15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hv. 4. þm. Suðurl. hefur ekki verið ánægður með þau svör sem ég gaf honum, en mér fannst ekki unnt að gefa önnur svör á þessu stigi heldur en þessi, að iðnrn. varð strax við óskum Sunnlendinga sem fram voru bornar um könnun á orkumálunum, þ.e.a.s. um hugsanlega aðild að Landsvirkjun. Ég sé nú ekki meðan þeirri athugun er ekki lokið, að ástæða sé fyrir mig að fara að gefa einhverjar yfirlýsingar um einhverjar hugsanlegar hugmyndir sem kynnu einhvern tíma að koma fram. Ég held að það sé rétt að þessi könnun samkv. ósk Sunnlendinga sjálfra fari fyrst fram.

Varðandi fsp. hv, 5. þm. Norðurl. e. um það, hvort Norðurlandsvirkjun, ef stofnuð yrði, mundi njóta sömu fyrirgreiðslu og Orkubú Vestfjarða, m, a, um sömu hlutföll varðandi yfirtöku skulda, þá er rétt að gera sér grein fyrir því, að í sambandi við Orkubú Vestfjarða voru m.a.settar fram þær meginforsendur, sem taldar eru upp í sameignarsamningnum, að fullnægt verði orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum, í öðru lagi, að Vestfirðingar búi við sambærilegt orkuverð og aðrir landsmenn, og í þriðja lagi, að Orkubúið hafi traustan rekstrargrundvöll. Varðandi þessa þriðju meginforsendu var auðvitað kannað rækilega hvernig ætti að búa Orkubúinu þennan trausta fjárhagsgrundvöll, og eftir nákvæma könnun á því máli varð niðurstaðan þessi: Annars vegar skyldi miða við skuldir Rafmagnsveitna ríkisins vegna mannvirkja á Vestfjörðum í árslok 1975. Þær munu hafa verið alls milli 1300 og 1400 millj. kr., ef ég man rétt. Ekki mundi fært að Orkubúið yfirtæki meira en 500 millj. af þessari fjárhæð, eða um það bil 800 millj. yrðu annaðhvort áfram hjá Rafmagnsveitunum eða aðrir aðilar en Orkubúið stæðu undir þeim. Í öðru lagi, til þess að tryggja þennan trausta rekstrargrundvöll, þyrfti Orkubúið að fá sem svarar 20% af verðjöfnunargjaldi.

Þessi tvö meginatriði voru samþykkt af ríkisstj. í júníbyrjun þessa árs. Á þessum grundvallaratriðum var síðan byggt. Viðræður við sveitarfélög og orkuveitur á Vestfjörðum, undirbúningsstofufundur og stofnfundur Orkubúsins og allar viðræður voru byggðar á þessum tveim meginatriðum sem höfðu verið samþykkt af ríkisstj. að undangenginni nákvæmri könnun á fjárhagsstöðu og athugun á traustum rekstrargrundvelli fyrir Orkubúið.

Ef til þess kæmi að stofna landshlutasamtök víðar, sem ég vona að verði, t.d. Norðurlandsvirkjun, þá verður auðvitað á sama veg að kanna hvernig hægt sé að tryggja Norðurlandsvirkjun traustan rekstrargrundvöll. Ég tel að það sé ekki fyrir fram hægt að slá því föstu, að sams konar hlutfallsleg skipting á skuldum Rafmagnsveitnanna þyrfti endilega að eiga við þar. Það þarf auðvitað varðandi hvert þessara landshlutafyrirtækja að fara fram sjálfstæð athugun á því, miðað við eignir, skuldir og fyrirhugaða starfsemi þess fyrirtækis, hvernig þessum málum yrði fyrir komið.

Hins vegar held ég að sé óhætt að lýsa því yfir, að það er vilji og hugsun ríkisstj. að önnur landshlutafyrirtæki, sem stofnuð yrðu með svipuðum hætti og með svipuð verkefni og Orkubú Vestfjarða, fengju hliðstæða fyrirgreiðslu og Orkubú Vestfjarða. En ég vil undirstrika það, að í þessu felst auðvitað ekki að skuldayfirfærsla eða skuldaskipti þurfi að vera með nákvæmlega sama hætti eins og vegna Orkubúsins. Það þarf að fara fram sjálfstæð könnun á fjárhagsgrundvelli og traustum rekstrargrundvelli hvers fyrirtækis.