ed. snerust ekki síst um þessa skýrslu, þegar þar var til meðferðar frv. um Orkubú Vestfjarða. Þarna voru svo alvarlegar aths., að ég held að ég geti sagt það fyrir hönd allra nm. í iðnn. hv. Ed., að það vildu allir ganga til botns í þessu máli og sættu sig ekki við annað, áður en n. skilaði áliti. Og þetta var gert með ítarlegum viðræðum við þáv. forstjóra og skrifstofustjóra Rafmagnsveitna ríkisins. Það var fenginn sérstakur sérfræðingur til þess að fara ofan í þessi mál og gera greinargerð um þessi efni. Ég heyrði ekki, ég er mér ekki þess meðvitandi, að sú skýrsla, sem rafmagnsveitustjóri og skrifstofustjóri gerðu og vitnað var í hér við 1. umr., hefði minnstu áhrif á afgreiðslu n. En þessi alvarlega skýrsla var send til ég held allra eða flestra sveitarstjórna á Vestfjörðum til þess að vara þær við, og þið getið nærri hvort menn hafa látið þetta sem vind um eyru þjóta. Að vissu leyti var það gott, að þessi skýrsla kom fram, vegna þess að hún hleypti af stað nýjum athugunum á öllu þessu máli, nýjum athugunum. Ég ætla ekki að fara efnislega út í þessa skýrslu, en ég vil aðeins segja það, að það var niðurstaða bæði forsvarsmanna Vestfirðinga í sveitarstjórnarmálum og þeirra sérfræðinga, sem sérstaklega voru til fengnir, að skýrslan hefði ekki við rök að styðjast. Ég vil aðeins segja þetta.

Þá vil ég líka leiðrétta misskilning. Ég veit að það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Austurl. og hann er skiljanlegur, því að það voru fleiri sem misskildu það. Þm. sagði, að þessi skýrsla væri allt Rafmagnsveitna ríkisins. (Gripið fram í.) Ef hann sagði það ekki, þá þýðir það auðvitað það og það hafa sumir sagt og menn sögðu þegar þeir fengu þessa skýrslu, að þetta álit hlýtur stjórn Rafmagnsveitna ríkisins að hafa samþykkt. En ég hef orð formanns Rafmagnsveitna ríkisins fyrir því, að þessi skýrsla var aldrei lögð fyrir stjórn Rafmagnsveitnanna og er ekki samþykkt af stjórn Rafmagnsveitnanna. Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem ég lýsi þessu yfir. Ég man t.d. þegar ég lýsti því einu sinni yfir á fundi Sambands ísl. rafveitna, þar sem við sátum hlið við hlið, ég og Helgi Bergs, foranaður Rafmagnsveitna ríkisins, og gerði það auðvitað í samráði við hann. Það er nóg um þetta.

Hv. 5. þm. Austurl. nefndi nokkur atriði sem honum fannst athugaverð — nokkur atriði. Hann taldi t.d. að með stofnun Orkubús Vestfjarða væri verið að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins, komst eitthvað þannig að orði. Ég vil segja það, að ekki þarf það nú að vera, að Rafmagnsveitur ríkisins séu lagðar niður. Þetta fer mjög mikið eftir því, hvernig fer um þá endurskoðun á skipulagi raforkumála í landinu sem nú fer fram. Það er sú endurskoðun og sú stjórnarstefna sem verður mótuð að lokinni þeirri endurskoðun sem kveður á um það, hvað verður um Rafmagnsveitur ríkisins í framtíðinni, en ekki stofnun Orkubús Vestfjarða. En þá vil ég, af því að ég á sæti í þessari endurskoðunarnefnd og hef allmikið hugsað um þessi mál, lýsa því sem skoðun minni, að það sé ekki raunhæft í næstu framtíð að gera ráð fyrir öðru skipulagi en því, að það geti verið starfandi landshlutasamtök, þar sem menn óska eftir slíkum samtökum, auk þess ríkisfyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins, í núverandi formi eða öðru, til þess að annast þessi mál, raforkumálin, þar sem ekki eru landshlutafyrirtæki. En þarna er ég kominn inn á mál sem er svo stórt að ég ætla ekki að hætta mér út í lengri umr. um það.

