19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

3. mál, íslensk stafsetning

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þetta mál og þessi málatilbúnaður er að vísu ekki nýr hér fyrir sjónum hv. þm. Þessi tillögugerð, sem er hér í frv: formi, rak hér fyrst á fjörur þm. sem vinnuskjal frá starfsmönnum hæstv. menntmrh. sem hann hafði að þeirra beiðni haldið á hér niður eftir. Hann sendi þetta til samstarfsflokksins, sem eru 8 þm. fjölmennari, sem styður hæstv. menntmrh., til umsagnar og samstarfsflokkurinn vísaði þessu algerlega á bug, alfarið, um það var enginn ágreiningur. Nú er þetta ekki flokksmál og ekki stjórnarmál, þannig að hann hefur að sjálfsögðu frjálsar hendur um það að flytja þetta sjálfur. En það hefur hver fyrir sig smekk um hvernig samstarfið eigi að vera á milli flokka. Ástæðan fyrir því, að Sjálfstfl. tók ekki í mál þessa aðferð, var sú, að áður en að því er komið að við finnum skipan málsins, finnum leið til þess að skipa málum þessum, þá verðum við að ná sáttum fyrst í þeirri miklu þrætu sem staðið hefur yfir. Þarna var verið að hlaupa yfir og þessi aðferð var fundin út af þeim mönnum sem hafa lagst á öll tog um það að ná þessum breytingum fram og halda þeim sem í fljótræði voru gerðar á sínum tíma.

Ég er — og hef lýst því yfir áður — samþykkur þeirri reglu í meginatriðum sem er lögð til í þessu frv. En áður en við skipum málum á þann veg þurfum við að ná samkomulagi. Að vísu má segja að Alþ. hafi tekið af skarið áður um þetta efni. Það er langt síðan Alþ. gerði það. Það var samþykkt hér á hinu háa Alþ. þáltill. þar sem ekki var skorað á ríkisstj. til eins eða neins, heldur tekin ákvörðun um að hrundið skyldi þeirri ákvörðun að fella z niður úr rituðu íslensku máli — bein ákvörðun Alþingis. Hv. þm., sem síðast talaði, var að hæla eða tjá fylgi sitt að mestu leyti við þetta frv. hæstv. menntmrh. Hann sýnist mér í öðru máli hér vera ákaflega harðsnúinn fylgismaður þess að ráðh. átti sig á því, að þeim beri að fara að vilja Alþ., þeir séu, eins og hann segir í frv. sínu um Iðntæknistofnun Íslands, framkvæmdastjórar Alþingis og beri að fara að vilja Alþingis. Þetta þarf auðvitað ekkert að ræða, auðvitað ber þeim það. En þeir hafa, bæði í fyrrv. ríkisstj. og núv., ekki farið að vilja Alþ. og þetta er ákaflega alvarlegt mál, ekki síður alvarlegt heldur en hvernig búningur íslenzks máls sé í rituðu máli. Og ég held að alþm. verði að hugsa sig um tvisvar áður en þeir taka ekki til höndum, ef svo á fram að ganga. Og það eru svo sem fleiri dæmi til um þetta. Ég ætla nú ekki sérstaklega að ræða það hér og nú. En á einhverju ferðalagi í sumar heyrði ég í útvarpi að hæstv. dómsmrh. væri byrjaður að framkvæma þáltill. sem aldrei hefur fengizt samþykkt í Alþ. Hann hefur skipað n. til þess að framkvæma þáltill. um endurskoðun laga um prestkosningar, sem alveg greinilega, ár eftir ár, hafði ekki fylgi hér í Alþ. Það er nægur tími til þess að ræða þessi mál þegar þar að kemur og þessi n. hefur skilað áliti. En ég tók svo eftir, að hún ætti að fara eftir inntaki þeirrar þáltill, eins og hún var búin í hendur Alþ. enda þótt, eins og ég segi, fyrir lægi alveg tvímælalaust að hér var ekki fylgi fyrir samþykkt slíkrar tillögu.

