15.12.1977
Efri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki orðlengja það sem ég hef nú að segja, en þó er þetta þyngst á metunum, að ég hygg að við verðum alveg úrtakslaust að láta Alþ. fjalla um það, með hvaða hætti stofnun ríkisins á að taka við skuldum eins og þessum, sem hér eru færðar yfir á ríkissjóð og frá honum yfir á Orkusjóð, m.a. með tilliti til þess að það virðist nú blasa við, að senn verði um það fjallað með hvaða hætti Norðurlandi öllu verði tryggður rekstrargrundvöllur fyrir Norðurlandsvirkjun, e.t.v. á næstu missirum.

Og svo vil ég rétt í lokin vekja athygli á því, að hér er um að ræða frv. til l. sem fullyrt er að gilda eigi í eitt ár og taka þá til endurskoðunar, svo sem verið hefur á undanförnum árum þegar fjallað hefur verið árlega um verðjöfnunargjald á raforku. En í samningi þeim, sem ríkisstj. hefur gert eða hyggst gera við Orkubú Vestfjarða, segir ljósum orðum: „Ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að Orkubúið fái sem svarar 20% af verðjöfnunargjaldi af raforku,“ — 20% af tekjum af verðjöfnunargjaldi af raforku þá um ókomna framtíð, á meðan Orkubú Vestfjarða stendur, án tillits til þess hvort forsendur breytast eða breytast ekki. Hér er ekki tjaldað í il einnar nætur. Hér er ekki verið, svo sem verið hefur undanfarin ár, að samþykkja frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku til eins árs. Hér er kveðið á um það, að Orkubú Vestfjarða skuli framvegis fá 20% af verðjöfnunargjaldi af raforku.

Ég ítreka það, ég mæli ekki gegn því að Vestfirðingar fái sinn hlut af verðjöfnunargjaldinu. En ég vil ekki að það verði bundið í lögum, að hlutfallið á milli RARIK og Orkubús Vestfjarða verði 20 á móti 80. Ég vil ekki að það verði bundið í lögum. Og síst af öllu vil ég að það verði gert undir því yfirskini að hér sé verið að samþykkja skipan af þessari tegund til eins árs.