Þá er annað atriði sem hv. 5. þm. Austurl. benti á og þótti heldur miður, að því er mér skildist, að það var gert ráð fyrir því í lögunum, að Orkubú Vestfjarða tæki við orkurannsóknum á Vestfjörðum. Ég geri ráð fyrir að hann óttist að þetta þýði það, að Orkubúið ætli ekkert að vera komið upp á Orkustofnun og aðra almenna opinbera fyrirgreiðslu sem veitt er í þessum málum. En það er mikill misskilningur.

Það er gert ráð fyrir því, að Orkubúið verði að njóta í rannsóknarmálum sömu fyrirgreiðslu og aðrir landshlutar, og það er beinlínis tekið fram í sameignarsamningnum milli ríkisstj. og sveitarstjórnanna á Vestfjörðum. En þetta ákvæði er aðeins hugsað þannig, að Orkubúið geti, ef hentugt þykir, unnið einhverja hluti í samráði og eftir fyrirlagi Orkustofnunar.

Þá segir hv. 5. þm. Austurl., að það megi ekki greiða niður orkuverð úr ríkissjóði, og varar við því. Ég skil þetta sjónarmið, og það er ágætt að hv. þm. kemur inn á þetta. Auðvitað er þetta mikið atriði í þessum málum öllum. En það er ekki að hefjast sá leikur nú með stofnun Orkubús Vestfjarða. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að stofnun Orkubús Vestfjarða er ekki að skapa vandamál á Vestfjörðum. Þau eru fyrir og þau verður að leysa. Og ef þau eru ekki leyst eftir leiðum Orkubúsins, þá verður að gera það á annan hátt. Það kostar ekki minna fé með þeim hætt. En hv. þm, sagði, að þetta hefði ekki þekkst áður, að það væri greitt beint úr ríkissjóði. Þetta er misskilningur. Það eru ýmis dæmi þess, og siðast á árinu 1975 var greitt beint framlag ríkissjóðs, 1 milljarður 214 millj., rúmar 1200 millj. beint úr ríkissjóði ofan á verðjöfnunargjaldið.

Það er ekkert launungarmál, að reksturinn á Rafmagnsveitum ríkisins hefur oft og tíðum gengið erfiðlega. Hefur því lítill stuðningur verið að því ákvæði sem er í orkulögunum, sem nú eru í gildi, að það ætti að fjármagna Orkusjóð af rekstrarafgangi Rafmagnsveitna ríkisins. En það er ekki nóg með að Rafmagnsveitur ríkisins hafi ekki skilað rekstrarafgangi. Ástandið hefur verið þannig, að fyrir allnokkrum árum var tekin upp sú regla að endurmeta eignir Rafmagnsveitna ríkisins. Það eru ýmsar ástæður til þess og ég skal ekki fara út í það eða vera að gera það að ádeiluefni hér. En ég bendi bara á að ef það hefði ekki verið gert, þá væru Rafmagnsveitur ríkisins búnar að vera gjaldþrota á pappírnum um árabil.

Ég get aðeins gefið þær upplýsingar sem dæmi um hvað það þýðir, að endurmat það, sem fram fór á árinu 1975 og studdist við vísitöluhækkanir tveggja ára, 1974 og 1975, hækkaði stofnkostnaðartöluna um 75% frá því sem ársreikningurinn 1914 sýndi. Þetta eru ekki smáupphæðir. En með svona endurmati geta Rafmagnsveitur ríkisins eignast eigið fé reikningslega séð, það liggur í augum uppi. Og til fróðleiks get ég getið þess, að þegar skipt er eignum og skuldum Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum frá eignum og skuldum Rafmagnsveitna ríkisins í heild, þá kemur það út, miðað við árslok 1976, þetta er byggt á bókhaldi félagsins og reikningum, að eigið fé á Vestfjörðum er 1 milljarður 598 millj. En þetta er til komið að mestu leyti vegna þess, að eignirnar á Vestfjörðum hafa verið endurmetnar og endurmatið hefur hækkað bókfært verð eignanna á Vestfjörðum um 1171 millj., þannig að ef tekið er tillit til þess, þá er eigið fé Rafmagnsveitnanna á Vestfjörðum um 400 millj., en ekki um 1600 millj. Ég bendi bara á þetta til þess að skýra að gefnu tilefni að Rafmagnsveitur ríkisins hafa fengið margs konar aðstoð fyrir utan verðjöfnunargjaldið, og menn skyldu ekki láta sér vaxa það í augum, þó að eitthvað í sömu átt sé gert fyrir Vestfirðinga þegar verið er að leysa vanda sem orðið hefur til áður en Orkubú Vestfjarða var stofnað.

