16.12.1977
Efri deild: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

109. mál, ríkisreikningurinn 1975

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi, að ég er sammála því að þessi ríkisreikningur skuli samþykktur og hef ekki við hann að athuga. Ég tel samt rétt að standa upp og vekja athygli á því, að eins og fram kemur í aths. yfirskoðunarmanna og í svörum ráðh. um kaup á húsi Síðumúla 8 hf. og prentsmiðju Jóns Helgasonar hf., sem keypt voru fyrir Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg á sínum tíma, — á árinu 1973, ef ég man rétt, það kemur ekki fram hér, — þá fóru þau viðskipti fram á mjög óeðlilegan hátt að mínu viti, vegna þess að svo var um hnútana búið að þau hlutafélög, sem áttu viðkomandi fasteignir, voru ekki leyst upp við kaupin, heldur var svo látið heita að hinir fyrri eigendur ættu til málamynda nokkur hlutabréf eða 2% af hlutafénu, til þess að þeir kæmust undan því að greiða skattskyldan söluhagnað af þessum viðskiptum. Það kemur síðan fram í svörum ráðh., að svo var um samið að þessi bréf, sem eftir voru, yrði innleyst á nafnverði. Má af því ljóst vera að þarna var um málamyndagerning að ræða, einungis í þessu eina skyni, eins og fram kemur í aths. yfirskoðunarmanna.

Ég skal ekki gera þessi kaup að öðru leyti að umtalsefni. það liggur ljóst fyrir, að þarna voru keyptar úreltar vélar sem illa hentuðu þessum rekstri, en slíkt er að sjálfsögðu matsatriði og ég skal ekki gera það að umtalsefni nú, en aðeins vekja athygli á þessu og láta í ljós þá skoðun mína, að viðskipti af þessu tagi geta ekki átt sér stað af opinberri hálfu. Að sjálfsögðu verður í slíkum viðskiptum að gæta þess, að þar fari allt fram með lögformlegum hætti og verði ekki fyrirmynd óheilbrigðra viðskiptahátta almennt.