16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

126. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er fjallað um frv., sem er liður í tekjuöflunaráætlun ríkisstj. og stendur í sambandi við afgreiðslu fjárl. Heilbr.- og trn. fjallaði um þetta mál á tveimur fundum og fékk til sin á síðari fundinn framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisskattstjóra. Þessir menn veittu n. ágætar upplýsingar og leiðbeiningar.

N. varð ekki á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt, en leggur fram till. um breytingu sem er á þskj. því sem nál. er prentað á, og ég vona að minni hl. n. fallist einnig á þá breytingu. Þessi breyting varðar sérstaka ívilnun fyrir tekjulitla elli- og örorkulífeyrisþega. Ég leyfi mér að lesa þessa till., ég veit ekki, hvort allir hv. þm. eru búnir að kynna sér hana, svo skammt er liðið síðan nál. var útbýtt. Brtt. hljóðar svo:

„Við 2. tölul. 1. gr. bætist nýr stafliður, d- liður, er orðist svo:

d. í viðbót við þær fjárhæðir elli- og örorkulífeyrisbóta, sem frá eru dregnar samkv. a-lið þessa töluliðs, skal draga frá hjá þeim einstaklingum, sem nutu elli- og örorkulífeyris á árinu 1977, 300 000 kr. og hjá hjónum 500 000 kr.“

Undir þetta rita fimm um. í meiri hl. n., þ.e.a.s. allir stjórnarsinnarnir.

Eins og menn þekkja komu fram vissir vankantar á framkvæmd laga um innheimtu sjúkratryggingagjalds þegar það var fyrst lagt á. Þá var það verkefni sveitarstjórna að leggja gjaldið á og innheimta það. Reyndin varð sú, að mörg sveitarfélög lögðu þá gjald þetta á elli- og örorkulífeyrisþega. Það fór alveg eftir því, hvernig heimildin til lækkunar útsvars hjá sveitarfélögum var notuð í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Í þeim sveitarfélögum, þar sem heimildartillaga til niðurfellingar útsvars elli- og örorkulífeyrisþega var ekki notuð, kom sjúkratryggingagjaldið að öllu leyti niður á þeim hópi manna. Næsta ár eftir þessa framkvæmd, þ.e.a.s. í fyrra var ákveðið að sveitarfélögin legðu sjúkratryggingagjaldið á, en skattstjórar innheimtu það. Það verður að segja eins og er, að skattstjórarnir fóru ekki að því leyti til eftir lögum að öllu leyti, að þeir innheimtu ekki þetta gjald af hópi elli- og örorkulífeyrisþega. Það var jafnvel lagt á og átti að innheimta hjá ellilífeyrisþegum sem voru á elliheimilum. Það sér hver maður, að aldrei var ætlunin að þannig færi, en svo varð og um þetta voru sérstök brbl. sett á sínum tíma.

Ég vil taka það fram, að þessi breyting, sem við leggjum til að verði samþykkt á frv., þýðir það að elli- og örorkulífeyrisþegar fara í flestum tilfellum betur út úr þessari álagningu gjalda en eftir lögunum sem áður voru. Ég get sýnt fram á þetta með dæmi. Ef gjaldstofn útsvars er 1400 þús. kr. þá dragast frá honum eftir a-lið frv., sem við höfum í höndum, ellilífeyririnn, sem er hjá einstaklingi 329 100 kr., en hjá hjónum 529 300 kr. Þá verða eftirstöðvarnar hjá einstaklingi 1 070 900 kr., en hjá hjónum 807 700 kr. Þetta þýðir að sjúkratryggingagjaldið yrði hjá einstaklingunum sem eru með þennan gjaldstofn útsvara eða þessar útsvarsskyldu tekjur, 21 400 kr. að óbreyttu frv. og 16 100 kr. hjá hjónum, en eftir breytingu þá sem við leggjum til mundu þessar upphæðir lækka hjá einstaklingum um 6 þús., en hjá hjónum um 10 þús. kr. Hjá stórum hópi veldur þetta því, að sjúkratryggingagjaldið fellur alveg niður.

Ég vil taka það fram, að það, sem við höfum fyrst og fremst í huga með þessari breytingu, er að við viljum ekki láta þetta bitna á ellilífeyrisþegum sem afla sér sjálfir einhverra tekna, sem valda því að þeir hafa ekki fulla tekjutryggingu. Þetta viljum við ekki láta bitna á því aldraða fólki eða örorkulífeyrisþegum sem í hlut eiga, og okkur þykir eðlilegt að sá hópur fari jafnvel út úr þessu, eins og þeir sem fá alla upphæðina beint úr tryggingunum. Þess vegna notum við þessar upphæðir, sem í öllum tilfellum ná yfir mismuninn á grunnupphæð ellilífeyris og tekjutryggingunni. Ef útsvarsskyldar tekjur einstaklings nema 797 866 kr., þá er það sama upphæð og einstaklingur getur haft sem hefur fulla tekjutryggingu og fær tekjur þar fyrir utan sem lög leyfa að hann hafi án þess að tekjutrygging skerðist, sem er 180 þús. kr. hjá einstaklingi. Tilsvarandi upphæð hjá hjónum er samtals 1 332 482 kr., en ellilífeyririnn er 1 080 482. Mismunur þessara tveggja talna eru tekjurnar sem hjón geta haft samkv. tryggingalögum án þess að tekjutrygging þeirra skerðist. Með því að miða með þessum hætti við tekjumark í stað þess að miða almennt við aldursmark eða einvörðungu við tryggingabætur teljum við að lögin nái til þess að undanþiggja þann hóp lífeyrisþega sem frekast þarf á að halda að vera undanþeginn gjöldum. Ef fólk hefur þessar tilteknu tekjur, sem ég gat um þ.e.a.s. 797 806 kr. hjá einstaklingi og 1 332 482 kr, hjá hjónum, þá fellur sjúkratryggingagjaldið niður. Hins vegar væri hugsanlegt að þessir einstaklingar hefðu útsvar. Þessi breyting, sem meiri hl. n. leggur til að gerð verði, þýðir það, að í sumum tilfellum er að því leyti til farið jafnvel betur að ráði sínu við álagningu þessa gjalds heldur en getur verið í sumum tilfellum við útsvarsálagningu, að þeir, sem gætu haft útsvar, sleppa við sjúkratryggingagjald.

Ég hygg að þessar skýringar nægi til þess að menn átti sig átökunum sem liggja til þess að við flytjum þá brtt., sem er á þskj. 200. Við í meiri hl. höfum ekki sérstaklega rætt þessa brtt. Við höfum rætt við hæstv. heilbr: og trmrh. og hæstv. fjmrh., og þeir fallast á þessa brtt.

Ég sé ekki að svo komnu máli frekari ástæðu til að tefja fundinn, herra forseti, og vonast til að hv. þdm. fallist á till. okkar.