Hv. þm. verða að fara að gá að sér í þessu efni og gæta þess vandlega, að hæstv. ríkisstj. fari ekki sínu fram, því að það er rétt, sem hv. þm. Magnús Kjartansson segir í grg. sinni með frv., sem ég minntist á, að þeir eru framkvæmdastjórar Alþingis. Og hann hnykkti á því mjög hér í gær, að hann hefði borið það undir ónefndan frægan lögfræðing, að eftir samþykktum Alþingis og að vilja Alþingis væru þeir siðferðilega skuldbundnir að fara, hæstv. ráðh. Um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum. En fyrst þeir gera það ekki, þá verða hv. alþm. að taka til sinna ráða. Það eru einhver ráð með það, ef þetta á að vera tíðkuð aðferð. (Gripið fram í.) Ja, allt kemur auðvitað til álita í því, ef fer að taka mjög í hnúkana. En við verðum aðeins að gefa umþóttunartíma, og erindi mitt hérna er að leggja til aðferð svo að við komumst hjá því í þessu máli.

En saga málsins hér á hinu háa Alþ. undanfarin þrjú ár er auðvitað lengri en þetta. Það hefur ýmislegt annað og fleira skeð en það, að Alþ. samþykkti beint að hrundið skyldi þessari ákvörðun um brottfall z-unnar. Það var skrifað undir áskorun til hæstv. menntmrh, á sinni tíð af meiri hl. þm. um málið. Það var lagt fram lagafrv. hér sem var samþ. í Nd. Alþ. með 25:14 atkv. og gekk þá á síðasta degi þingsins til Ed., og eins segir í grg. með þessu frv., þá lagði menntmn. Ed. til, „þar sem ljóst er að ekki vinnst tími til að afgreiða málið á þessu þingi, að frv. verði vísað til ríkisstj.“ Þetta var eina forsendan fyrir því, að málinu var þá vísað til ríkisstj.

En allt hefur komið fyrir ekki. Þótt menn hafi getað sýnt fram á það, að meirihlutavilji í Alþ. var fyrir því að hindra, að z-an skyldi alfarið numin brott úr rituðu íslenzku máli, þá hefur allt komið fyrir ekki, og spurningin er: hvers vegna í ósköpunum? Hvers vegna í ósköpunum leyfir hæstv. ráðh. sér það að fara ekki að þessum vilja og ætla svo að skjótast fyrir horn með því núna að setja kappmellu á málin með lagafrv. þessu, sem búið er að lýsa yfir við hann og hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir að ekkert samkomulag var um? Samhljóða var afgreiðsla þingflokks Sjálfstfl. á því að hafna því að þessi aðferð skyldi fest í lög nú, og mér er kunnugt um að ýmsir aðrir eru sama sinnis.

Það er alveg þýðingarlaust að ætla að láta svo sem mönnum sé ekki kunnugt um fyrri sögu þessa máls, og það hefur þeim auðvitað verið fullkunnugt um, þessum sem höguðu sér eins og þjófar á nóttu árið 1973 um breytingar í þessu efni. Auðvitað var þeim fullkunnugt um það, hvaða sögu þetta mál átti sér, og áttu þeir þess vegna ekki að láta sér til hugar koma að þeir gætu náð þessu fram með þeim hætti sem þeir unnu að. Það var skipuð felunefnd nokkurs konar, fimm manna. Henni var fengið geysilega viðamikið viðfangsefni að rannsaka. En hún skilaði ekki áliti sem síðar var rætt, eins og hefði þurft að gera, heldur eftir örskamma hríð skilaði hún áliti um eitt atriði af ótalmörgum, og það var hent á lofti af hæstv. þáv. menntmrh. og tilkynning gefin út, algerlega að órannsökuðu og óræddu máli, gersamlega. Síðan var haldið áfram og enn komið með till. um breytingu á ritun á stórum og litlum staf. Það endaði í skötulíki, eins og hæstv. menntmrh. lýsti hér fyrir okkur áðan.

