19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

3. mál, íslensk stafsetning

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka það fram, að ég ætla ekki á þessu stigi málsins að tjá mig efnislega um það mál sem hér er um rætt. En það er að sjálfsögðu alltaf matsatriði hvenær leiðrétta skal vitleysur sem sagðar eru úr þessum ræðustól, og ég geri það kannske ekki nema vegna þess að það var sagt hér ranglega frá áðan og vegið að ráðh. sem er fjarstaddur. Það var út af ummælum hv. 3. þm. Austurl. um framkvæmd á þál., að ég tali nú ekki um till. til þál. sem ekki eru samþykktar og um nefndarskipun. Ég vildi bara upplýsa að viðkomandi ráðh., sem er dóms- og kirkjumálaráðherra, var ekki að framkvæma neina ályktun Alþ., heldur var hér í eina tíð á ferðinni lagafrv. sem var vísað til ríkisstj. og þess vegna eðlilegt áframhald að viðkomandi ráðh. skipaði n., en ekki vegna þáltill. sem ekki var samþ. burt séð frá því, hvort hún nokkurn tíma hafði meirihlutafylgi eða ekki, en á það reyndi ekki.

Þessari örstuttu aths. vildi ég koma á framfæri, en eins og ég sagði, ég ætla ekki á þessu stígi málsins að lengja umr. um efnisatriði þess frv. sem hér liggur fyrir.