19.10.1977
Neðri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

3. mál, íslensk stafsetning

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi yfirleitt tekið til máls þegar stafsetning hefur verið til umr. hér á Alþ. Ég hef ekki gert það, eins og skilja mátti af orðum hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar áðan, til þess að draga athygli frá einhverjum þeim vandamálum sem stjórnvöld ættu við að stríða hverju sinni. Ég hef gert það vegna þess að mér er þetta töluvert mikið alvörumál. Ég er sannfærður um að sú mikla umr., sem orðið hefur um stafsetninguna hér á Alþ., stafar ekki af því, sem hv. þm. Magnús Kjartansson nefndi áðan, heldur hinu, að mönnum er annt um tunguna. Þó að skoðanir séu skiptar, þá vakir eitt og hið sama fyrir öllum þeim sem taka þátt í umr, af þessu tagi: að vernda tunguna. Þess vegna segi ég að þessar löngu umr., sem þjóðin hefur verið að skopast að oft á tíðum, eru góðs viti. Þær sýna að í öllum flokkum eru menn sem skilja þýðingu tungunnar fyrir tilveru þessarar þjóðar, fyrir sálarheill þessarar þjóðar. Og ég vil segja það hér, að það er að mínum dómi ekki tilviljun að sá maður, sem hefur haft sig hvað mest í frammi til að verja z-una, halda henni í stafsetningunni, sá maður, sem hefur að atvinnu lengi verið togaraútgerðarmaður og er einn af svonefndum „kommisserum“ Framkvæmdastofnunar, hann talar hvað litríkasta og rismesta íslensku sem við heyrum úr þessum ræðustól. Þetta kalla ég líka góðs víta. Ég er ekki viss um að meðal margra þjóða muni menn í stöðu þessa manns, og með lífsskoðun þessa manns, sem er ekki par góð að dómi okkar margra, hafa til að bera jafnmikinn smekk fyrir tungu sinni, fyrir móðurmáli sínu. Það er góðs viti að rammur íhaldsmaður skuli sýna þessa tilfinningu fyrir móðurmálinu.

Þegar við höfum risið upp hér á vinstri kantinum til þess að tala um að það væri gott að halda z-unni í stafsetningunni, þá höfum við fengið ákúrur af vinstri kanti, í okkar eigin blaði: við séum að sýna alþýðunni fjandskap! Við séum að stuðla að stéttaskiptingu! Við séum að ætlast til þess að alþýða manna skrifi stafsetningu sem, eftir útleggingum þessum, þessum skringilegu marxísku útleggingum, sé ekki á færi annarra en langskólamanna að læra. Þessum Marxisma vil ég mótmæla hér. Ég tel að alþýða manna hafi alveg jafnmiklar gáfur til þess að læra að skrifa z á réttum stöðum eins og langskólagengnir menn. Að vera vinur alþýðu er ekki endilega það sama og að gera engar kröfur til alþýðu.

Um z-una hefur verið talað langt mál, margt spaklegt. Aths. þær, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson gerði hér áðan um þýðingu þess að halda henni í stafsetningunni vegna þess að hún leiðir hugann til tengsla við önnur orð, vísar nemendum veg inn í undraheima tungunnar, þessar aths. eru mjög skynsamlegar. Þegar við sleppum staf eins og z-unni, þá erum við hættir að gera þær kröfur til íslenskukennarans að stafsetningin verði ekki eingöngu það þurra stagl, sem hún því miður æðioft er, heldur hverfi hann aftur í sögu tungunnar. Og það gefur honum þá tilefni til þess að benda á ýmislegt sem miklu skiptir að nemendur viti. Gerð var athugasemd við eitt þeirra dæma sem hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi. Ég verð að játa að þó að ég hafi stundað íslenskukennslu í ein 12–14 ár, þá hélt ég að z-an í verzlun stafaði af skyldleika við orðið verð. En fyrrv. menntmrh. upplýsti hér áðan, — og vitnaði, held ég, til einhverra fræðimanna, sent ég er ekkert viss um að séu endilega neitt meiri fræðimenn í þessu en t.d. hv. þm. Sverrir Hermannsson, — að þetta orð væri skylt sögninni að verja. Látum það liggja milli hluta. Dæmi þau, sem Sverrir Hermannsson tók, voru góð. Mér dettur í hug að taka enn eitt dæmi til þess að skýra frekar hvað ég á við þegar ég nefni þá möguleika sem z-an gefur kennurum. Það er svo annað mál, hvort allir þeir, sem fást við íslenskukennslu, eru þess megnugir að kenna móðurmálið, hafi tilfinningu fyrir því, hafi yfirleitt nokkurn áhuga á því. Það er önnur saga. En tökum t.d. nafnorðið hirzla. Af hverju er z þarna? Vegna þess að orðið er skylt sögninni að hirða. Síðan leiðist talið að orðunum hirðingjar og hjörð. Þá er komið að klofningunni. Og nú þætti mér gaman að vita eitt. Þeir, sem segja að við eigum að fara í stafsetningunni eingöngu eftir framburði, vilja þeir líka afnema ypsilonið? (Gripið fram í: Já.) Þá er líka grundvellinum kippt undan ýmsu fleiru sem getur orðið til þess að leiða nemandann inn í undraheima tungunnar. Ef við ætlum að kippa burt ypsiloninu, þá er engin þörf fyrir kennarann í þessu tilfelli að skýra það út, að sögnin að hirða er skrifuð með i, en ekki ypsiloni vegna þess að í rótinni er e, sem hljóðverpist ekki í ypsilon, heldur i. Af hverju er e í rótinni? Vegna þess að við höfum klofninguna hjörð — hjarðar. M.ö.o.: her, hjörð, hirða, allt eru þetta náskyld orð. (MK: Það er hægt að kenna þeim allt saman án stafsetningar.) Það verður ekki gert. Það verður ekki gert, vegna þess að kennarinn með sitt mannlega eðli reynir að sleppa sem „billegast“ frá þessu. Og ég nota hér dönskuslettu: „billegast“.