En þrætan um búning málsins ritaðs stóð langt á aðra öld, og það voru margir jafnmerkir menn og hv. þm. Magnús Kjartansson sem höfðu lýst yfir fylgi sínu við aðferð þeirra Fjölnismanna í gegnum aldirnar — stórmenni — í málvísindum. Fyrst skal frægan telja Konráð Gíslason, Björn M. Ólsen, rektor Háskólans, Guðmund Björnsson landlækni, Bjarna frá Vogi og ótal stórfursta, sem lögðu þessari aðferð lið, sem er ritun málsins eftir framburði, en ekki uppruna. Og það þarf ekkert að fara í langar lýsingar á því, hvað þetta þýðir t.d. fyrir hæstv. menntmrh. Ég hef kynnt mér það, að í slíkar ógöngur hafði framburður gengið um hríð á Austurlandi, að það væri ekki frá Neskaupstað, heldur Neskaupstað, og sjálfur mundi ekki hæstv. menntmrh. éta rjóma, sykur og skyr í hvert mál, heldur rjóma, sekur og sker. Þannig er það, að það er hægt með mjög einföldum hætti að sýna fram á í hvers lags ógöngur málið hefði getað farið.

Það eru margir áratugir síðan hljóðvilla var ákaflega útbreidd um Austurland og ef það hefði leiðrétzt m.a. að því að hafa samræmda stafsetningu, þá hefði þetta getað þróazt og lent í algerum ógöngum þannig að aðrir landsmenn hefðu e.t.v. átt í erfiðleikum með að skilja það. Og þá hefði nú verið heldur betur illa komið fyrir hæstv. menntmrh.

En eftir þessa ótrúlega löngu og harðsnúnu deilu hinna frægustu menntagarpa á Íslandi, þá varð samkomulag, þá urðu sættir árið 1929. Og enginn kvartaði undan þessu nema einstaka barnakennari, og því var því miður létt af þeim með tilkynningu menntmrh., Haralds heitins Guðmundssonar, 1932 trúlega, að það var felld niður sú skylda að kenna z-una í barnaskólum. En friður ríkti með mönnum loks eftir að hinir hæfustu menn höfðu náð saman höndum um samræmda stafsetningu.

Og það er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. Magnús Kjartansson að halda því fram, að búningur málsins í rituðu formi hafi ekki úrslitaþýðingu, að uppruni málsins skipti ekki máli. Við geymum hann, upprunann, með rituninni, með því t.d. að vita að í orðinu veizla er stofninn að veita, með tannhljóðinu t, en veisla, þar sem tannhljóðið er horfið, það er ekki af veita, það gæti verið af orðinu veisa, sem þýðir gröftur. Og verslun, það var verð, virði, það er af þeim stofni. En hvernig ætli menn, ef þetta tannhljóð, ð-ið, hefði verið fyrir löngu horfið, af hverju ætli menn hefðu þá ætlað að þetta orð, verslun, væri? Við getum tekið dæmi að gamni okkar. Þessar höndlanir voru flestar í verum, sjávarplássum. Menn hefðu kannske ætlað, að þetta hefði stafað af því að þessar verslanir hefðu risið fyrst í verum landsins. Það hefði getað verið af ver, sbr. sængurver, að verja eitthvað, þar hefðu kaupmenn varið vörur sínar. Það hefði getað verið af því, sem er skynsamleg ályktun, að þangað hefði fólk farið til að verja peningum sínum og kaupa nauðsynjar sínar: En það er ekkert af þessu rétt. Auðvitað er höfuðnauðsyn að við vitum af hverju þetta er komið, og það vitum við einvörðungu vegna þess að tannhljóðið hefur geymzt, að menn rituðu z þarna í staðinn fyrir ðs. Svo náttúrlega, gæsla, við vitum ekki lengur að það er af orðinu gát með tannhljóðinu t. Ja, af hverju er það þá? Gægsla, sjálfsagt af orðinu að gægjast eða einhverju álíka merkilegu. Þannig heldur afbökunin áfram í allar ótrúlegar áttir, ef hverjum sérvitringi á að fá að haldast uppi að rita eftir framburði. Það lendir í eintómum hafvillum, málið sjálft.

