15.12.1977
Sameinað þing: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

133. mál, gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð um þennan samning. Ég vil strax lýsa því yfir, að varðandi loðnuveiðar Færeyinga hér í okkar lögsögu og varðandi það magn, sem þessi samningur gerir ráð fyrir, get ég fallist á það. En ég vil einnig lýsa yfir í leiðinni, að ég harma það mjög að ekki kom skýrt fram að hverju stefnir með þorskveiðikvótann eða þorskveiðimagnið handa Færeyingum. Þrátt fyrir það að jákvætt sé fyrir okkur, sbr. 61. gr. og 62, gr. í því uppkasti sem nú liggur fyrir frá Hafréttarráðstefnunni, þá er það ótvírætt að þegar um þann fiskstofn er að ræða, eins og gildir um allt varðandi þorsk hér, þá getum við algjörlega rólegir gagnvart öllu því, sem er áður gert, hagnýtt okkur þorskstofninn fyrir okkur sjálfa.

Hins vegar segir á bls. 45, í þriðju línu, á ensku með leyfi forseta: „The Costal state shall give other states“ o.s.frv. aðgang að því sem það getur ekki sjálft fullnýtt að eigin mati. Það er alveg rétt og er undirstrikað í fréttum og undirstrikað í ræðum núna, að það er jákvætt og viðeigandi gagnvart Færeyingum að veita þeim aðgang að loðnuveiðunum. En ég vil fá að vita um það frá hæstv. ráðh. eða ríkisstj., að hverju stefnir með þorskstofninn, því það er ekkert grín þegar þorskveiðibann á sér stað, eins og er í vændum, og öll atvinna stöðvast á vissum landssvæðum 100%. Þau landssvæði standa mjög illa að vígi og geta ekki farið í annað vegna samsetningar flota síns. Frá sömu landssvæðum hafa menn harmað það í mörgum ályktunum, að notkun á flotvörpunni flýtti fyrir því magni sem æskilegt væri að taka á einu ári hér við land. Ég fullyrði að hefði flotvarpan verið lögð til hliðar á þessu ári, eins og við margir þm. vildum, hefði ekki þurft að grípa til þorskveiðibanns nú það sem af er þessu ári, þennan stutta tíma. Svo stórtæk er flotvarpan. Ég tel miklu skynsamlegra þegar við höfum þorskveiðiflota sem leikur sér að því, ef honum er ákveðið beitt, að veiða allt það magn er við þorum af þorski. Ég tel óskynsamlegt að nota svo stórtækt veiðitæki eins og flotvörpuna allt árið, a.m.k. á vissum hafsvæðum, sem gerir það að verkum að við verðum að setja fullkomið þorskveiðibann í nokkrar vikur, a.m.k. marga daga, og stöðva þar með allan atvinnurekstur í vissum landssvæðum, vegna þess að við erum komnir með það mikið magn af þorski að við þorum ekki að halda áfram veiðum. Þetta er svo alvarlegt mál að jafnvel aflakvóti af þorski til Færeyinga upp á 7000 tonn er mikið magn við ríkjandi aðstæður.

