19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

3. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. neitt að ráði núna, en vil segja nokkur orð í tilefni af ræðum sem hér hafa verið fluttar.

Ég vil þakka góðar undirtektir undir frv. sem slíkt, því að þær sýnast mér í aðalatriðum vera það. Um það sérstaka atriði, skípan ráðgjafarnefndarinnar, sem bæði nú og áður hefur verið rökrætt hér á Alþ. og komið fram skoðanir um að hún ætti að vera fjölmennari, þá vil ég árétta það sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég legg að sjálfsögðu á vald menntmn. þingsins og þd. að ráða því máli til lykta. Ég fann ekki flöt á því að gera n. betur úr garði en þetta. En það má vel vera, þegar fleiri en þeir, sem hv. 3, þm. Austurl. virðist tortryggja nokkuð, fjalla um þetta mál, að þá finnist betri flötur á skipan þessarar n., og þá hef ég að sjálfsögðu ekkert við það að athuga.

Það er í sjálfu sér ekki erindi mitt í ræðustól út af ummælum hv, þm., — ætli það sé ekki í þriðja sinn sem hann er að í fjölyrða um það blað sem sent var sem vinnuplagg úr rn. nokkrum hv. þm. til skoðunar, ljósrit af því blaði, — að þetta eru ósköp einkennilegar umr. um þetta efni. Ég vil árétta það og vekja athygli á því, að það er mjög venjulegt og mér finnst það eðlilegt þegar flutt eru frv. hér á Alþ., að þá sé greint frá því, hvernig þau hafa orðið til, og það hef ég gert hér. Ég hafði sagt frá því, að þetta frv. er ekki unnið af sérstakri skipaðri n., heldur er það unnið í rn., og ég hef greint frá því, hvaða menn stóðu einkum að því og sérstaklega hverjir gerðu fyrstu drögin.

En svo er það þetta, sem er náttúrlega mikið atriði þó það varði ekki þetta frv, nema óbeint, en auðvitað varðar það stafsetningarmálið, sem hv. 3. þm. Austurl. ræddi hér um, að ná sáttum í deilunni um stafsetninguna sjálfa, um z-una. Þetta mál horfir þannig við mér — ég get greint frá því örlítið nánar en ég gerði í fyrri ræðu minni — að um það atriði eru mjög skiptar skoðanir hjá málvísindamönnum sjálfum. Það hefur komið fram í skoðanakönnun hjá Félagi ísl. fræða, að menn skiptust þar mjög. Á ráðstefnunni, sem var að vísu blönduð af kennurum og öðrum málvísindamönnum, kennurum á framhalds- og grunnskólastigi og öðrum fróðum mönnum, kom fram nokkurn veginn tvískipting um þetta. Svo er mér ákaflega vel kunnugt um það af áskorunum og ályktunum sem mér hafa borist, að það er ákaflega sterk andstaða gegn því að taka upp bókstafinn z, taka hann inn í stafsetninguna á ný, hjá kennurum á framhaldsskóla- og grunnskólastigi. Það yrði mjög erfitt, og ég álít að það kæmist mikil hreyfing á — mér liggur við að segja ringulreið — ef nú á að fara að breyta aftur þessu atriði gegn vilja nokkurs hluta málvísindamanna og mjög mikils hluta kennara. Á hinn bóginn hefur það komið fram í viðtölum okkar hv. 3. þm. Austurl. og viðtölum mínum við fleiri menn, sem eindregið eru þeirrar skoðunar að taka eigi aftur upp z, að það er algjört skilyrði frá þeirra hálfu til þess að sættast að taka upp z að þessu marki sem hv. 3. þm. Austurl. minntist á. Mér sýnist sem sagt af því, að sættir séu óhugsandi nema komi z, og það þýðir það mikið rask að ég vil ekki leggja það til. Ég vildi að gefnu tilefni víkja aðeins að þessu sérstaka atriði.

En svo að lokum — kannske kvaddi ég mér nú sérstaklega hljóðs til þess — vil ég aðeins víkja orðum í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Austurl. að stöðu menntmrh., stjórnskipulegri stöðu hans í sambandi við þál. sem samþ. hafa verið um þetta mál og yfirleitt þessa málsmeðferð.