Ég minntist aðeins á aðdragandann að breytingunum 1973. Aðdragandinn var auðvitað ekki eins og hann átti að vera, og satt best að segja er ég aðallega sammála þessari aðferð sem fram kemur í frv. hæstv. menntmrh., að höfuðmarkmiðið með þessu er það að hindra að menntmrh. framtíðarinnar. geti farið höndum svo um þetta mál eins og þeir tveir hinir síðustu. Að sjálfsögðu er þörf að hindra frumhlaupin og handvammirnar, því að hvernig svo sem litið er á það hvernig að breytingunni 1973 var staðið, þá hlýtur það að vera stórámælisvert miðað við alla forsögu málsins, sem menn auðvitað, sem þarna um veltu, gerþekkja. Það er rétt hjá hæstv. menntmrh., að það þarf að vera sem mestur stöðugleiki í þessu máli og, eins og hann sagði, með því að athuga þetta eins og einu sinni á öld. Þetta má alltaf vera í athugun, það rifjar upp fyrir mönnum málið sjálft og öll umræða er af hinu góða. En ekki hafði hann nú það í huga, að breyta þessu svo sem eins og einu sinni á öld, þegar hann í sumar hljóp til í júní og gaf út breytingu á stórum og litlum staf í staðinn fyrir auðvitað að hinkra með þá breytingu þar til útséð var um það, hvort við gætum náð sáttum um aðalefni þess sem þæft hefur verið um, varðveislu z-unnar, og gera það í einu lagi heldur en að gefa út því fleiri breytingarreglugerðir.

En þegar hæstv. menntmrh. segir frá því í grg. með frv. þessu, að haldin hafi verið ráðstefna um þetta mál, og að þar hafi ekki orðið um sérstakar undirtektir að ræða eða að ekki hafi verið stefnt til neinna sátta, þá er þetta að mínum dómi rangt. Á þessari ráðstefnu varpaði sjálfur formaður endurskoðunarnefndarinnar, Halldór Halldórsson, fram sáttatillögu, ekki skriflega eða formlega, heldur eftir að menn höfðu þæft málið um alllanga hríð, þá stóð hann upp og spurði og varpaði því fram: Er ekki ráð til þess að ná sáttum, sem nauðsynlegt er að ná, að við geymum z-una í stofni orða? Þetta er auðvitað fyrir þá, sem eru fylgjandi rithættinum frá 1929, ákaflega stór biti að kyngja, svo að ekki sé meira sagt. En með því er þó aðalröksemdin þessi, að þá er ekki lengur hægt að segja að það sé sérstaklega flókið mál og krefjist mikillar málfræðikunnáttu. Ef við sleppum ritun z úr miðmyndarendingunum, þá er sú röksemd þeirra, andstæðinga z-unnar, í brott fallin, ef sá háttur verður hafður á: Enn fremur er það vegna uppruna málsins, þá næst tilgangurinn með því að varðveita hana í stofni orða, þannig að hér létti mjög mörgum manninum sem ekki hefur bitið sig því fastar í einhverja eina aðferð. Og ég verð að segja það fyrir mitt leyti, þó að mér sé ákaflega annt um stafsetningu frá 1929 og vildi helst við hana búa, þá vil ég þó ýmislegt leggja á mig til þess að við getum skilið skaplega sáttir í þessu máli.