Hv. 5. þm. Austurl. ræddi um að það þyrfti að vanda allan undirbúning að þessu máli, og ég tek heils hugar undir það. Það þarf að gera. Orkunefnd Vestfjarða var skipuð í júní 1975 og skilaði áliti í mars 1976 og var stöðugt að störfum. Síðan frv. um Orkubú Vestfjarða var samþykkt í maí 1976 hefur málið verið í stöðugri athugun í iðnn., því að samkv, lögunum átti iðnrh, að undirbúa stofnun Orkubúsins. Ég held að málið hafi verið ákaflega vel undirbúið. Ég skal ekki leggja neitt mat á störf mín að þessu, ég var ekki einn í orkunefnd Vestfjarða, en ég vil láta það koma hér fram, að meðnm. mínir þar lögðu mikið og gott starf af mörkum og við vorum með heilan hóp af sérfræðingum sem unnu gagnmerkt starf í þessu efni. Og ég þarf ekki að taka það fram, hve mikið starf hefur verið unnið á vegum iðnrn. frá því að lögin voru sett. Þarf ekki að taka það frekar fram, þannig að við erum alveg sammála um þetta atriði.

En það er líka rétt, eins og hv. þm. sagði, að hvað nákvæmar áætlanir sem eru gerðar, þá er aldrei hægt að ná fullkomnu öryggi. Það er eins og hann orðaði það eitthvað á þá leið, að það væri aldrei vitað fullkomlega hvernig reksturinn verður í framtíðinni, vegna þess að þegar svona áætlanir eru gerðar verður að gefa sér forsendur, og það er mikið matsatriði oft og tíðum hvaða forsendur á að gefa sér, svo að ekki sé talað um það, að svo geta forsendur brugðist Þess vegna held ég að þó að við færum núna að lengja eitthvað undirbúning þessa máls, þá breytti það ekki staðreyndum sem þessum.

Hv. þm. minntist á ýmis atriði sem hann taldi að þyrfti að hafa góða samvinnu um milli Orkubúsins og Rafmagnsveitna ríkisins. Allt það, sem hann minntist á, var skynsamlega mælt. Það voru allt atriði sem mér er kunnugt um að stjórn Orkubúsins, sem hér hefur verið að undanförnu, hefur verið í samningum um við stjórn Rafmagnsveitna ríkisins og rafmagnsveitustjóra. Þar á ég m.a. við sæstrengina fyrir vestan. Þá var það síðast í morgun, að mér var sagt einmitt frá ráðstöfunum varðandi starfsfólkið sem hv. þm. nefndi o.fl., o.fl.

Hv. þm. kemst að þeirri niðurstöðu, eins og hann orðaði það, að það sé skynsamlegt að fresta aðgerðum. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki skynsamlegt. Og Vestfirðingar sjálfir, sem mest eiga undir þessu, leggja höfuðáherslu á að nú verði ekki frekari dráttur. Við minnumst þess, getum minnst þess, að Vestfirðingar hafa alltaf lagt áherslu á það. Og t.d. þegar við vorum að ræða frv. um Orkubú Vestfjarða vorið 1976 komu hér samþykktir bæði frá bæjarstjórn Ísafjarðar og hreppsnefnd Patreksfjarðar a.m.k. til Alþ., þar sem lögð var áhersla á að flýta málinu. Og það eru einmitt þessar sveitarstjórnir á Vestfjörðum sem eru mest viðriðnar þetta mál, því að þær leggja fram eignir héraðsrafveitnanna á þessum stöðum. Þannig held ég að það væri mesta óráð að fresta málinu og það væri öllum gerður hinn mesti bjarnargreiði með slíku, og það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ég held að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. óbreytt og fella báðar brtt. bæði frá hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 5, þm. Austurl., fella báðar brtt., samþykkja frv, óbreytt þannig að staðið verði við þá samninga sem ríkisstj. hefur þegar gert við Vestfirðinga, svo að vonir Vestfirðinga í þessu máli bresti ekki.