16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

94. mál, læknalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þar sem einstöku nm. eru farnir að gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls í n. og einnig vegna þess, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., langar mig með aðeins örfáum orðum að segja mitt álit á þessu máli. Ég vil taka strax fram, að á fyrsta fundi heilbr: og trn., sem haldinu var fyrir nokkuð löngu, lýsti ég yfir stuðningi mínum við frv. eins og það var lagt fram, og tjáði mig reiðubúinn til að samþykkja það óbreytt. Síðan leið nokkur tími, að boðað væri til fundar aftur, en á fundinum í gær var þetta mál rætt nokkuð. Í ljós kom að einstöku nm. höfðu á þessu aðra skoðun og töldu þörf á að breyta frv. frá því sem það var.

Ég held að þessi breyting, sem hér er lagt til að gerð verði, skipti engu meginmáli. Ég tel að eftir sem áður sé þetta algjörlega í höndum ráðh. og sé ekki að um neina raunverulega efnislega breytingu sé að ræða. Eigi að síður vildi ég helst að frv. hefði náð fram að ganga óbreytt eins og það var lagt fram, og ég er þar alveg sammála hæstv. ráðh. Ég féllst um síðir á að samþ. þessa brtt. Það var fyrst og fremst til þess að reyna að sætta stjórnarliðana í n., þannig að hægt væri að koma málinu fram, þótt með þessari breytingu væri, sem ég taldi ekki hafa neina raunverulega þýðingu. Hún er meira til þess að draga úr tilfinningahita sumra, hugsa ég en að um efnislega breytingu sé að ræða. (Gripið fram í.) Er ég orðinn sállæknir? Ja, ég hef mínar hugmyndir um það, hversu mikill sem lækningamátturinn er, það er annað mál. Líklega hefði ég, eins og oftast áður, átt að halda mig fyrst og fremst við það sem ég vildi í raun og veru að fram gengi, vegna þess að þetta hefur ekkert sætt stjórnarliðið, það er greinilegt. Ég taldi víst að hv. þm. úr stjórnarliðinu, ekki hvað síst kannske úr Sjálfstfl., hefðu haft samráð við sinn ráðh. varðandi málið og að þetta væri þá með hans vitund, a.m.k., kannske vilja, að þessi hreyting væri lögð til. Ég veit að það hefur ekki verið gert, en ég heyri að hæstv. ráðh., svona með semingi, fellst á þessa breytingu af því að hún hefur enga úrslitaþýðingu fyrir það meginmál sem hann vill hér ná fram.

Ég vildi sem sagt strax við þessa umr., fyrst menn fóru á annað borð að tjá sig, hv. nm. í heilbr.- og trn., aðrir en frsm., greina frá því, að að ég vil styðja fast við bakið á hæstv. ráðh. og láta málið ganga fram, eins og hann lagði til.