Þess vegna er það, að ég hef undirbúið till. til þál. um íslenzka stafsetningu. Ég legg höfuðáherzlu á það, að hér er reynt af minni hálfu og þeirra, sem mér hafa fylgt að málum, að teygja sig eins langt í sáttaátt og nokkur kostur er. Þetta er till. til þál., vegna þess að ég vil líka láta láta reyna á það til fullnustu, ef hún skyldi fá meirihlutafylgi á hinu háa Alþingi, hvort við munum áfram þurfa að búa við það að ekki verði farið að meirihlutasamþykktum Alþ. Það er alveg nauðsynlegt. Ég er andstæður lagasetningu í þessu, þó að ég neyddist til þess í hittiðfyrra að bera fram lagafrv., vegna þess að ég var þá um hríð úrkula vonar um að öðruvísi næði málíð fram að ganga. En þetta á ekki að vera bundið í lögum að minni hyggju. Í þessari till. til þál. er horfið frá reglunni frá 28. febr. 1929 yfir í það að varðveita þá aðalreglu, að z-an sé rituð í stofni orða, þ.e. að við geymum tannhljóðið í stofni orða, d, ð, t, þetta er aðalreglan, en ekki í miðmyndarendingum sagna.

Í þessari þáltill. er tekið upp svo hljóðandi ákvæði, — ef hún verður samþykkt í heild sinni, þá er ég fylgjandi þessari aðferð sem hæstv. menntmrh. leggur hér til: „Ef talin verður þörf á síðar að athuga um breytingar á íslenzkri stafsetningu, skal leita um það álits og tillagna 7 manna n.Hæstv. menntmrh. gat þess, að það hefði komið fram gagntýni á þetta atriði í fyrra frv: flutningi hans. Samt sem áður treysti hann sér ekki til þess að breyta þessu. Það er einkennilegt, að ekkert, blátt áfram ekkert af því, sem bent er á í þessu sambandi, virðist fá náð fyrir augum hæstv. menntmrh. Og það voru hálfbroslegir tilburðir þegar hann var að skýra okkur frá því, hvernig þeir ynnu þetta upp frá í rn. Fyrst hefði hann beðið Runólf og Árna að setja eitthvað saman. Síðan hefðu ráðuneytisstjórinn og hann athugað þetta. Til hvers þurfti þessar skýringar á þessu? Við fengum plaggið hingað niður eftir merkt sem vinnuplagg Birgis Thorlacius ráðuneytisstjóra. Og þetta virðist allt saman vera kokkað þarna upp frá þannig, að hann sjálfur, hæstv. menntmrh., nái tæplega vopnum sínum. Það má heita með ólíkindum, að jafnsanngjarn maður og hann er skuli, í hvert eitt skipti sem menn reyna að leggja til það sem mönnum sýnist horfa til rétts vegar, slá á þá hönd, eins og t.d. í þessu efni. Hann segist hafa velt þessu grandgæfilega fyrir sér og hann kemur ekki fyrir nema þremur mönnum í þetta frá þremur stofnunum. Ég er með till. hér um 4 aðra, m.a. frá menntmn. hins háa Alþingis. Það skyldi þó ekki vera, að bað væri ástæða til þess að Alþ. hefði barna frá upphafi beina aðild að málatilbúnaði, tvær 7 manna n. sem fást hér við öll mál í lagasetningu og öðru sem frá hinu háa Alþ. gengur í menntamálum. Og till. er á þann veg, að n. verði þannig skipuð: þrír hinir fyrstu þeir sömu sem hæstv. menntmrh. leggur til, þ.e. frá deildarráði heimspekideildar Háskóla Íslands úr hópi prófessora í íslenzkri málfræði, einn tilnefndur af íslenzkri málnefnd úr hópi nm., einn tilnefndur af stjórn Félags ísl. fræða og skal hann vera móðurmálskennari á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi, einn tilnefndur, í þessari till. hér, af Landsbókasafni Íslands úr hópi bókavarða, einn tilnefndur af stjórn Félags ísl. bókaútgefenda, — maður skyldi halda að þeim kæmi málið eitthvað við, — einn tilnefndur af stjórn Blaðamannafélags Íslands, — þetta var nú sá félagsskapurinn sem hefði einhver örlagaríkustu afskipti af íslenzkri stafsetningu á fyrri hluta þessarar aldar, — og einn tilnefndur af menntmn. Alþingis.

