16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

94. mál, læknalög

Frsm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Heilbr.-– og trn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar að undanförnu frv. til l. um breyt. á l. nr. 108 frá 1973, sbr. læknalög nr. 80 frá 1969, og hefur n. orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. með smávægilegum breytingum sem getið er í nál. á þskj. 183.

N. sendi frv. þetta til umsagnar til tveggja aðila, annars vegar til læknadeildar Háskóla Íslands og hins vegar til stjórna læknafélaganna tveggja, Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur. Bárust henni umsagnir þessara aðila um frv.

Í umsögn læknadeildar Háskólans segir m.a.með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi deildaráðs læknadeildar í dag var einróma„ samþykkt að fara þess á leit við hv. heilbr.- og trn. Nd. Alþ. að 1. gr. frv. orðist svo:

„Ráðh. getur einnig veitt mönnum takmarkað lækningaleyfi ef þeir hafa til þess næga þekkingu að dómi læknadeildar og læknis, enda mæli þessir aðilar með leyfisveitingunni.“

Bent skal á að í grg. fyrir frv. til l. um lækningaleyfi o.s.frv. frá 23. júní 1932 segir. að upphaflega hafi verið til þess ætlast að læknadeildin yrði einnig umsagnaraðill um takmörkuð lækningaleyfi. Deildarráð læknadeildar lítur svo á, að rík ástæða sé til að hinum upprunalega tilgangi verði framfylgt nú að þessu leyti.“

Út af þessu langar mig til þess að upplýsa það hér og taka sérstaklega fram, að í lögum nr. 47 frá 1932, um lækningaleyfi o.fl., svo og í lögum nr. 80 frá 1969, læknalögum, sem að meginefni til eru byggð á lögum frá 1932 og eru í meginatriðum gildandi enn í dag, var að finna ákvæði um það, að landlæknir og læknadeild Háskóla Íslands þyrftu að mæla með ótakmörkuðu lækningaleyfi, en hins vegar er í lögunum talið nægilegt að meðmæli landlæknis komi til þegar veitt er takmarkað lækningaleyfi. Þetta féll hins vegar niður, að því er virðist fyrir vangá, þegar lögunum frá 1969 var á árinu 1973 breytt, vegna þess að rétt þótti, miðað við þær aðstæður sem þá voru fyrir hendi, að gera það ekki lengur að skilyrði fyrir því að fá ótakmarkað lækningaleyfi, að umsækjandi væri íslenskur ríkisborgari. Þessari meginbreytingu, sem gerð var á árinu 1973, fylgdu nokkrar minni háttar breytingar á læknalögum frá 1969, en einhvern veginn féll það ákvæði, sem nú er ætlunin að taka upp á ný, niður í meðferð, en um það segir í niðarlagi aths. með frv. þessu með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur landlæknir hins vegar bent á að umrætt ákvæði hafi burt fallíð, hann hafi ekki gert ráð fyrir afnámi þess í sínum till. 1973, enda telji hann að ákvæði þetta þurfi að vera áfram í lögum. Hefur hann því lagt til að frv. þetta verði flutt og að aftur verði lögfest orðrétt það ákvæði úr 3. gr, læknalaga, nr. 80/1961), sem burt féll 1973, að því er virðist fyrir vangá.“

Læt ég þetta nægja um álit læknadeildar Háskóla Íslands, en vil víkja örfáum orðum að umsögn stjórna læknafélaganna, en sú umsögn er dags. 8. des. s.l. Í henni segir m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Læknafélag Íslands óskaði á árinu 1973 eftir þeirri breytingu á læknalögum, að fellt yrði niður skilyrði um íslenskt ríkisfang til ótakmarkaðs lækningaleyfis. Samhliða voru gerðar aðrar breytingar á lögunum. M.a. var gerð breyting á 3. gr. sem fól í sér þrengingu ákvæða um veitingu takmarkaðs lækningaleyfis. Stjórnir félaganna telja að þessi breyting hafi einnig tvímælalaust verið til bóta og er ekki kunnugt um, að hún hafi valdið neinum vandkvæðum, og telja varhugavert að rýmka ákvæðið að nýju.

Í aths. við frv. það, sem nú er lagt fram, segir að landlæknir telji að ákvæði þetta þurfi að vera áfram í lögum. Þar sem engin rök eru tilfærð, hafa stjórnirnar óskað bréflega eftir frekari skýringu af haus hálfu. Þá má benda á að ákvæði frv. eru ekki orðrétt úr 3. gr. laga nr, 80/1969, eins og þó segir í aths.

Telji Alþ. ástæðu til að lögfesta umrædd ákvæði þrátt fyrir mótmæli læknafélaganna, telja félögin óhjákvæmilegt að læknadeild Háskóla Íslands verði umsagnaraðili ásamt landlækni eins og um veitingu annarra lækningaleyfa samkv, þessum lögum.“

Um þetta get ég notað eiginlega sömu orð og ég notaði um hina umsögnina og skal ekki lengja fund hv. d. með því að endurtaka það. En um brtt. þær sem n. flytur, þær smávægilegu brtt. í nál. á þskj. 183, vil ég segja þetta:

Fyrri breytingin lýtur að því að aftan við l. gr. bætist: „að höfðu samráði við læknadeild Háskóla Íslands“. Þetta ber að skilja eins og venjulegast er gert og er algengt hér í sambandi við frv, á Alb., að landlækni ber að kynna sér álit læknadeildar áður en hann mælir með eða gegn leyfisveitingu um takmarkað lækningaleyfi við ráðh. Tel ég þetta alveg skýrt og þurfa ekki frekari útlistunar við.

Síðari breytingin er nánast formlegs eðlis, en hefur enga efnisbreytingu í för með sér. Það þótti ljósara að orða fyrirsögn frv. á þann hátt sem gert er í þessari brtt.

Eins og ég gat um stendur heilbr.- og trn. þessarar hv. d. öll að nál. á þskj. 183. Ég tel mig mæla fyrir munn allra nm. er ég segi að menn í n. telji eðlilegt að valdið til þess að veita takmarkað lækningaleyfi sé ótvírætt í höndum heilbrrh. sem er æðsti maður heilbrigðismála í landinu. Ég a.m.k. tel að hinni læknisfræðilegu hlið og öryggissjónarmiðum sé vel borgið með því, að landlæknir þarf að mæla með slíkri takmarkaðri leyfisveitingu, og hann skal áður en hann tekur afstöðu til hennar, hafa kynnt sér skoðanir þær sem læknadeild Háskóla Íslands hefur í þessum efnum, þó að hann sé að sjálfsögðu ekki af þeim bundinn. Á þessum forsendum byggir n. þá niðurstöðu sína að leggja til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem ég var að lýsa.