Þetta er nú orðin æðilöng umr. Og ég þykist vita að á næstu dögum muni fram ganga ýmsir þeirra sem eru nógu alvörugefnir til að sjá hvað þetta er mikill hégómi, þeir muni spretta upp í blöðum, „húsmæður í Austurbænum“ eða einhverjir slíkir til að fjargviðrast yfir þessum bölvuðum hégóma. Þess vegna skal ég fara að stytta mál mitt. (Gripið fram í.) Nei, ekki þess vegna reyndar, stytta það samt.

Ég vil aðeins að lokum víkja að atriði sem hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi, en það er flámælið. Hér erum við komin að býsna stóru atriði sem samræmd stafsetning gæti e.t.v. haft einhver áhrif á til hins verra, ég veit það ekki. En það eru blæbrigði tungunnar, blæbrigði hins talaða máls sem útvarpið hefur verið að flæma burt. Ég sakna þess t.d. í ágætri íslensku hv. þm. Sverris Hermannssonar, að hann segir aldrei: langur eða strangur með a-framburði, þaðan af síður: nordan hardan gerdi gard. Mál hans mundi vera enn athyglisverðara ef hann héldi enn þá þessum framburði. Hann nefndi Austfirðinga sem hafa orðið frægastir fyrir flámæli. Tekist hefði að útrýma því. „Að útrýma“ merkir að þarna hafi verið unnið þarft verk. Það er ekki þar með sagt að íslenskunni sé unnið þarft verk, þó að útrýmt sé ýmsum þessum blæbrigðum, jafnvel flámæli. Menn hafa skopast að flámæli. En ég hef átt heima fyrir austan og það verð ég að segja eins og er, að margir þeir, sem þar töluðu fegurst mál, rismesta íslensku og besta, voru flámæltir. Og flámælið var að vissu leyti styrkur í þeirra máli, jók því afl vegna þess blæbrigðísauka sem flámælið var.

Eins og ég sagði er þetta allt að fletjast út, vestfirski framburðurinn t.d, alveg að hverfa, og þeir, sem halda honum við, eru grunaðir um hégóma, þeir tali vestfirsku af hégómaástæðum. Menn mættu gjarnan gera slíkt af hégómaástæðum að mínum dómi.

Sumir stórsnillingar tungunnar hafa ekki verið alveg lausir við flámæli. Okkar ágæti Þórbergur Þórðarson, það örlaði aðeins á flámæli í hans tali. Sama er að segja um bróður hans, Steinþór á Hala. Þar örlar líka á flámæli. En ég vil ekki segja að þetta spilli máli þeirra bræðra, heldur frekar að það auki fegurð þess, megni áhrif þess.

Það fléttaðist svolítil gamansemi inn í þessa umr. Það er rétt, að flámæli getur valdið misskilningi. Það var t.d. sagt um íbúa í einu byggðarlagi fyrir austan, að þeir hefðu kallað spikfeita hrúta spekinga.