Ég hins vegar tek fyllilega undir rök beggja hæstv. ráðh. og 3. landsk. þm. varðandi réttmæti þess að veita Færeyingum allt það sem við getum veitt þeim til handa í okkar landhelgi. Ég tek algjörlega undir það. En við komumst ekki hjá því að horfa á staðreyndir lífsins. Þrátt fyrir það að Færeyingar björguðu vetrarvertíð hér æ ofan í æ með allt að 1500 hásetum eða mönnum á sjó og landi á árunum 1950–1957 og eiga auðvitað hinar mestu þakkir skilið og virðingu frá hendi Íslendinga er hér um ofrausn að ræða við ríkjandi aðstæður að halda þessu magni áfram. Þessi samningur verður að hafa takmarkað gildi, og ég vil fá það fram, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar í því efni varðandi þorskveiðarnar. Ef hæstv. ríkisstj. reiknar með því að þessi þorskveiðisamningur hafi t.d. gildi í eitt ár senn, þá skal ég ekki tefja þessar umr. mikið. En ef þeir hafa það í huga að hann sé ótímabundinn, þá mótmæli ég því mjög ákveðið. Við getum ekki veitt hann, þ.e. kvótann, við ríkjandi aðstæður, því að við lokum allri starfsemi á vissum landssvæðum vegna þess að við þorum ekki og getum ekki tekið of mikið af þorskinum, sérstaklega með þeirri veiðitækni sem við höfum beitt nú undanfarið og virðumst ætla að gera á næsta ári einnig. Ég á þá við að það næst ekki enn samstaða um að leggja flotvörpuna til hliðar og sækja jafnara í þorskinn og dreifa með því veiðisókninni á allt árið.

Þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar til þess að hindra aukna sókn, eru lofsverðar og góðar frá hendi hæstv. sjútvrh. Hann á þakkir skilið fyrir það sem hann hefur gert. En ég segi, og það er mín skoðun og margra annarra, að hann hefði átt að hlusta á þær raddir sem lögðu til að flotvarpan yrði lögð til hliðar í bili. Vonandi verður hún í fullu gildi aftur innan skamms, en við ríkjandi aðstæður er ekki viðeigandi að nota hana. Það má hafa sömu rök um þorsknótina. Við lögðum hana eða þeir, sem við útveginn stóðu, frjálsir til hliðar og var síðan algjörlega bönnuð, vegna þess að hún var metin of stórtækt veiðitæki. Það má setja harðari reglur varðandi þorsknet og þar fram eftir götunum um margt annað. Það er allt gott og blessað. En við verðum þó að gá að því, að það er mjög alvarlegt mál fyrir alla í þessu landi að neyðast til þess að stöðva þorskveiðar.

Þetta tengist saman þrátt fyrir það að menn vilji ekki líta á það í einni heild.

Ég óska eftir að fá að vita hvað hæstv. ráðamenn hugleiða í því efni að láta samning við Færeyinga varðandi þorskveiðiheimild hafa langan gildistíma. Er það út þetta ár? Það kom ekki fram í ræðum manna. Eða er það út næsta ár? Eða er það algjörlega ótímabundið þrátt fyrir minnkandi magn? Ég tel ekki með nokkru móti hægt að sýna þá rausn við ríkjandi aðstæður varðandi þorskveiði að hafa þetta ótímabundið. Hins vegar skal ég manna fúsastur verða til þess að samþ. það, að Færeyingar fái að veiða hér aftur verulegt magn að þorski þegar við höfum bjargað stofninum frá ofveiði. Þá er það svo sjálfsagt, að ég reikna ekki með að þá verði nokkur ágreiningur, hvorki hjá sjómönnum né viðkomandi ríkisstj. eða hv. alþm. Sannarlega eiga Færeyingar það inni hjá okkur eftir að bjarga vetrarvertíð eftir vetrarvertíð hér um allt land, að við veitum þeim allt sem hægt er. En það leysir okkur ekki undan þeirri skyldu að gera okkur grein fyrir því, að við höfum nú ekkert til skipta varðandi þorskstofninn. Því er nú verr. Því er nú verr og miður. Það væri sannarlega ánægjulegt ef við gætum sýnt þessari litlu þjóð slíka ræktarsemi, bæði á grundvelli þeirra raka, er hér hefur verið gerð grein fyrir áður, og einnig vegna skyldleika.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta lengra. Ég tel alveg sjálfsagt að samþ. það samkomulag sem nú er sem slíkt varðandi loðnuna. Ég vil undirstrika það, að við verðum að setja punkt við þann möguleika Færeyinga að veiða hér þorsk að sinni. Hvenær við getum veitt þeim það aftur skal ég ekki spá um, en vonandi verður það innan tiltölulega skamms tíma.