Hv. 9. þm. Reykv. tók skýrt fram, að hann teldi að menntmrh. hefðu til þess hefðbundinn rétt að gefa út auglýsingar um stafsetningu og skipa málum þannig, og ég held að það fari ekki á milli mála, fyrst og fremst vegna þess að stafsetningarreglum hefur um langt skeið verið skipað með einhliða ákvörðun ráðh. sem síðan hefur verið auglýst, og verði þess vegna að telja þennan setningarhátt venjubundinn og að hann gildi þar til öðruvísi yrði ákveðið með lögum frá Alþ. En svo vil ég vekja athygli á því, að almennar þáltill. eru yfirlýsingar Alþ. og hafa ekki lagagildi. Þær eru ekki undirritaðar af þjóðhöfðingjanum t.d. Og þær víkja fyrir lögum og breyta ekki settum lögum, og mun mega sjá staðfestingu á því í hæstaréttardómum. En þó geta þær haft stjórnskipulega þýðingu í sumum tilvikum, eins og þál, um meðferð konungsvalds — hefur mér verið bent á — frá 1940 og þál. frá 1944 um niðurfellingu dansk-íslenska sambandslagasamningsins. Svo eru í sérflokki ályktanir frá Alþ. sem gert er ráð fyrir beinlínis í stjórnarskránni, en ég ætla ekki að fara að tíunda það. Og það eru vissar þál. sem hafa í raun lagagildi, eins og þál. um vegáætlun o.fl.

En þál. frá 1974 um stafsetningu hefur ekki lagagildi og bindur ekki hendur ráðh. stjórnskipulega, og það er kannske ekki deilt um það út af fyrir sig. Það má hins vegar vera og ég skal ekki efa það, að hún leggi stjórnmálalega ábyrgð á hendur ráðh. og að hann hafi þá mátt vænta vantrausts frá meiri hl. alþm. ef hann færi ekki eftir till. Engir tilburðir voru til þess að flytja vantraust á fyrrv. menntmrh. út af því, að till. frá 1974 var ekki framfylgt. Síðan hefur það gerst, að henni hefur ekki verið framfylgt, og það hefur ekki heldur verið farið út á þá braut að flytja vantrauststill. á núv. ráðh. út af þessu sérstaka atriði.

Hins vegar var flutt hér þáltill. og var afgreidd sem ályktun 1975, áskorun til ríkisstj. um að leggja fram frv. um stafsetningarmál. Það er eins með þá ályktun og þál. frá 1974, að hún bindur ekki ráðh. stjórnskipulega eða ríkisstj., en hún bindur hana stjórnmálalega séð. Varðandi það atriði reyndi ég sem menntmrh. að fullnægja þessari skyldu með frv. um íslenska stafsetningu, hvernig með hana skyldi fara. Ályktunin sjálf, orðalag hennar, fól ekki í sér hvort ætti að undirbúa frv. um hvernig skrifa skyldi eða um almenna skipan stafsetningarmálanna. Ég held því að það sé ekki hægt að halda því fram, að menntmrh. hafi að þessu leyti brotið af sér stjórnmálalega séð.

Það er líka vert umhugsunar í þessu sambandi hvað snertir núv. menntmrh., að frá því að ályktunin frá 1974 var gerð og þar til hann tók við störfum höfðu farið fram kosningar og þing hafði verið skipað, ef litið er á það frá stjórnmálalegu hliðinni. Mér barst að vísu bréf frá alþm., en stjórnskipulega þýðingu hafa slík bréf ekki. Hins vegar hafa þau eins og önnur bréf og áskoranir merkingu út af fyrir sig.

Skoðun mín er því sú, að ég hafi fullnægt stjórnskipulegum skyldum mínum í þessu máli og reyndar stjórnmálalegum líka. Þetta vildi ég aðeins sagt hafa í framhaldi af ræðu hv, 3. þm. Austurl. um þetta efni og annað.