Síðan er gerð till. um að n. kjósi sér sjálf formann, því að maður er hreint ekkert viss um, þegar menntmrh. er farinn að skipa n. eða formann, hver það er sem um það vélar. Það er kannske byrjað á Runólfi og Árna og endað svo á ráðuneytisstjóranum. En það er hér í tillögunni, að tillögur n. þessarar um breytingar skuli lagðar fyrir Alþ. til staðfestingar.

Grg, með þessu er örstutt, og ég leyfi mér að kynna þessa till. þó hún hafi ekki enn verið prentuð eða lögð fram, ég hef verið að kynna einstökum þm. innihald hennar. Grg. er örstutt og hljóðar svo:

„Á undanförnum árum hefur komizt á mikil ringulreið í stafsetningu íslenzkrar tungu í stað þeirrar festu, sem áður hafði ríkt í hálfa öld. Á tæpum fjórum árum, frá 4. sept. 1973 til 28. júní 1977, hafa þrívegis verið gefin út fyrirmæli um breytta stafsetningu. Reyndin er hins vegar sú, að lesefni þjóðarinnar er enn að miklu leyti gefið út með hinni rótföstu stafsetningu undanfarinna áratuga.

Nauðsynlegt er að koma aftur á festu í stafsetningu íslenzkrar tungu. Það verður eigi gert nema fest verði í sessi stafsetning sem er þjóðinni töm og ber henni viðast fyrir augu. Því er í þáltill. þessari lagt til, að tekið verði af skarið í því efni.

Æskilegast væri að halda stafsetningunni frá 1929 óbreyttri. Til sátta við þá, sem telja gildandi z-reglur krefjast meiri þekkingar á íslenzku máli en ætla megi Íslendingum almennt, er þó í till, þessari gerður kostur á tilslökun til málamiðlunar.“

Ég hef lyst hér megininnihaldi þessarar þáltill. sem borin er fram til sátta í þessu máli, og ég skora nú á hv. þm. að skoða þetta mál gaumgæfilega, hvort ekki er ráð til þess nú og nauðsyn að við reyndum að ná höndum saman og sættast í málinu. Við verðum ekki sammála um neina aðferð um það, hvernig þessum málum sé skipað, fyrr en við höfum náð sáttum um þetta — um aðalefni málsins. Það er alveg útilokað. Þá heldur ófriðurinn áfram. Hann verður kannske ekki til lykta leiddur á næsta áratug. Það skiptir ekki máli. Ófriðurinn heldur áfram, við höfum sögulegar staðreyndir fyrir augum í því efni. En ég hygg að með þessu móti, þótt langt sé gengið til samkomulags þar sem halda á aðeins við z í stofni orða, þá hygg ég að sættir kunni að takast.

Ég verð að segja það, að jafnvel hinir illvígustu þverhausar í þeim hópi manna sem ég hef átt samleið með í máli þessu, fyrst tekizt hefur að teyma þá til þessa samkomulags, þá var ég að gera mér vonir um það, að hv. þm. hver og einn, þótt þeir áður hefðu lagzt gegn minni málamiðlun eða stefnu í málinu, þá gætu þeir hugsað sér að taka nú höndum saman um þetta, ef þeim sýnist eftir rækilega íhugun að þetta sé leiðin til þess að við getum sætzt á á málið.

Á þetta vil ég leggja ríka áherzlu. Ég ætla ekki nú á þessu stigi málsins að rifja fleira upp í þessu sambandi. Mönnum er orðið inntak matsins allrækilega kunnugt. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að það verði enn slegið á útrétta sáttahönd í þessu máli.

Ég fer alls ekki fram á það við hæstv. menntmrh., að hann standi upp hér og lýsi einu eða neinu yfir um það, hvort hann, ef þessi þáltill. mín nær meirihlutafylgi á Alþ., fer að henni eða ekki. Ég spyr ekki um svo sjálfsagðan hlut.