26.11.1970
Efri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í tilefni af ræðu hv. 11. þm. Reykv. Nú er það að vísu ekki svo, að það sé ekki margt í hans ræðu, sem ég get fyllilega tekið undir.

Í fyrsta lagi er ég því alveg sammála, sem hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að hér er um mjög vandasamt mál að ræða og því miður eru vissir þættir sögunnar sorglegur sannleikur, vil ég segja, þó að sú aðstoð, sem veitt hefur verið þróunarlöndunum, hafi að mínu áliti gert mjög verulegt gagn. Sem dæmi um það má nefna að hagvöxtur í mörgum þessara þróunarlanda er nú meiri en í háþróuðu Íöndunum, og má telja mjög vafasamt, að þeim árangrí hefði verið náð, ef þessi aðstoð hefði ekki komið til. En hins vegar er það því miður svo, að margvísleg mistök hafa átt sér stað, hvað þessa aðstoð snertir. Hún hefur ekki verið undirbúin af nægilegri þekkingu á högum og þjóðfélagsskipan þeirra þjóða, sem hér eiga hlut að máli, og árangurinn því ekki alltaf sá, sem til hafði verið ætlazt. Þetta ber að gera sér ljóst, og það get ég fyllilega tekið undir.

Í öðru lagi vil ég gjarnan taka það fram, að skilningur hv. þm. á þeim eðlismun, sem er á þessu frv. og fyrri till., sem bornar hafa verið fram um þetta mál og raunar legið fyrir tveimur undanförnum þingum, er alveg réttur. Frv., sem lagt var fram á þinginu 1968–1969 og aftur á s.l. þingi, byggðist á bráðabirgðaáliti, sem sú nefnd sem skipuð var af utanrrn. í málið og áður hefur verið getið um, skilaði fyrir einum fjórum árum. En í því frv. var engin afstaða til þess tekin, hvort sú aðstoð, sem veitt yrði, yrði aðeins framlög til alþjóðlegra stofnana eða þá í mynd hinnar svokölluðu tvíhliða hjálpar, sem mundi þýða það, að við Íslendingar stæðum þá sjálfir eftir atvikum í samvinnu við einhverja aðra að framkvæmd aðstoðarinnar. En til þess að um þetta verði samin löggjöf, verður að taka afstöðu til þessa máls, því að ef við værum þeirrar skoðunar, að hjálpina beri einvörðungu að leggja fram sem framlög til alþjóðlegra stofnana, þá mundi ég telja og get út af fyrir sig tekið undir það með hv. 11. þm. Reykv., að þá væri í sjálfu sér engrar sérstakrar löggjafar þörf. Starfsmenn utanrrn. gætu þá eftir atvikum í samráði við fulltrúa Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna gert till. í því efni til fjvn. Að koma á fót sérstakri stofnun væri þá í sjálfu sér óþarft.

En þó að ég viki nú að þessu í framsöguræðu minni við 1. umr. málsins, skal ég í sem allra stytztu máli þó benda á þau rök, sem ég tel hníga að því, að við eigum að stefna að því, svo sem er tilgangur þessa frv., að veita tvíhliða aðstoð, sem við tökum virkan þátt í að framkvæma. Og það, sem ég vil benda á í því efni, er í fyrsta lagi þetta, að að talsverðu leyti er það nú á misskilningi byggt, að við spörum allan stjórnunar- og framkvæmdakostnað með því að leggja aðstoðina fram sem framlög til stofnlána á vegum Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað verður eftir sem áður um stjórnunar- og framkvæmdakostnað að ræða aðeins með þeim mun, að þá mundi hann vera greiddur til erlendra aðila, en ekki innlendra. Á ráðstefnunni, sem ég minntist áðan á um þessi mál, var það upplýst, að þegar Herferð gegn hungri safnaði á sínum tíma um 10 millj. kr. á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna til ákveðinna framkvæmda í nokkrum Afríkulöndum, voru 5% af þeirri fjárhæð eða um 1/2 millj. kr. greidd til Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem stjórnunar- og framkvæmdakostnaður. Þetta tel ég þó út af fyrir sig meiri aukaatriði, en aðalatriðið er hitt, að förum við einvörðungu þá leið að leggja þetta fram til stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna, mundum við missa af því, sem ég tel mikils virði að kynna okkur þessi mál sjálfir og eignast menn, sem hafa kynnt sér vandamál þróunarlandanna. En slíkt mundi ég telja mjög mikils virði ekki einvörðungu og e.t.v. ekki fyrst og fremst, hvað snertir aðstoðina sjálfa, heldur öllu fremur hvað snertir samvinnu okkar við þessar þjóðir á alþjóðlegum vettvangi og ekki sízt á sviði viðskiptamála. Auðvitað má ekki ganga of langt í því að blanda saman öflun viðskiptatengsla við þessar þjóðir og aðstoðinni við þróunarlöndin. Þó tel ég, að það hafi verið rétt af okkur flm. frv. að taka upp það nýmæli, að slík stofnun gæti einnig sinnt viðskiptamálunum, vegna þess að slík viðskipti geta verið báðum aðilum í hag, og yfirleitt er það þannig með öll frjáls viðskipti þjóða í milli a.m.k., að af þeim verður ekki, nema báðir aðilar telji sér hag í þeim. Slíku má engan veginn blanda saman við hina gömlu nýlendukúgun, sem vissulega á sér ljóta sögu, sem ég tel nú ekki ástæðu til að fara út í í þessu sambandi.

