16.12.1977
Efri deild: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil alls ekki bregða fæti fyrir það að Orkubú Vestfjarða verði stofnað. Ég tel aftur á móti að undirbúningur undir stofnun Orkubús Vestfjarða sé með þeim hætti, að óforsvaranlegt sé að Alþ. taki ábyrgð á undirbúningnum með þeim hætti sem það mundi gera, ef samþykkt væru nú föst hlutföll á skiptingu verðjöfnunargjalds milli Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins. Hér er ekki um að ræða, eins og gefið hefur verið í skyn, að eingöngu sé verið að afgreiða lagafrv. til eins árs, svo sem verið hefur undanfarið um verðjöfnunargjaldið, heldur kemur það í ljós í samningi þeim, sem gerður hefur verið á milli ríkis og Orkubús, að hér er um bindandi samþykkt að ræða. Ríkisstj. tekur á sig ábyrgð á því gagnvart Orkubúinu, að skiptin skuli vera þessi, án þess að fjallað hafi verið um þessi mál hér á hv. Alþ. Af þessum sökum, vegna þess hvernig undirbúningur hefur verið að stofnun Orkubúsins vegna þess hvernig þetta mál bar að núna, þá segi ég já.