15.12.1977
Sameinað þing: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

133. mál, gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mig langar til að byrja þessa stuttu ræðu á því að minna hv, þm, á það, að það mál, sem ég lagði hér fyrir, gefur ekki tilefni til að gera þennan dag að degi kolmunnans eða flotvörpunnar. Það, sem ég lagði hér fyrir, var einungis samningur, gagnkvæmur samningur um loðnuveiðar og kolmunna, en ekki um færeysku samningana.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að færeyski samningurinn um svokallaða botn fiska er uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara og ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um það að svo stöddu að segja þessum samningi upp. En ég bendi á það, að ríkisstj. er auðvitað ekki ein í ráðum um það. Alþm. hafa fullan tillögurétt í þeim efnum, og ég hef ekki orðið var við neinar till. frá alþm. um að segja þessum samningi upp, fyrr en þá ef skilja ber ræðu hv. 1. landsk. þm. sem till. í þá átt. Ég vil segja það, að ég tel ekki að svo stöddu ástæðu til að segja þessum samningi upp, og vísa til ræðu hæstv. sjútvrh, í þeim efnum.

Að öðru leyti vil ég svo þakka bæði hv. 1. landsk. þm. og hv. 3. landsk. þm. fyrir undirtektir undir þá þáltill. sem hér er til umr. En í tilefni af því, að hér hefur verið deilt á ríkisstj. fyrir slælega gæslu á þorskstofni, þá langar mig til að rifja upp örfá atriði — aðeins örfá atriði.

Hv. 1. landsk. þm. sagði að það væri skylda hverrar ríkisstjórnar og hvers Alþingis að standa vörð um þessa auðlind okkar Íslendinga, sem væri algjör forsenda lífs í þessu landi. Í tilefni af þessum orðum kemur mér það í hug, að í júlímánuði 1911 fór ég í fyrsta skipti til samninga erlendis um útfærslu fiskveiðilögsögu okkar. Þær tölur, sem voru til grundvallar lagðar í þeim samningaviðræðum, þær tölur sem við fengum til að vinna úr frá fyrri árum, voru 207 þús. tonn hjá Bretum og 130 þús. tonn hjá þjóðverjum, auk þess 20–30 þús. tonn hjá öðrum þjóðum, þannig að aflinn var 357 þús. tonn sem við byrjuðum að semja um lækkun á. Þetta var fyrir 6 árum — 6 1/2 ári nákvæmlega. Og til þess að undirstrika það enn frekar, að hér var ekki um tilviljunarkenndar tölur að ræða, má geta þess, að hinn margnefndi og umræddi Haagdómstóll lagði til grundvallar sinni leiðarvísun, eins og það var kallað, meðalafla Breta og Þjóðverja, sem kröfðust úrskurðar undanfarin 5 ár, og þær tölur, sem dómstóllinn taldi réttar og sanngjarnar, voru 170 þús. tonn fyrir Breta, ef ég man rétt, og 119 þús, tonn fyrir Þjóðverja, samtals 289 þús. tonn. Nú eru í dag í gildi samningar sem samanlagt gefa erlendum þjóðum heimild til fiskveiða upp á tæp 25 þús. tonn á ári, þar af um 8500 lestir af þorski, þessu fjöreggi okkar. Ég vil spyrja hv. alþm. að því, hvort þeir telji að þessi árangur sé svo slakur að það sé sérstök ástæða til þess að standa upp í þessum ræðustól og gagnrýna ríkisstj. fyrir það, að enn skuli vera eftir 7 þús. tonn af þorskafla til handa Færeyingum, þegar horft er til þeirra aðstæðna sem þeir búa við, þegar horft er til þeirra röksemda, sem hv. 3. landsk. þm. rakti hér, og til allra aðstæðna almennt.

Ef það er skilningur manna, að hér hafi verið illa á málum haldið, hvað vilja menn þá segja un? þá frammistöðu sem var hér frá árinu 1958 eða 1960 og til 1972? Það hefur tæpast farið fram hjá neinum, að ástand fiskstofnanna þá var ekki heldur gott og það var full ástæða þá og miklu fyrr til þess að hefja þær ráðstafanir sem nú er þó búið að koma að mestu leyti í framkvæmd.

Ég held að menn ættu ekki að halda hér uppi háværum og miklum deilum á þá menn sem hafa staðið í fyrirsvari fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar á s.l. árum, heldur horfa á þann árangur sem náðst hefur, bæði fyrir okkar starf, fyrir þróun í alþjóðamálum og fyrir samstöðu Alþingis og þjóðarinnar, sem er kannske það sem ráðið hefur úrslitum í þessu máli.

Mér fannst ástæða til að láta þessi fáu orð koma hér fram, þegar sagt er um okkur, sem nú erum með þessi mál á okkar skrifborðum, að við siglum mjög óvarlega og að við verðum að hafa kjark til að horfast í augu við staðreyndir. Mér finnst að þessi þörfu og spámannlegu orð hefðu gjarnan mátt koma fyrr fram.