Enn fremur má geta þess, að það er innan við 10% af þeirri heildaraðstoð, sem veitt er þróunarlöndunum, sem gengur í gegnum alþjóðlegar stofnanir, og yfirgnæfandi meiri hluti þessarar aðstoðar er veittur á tvíhliða grundvelli. Þetta þarf ekki að þýða það, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, að slík aðstoð, sem við sjálfir tökum þátt í að framkvæma, sé veitt án samráðs við alþjóðlegar stofnanir. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að við þær sé haft samráð í þessu efni, t.d. um val verkefna eftir atvikum, sérfræðilega aðstoð o.s.frv. Mér hefði þótt eðlilegast, ef og þegar slík aðstoð kemur til framkvæmda, því að ég gert mér Íjósa þá erfiðleika, sem á því eru, að við skipuleggjum slíkt algerlega frá grunni, að leitað væri samstarfs við aðrar norrænar þjóðir, sem hafa náið samstarf sín á milli um þá aðstoð, sem þær veita að vísu á tvíhliða grundvelli, og þær hafa náið samráð sín á milli um val verkefna og ýmislegt fleira. Mér fyndist það liggja beint við, ef út á þessa braut væri farið, sem ég tel rétt, að við æsktum þess að gerast aðilar að slíku samstarfi, og fyrir fram tel ég ekki ástæðu til að ætla annað en slíkri málaleitan af okkar hálfu yrði vel tekið, þó að um það sé auðvitað ekki hægt að fullyrða, fyrr en til slíks kemur.

Að lokum í sambandi við ræðu hv. 11. þm. Reykv. vildi ég aðeins benda á það, að það má ekki blanda saman alþjóðlegri líknarstarfsemi og aðstoð við þróunarlöndin, og kannske er sérstök ástæða til þess að undirstrika það vegna þess, að af skiljanlegum ástæðum er þessu mjög blandað saman í almennum umræðum um þessi mál. En alþjóðleg líknarstarfsemi hefur auðvitað því hlutverki að gegna að koma til hjálpar, þar sem neyðarástand skapast, senda matvæli, fatnað og annað til nauðstaddra, og slíkt ástand getur auðvitað skapazt í þróunarlöndum og í öðrum löndum. Hin eiginlega aðstoð við þróunarlöndin gegnir hins vegar fyrst og fremst því hlutverki að hjálpa þessum þjóðum til þess að nýta náttúruauðlindir sínar og aðra framleiðslumöguleika. Þess vegna get ég ekki á þetta fallizt, þó að starfsemi þeirra aðila hér á landi, sem taka þátt í alþjóðlegri líknarstarfsemi, sé alls góðs makleg. Þar má nefna Rauða krossinn, sem hv. 11. þm. Reykv. nefndi, kirkjuna og Herferð gegn hungri og fleiri slíka aðila. Starfsemi þeirra getur ekki komið í stað þess, sem hér er um að ræða, þannig að það er ekki hægt að fela þeim þetta verkefni. En að öðru leyti er það síður en svo tilgangur okkar og annarra, sem hafa stutt þetta mál, að dregið verði úr opinberri og annarri aðstoð þessara aðila, þó að ákvæði þessa frv. kæmu til framkvæmda, og sjálfsagt er að hafa samráð við þessa aðila um einstök málefni eftir því, sem ástæður kunna að gera eðlilegt. En á hinu má ekki missa sjónar, að það er í rauninni annað verkefni, sem þessir aðilar vinna að.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Það er þó aðeins varðandi það sjónarmið, að þetta frv. hefði átt að senda til umsagnar einhverjum aðilum, sem um þessi mál fjalla. Á nefndarfundi um málið setti ég fram þá skoðun, sem á var fallizt, að til þess væri ekki ástæða, því að eftir því, sem mér er bezt kunnugt, hala allir þeir aðilar, bæði einkaaðilar og opinberir aðilar, sem beint og óbeint fjalla um þessi mál, haft þetta mál til meðferðar og haft aðstöðu til þess að hafa áhrif á ákvarðanir, sem um það eru teknar, áður en þetta frv. hefur verið lagt fram, því að málið er engan veginn nýtt. Annað frv., sem að vísu var byggt á öðrum grundvelli, hefur, eins og kunnugt er, legið fyrir tveimur síðustu þingum, og þær stofnanir, sem sérstaklega hafa haft þessi mál til meðferðar á alþjóðlegum vettvangi eða fjallað um þá aðstoð, sem við höfum veitt, svo sem Herferð gegn hungri og Rauði krossinn, báðir þessir aðilar, áttu fulltrúa í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv. Málið hefur einnig verið til meðferðar í utanrrn. s.l. 4–5 ár, eins og ég áður hef upplýst, svo að ég fæ ekki komið suga á sérstaka ástæðu til þess að senda málið frekar til umsagnar.

En að síðustu vildi ég aðeins benda á það, að rétt hefði e.t.v. verið með tilliti til þess, að ekki eru líkur á því, að slíkri stofnun yrði komið á fót fyrir næstu áramót, jafnvel þó að það yrði afgreitt hér á þingi fyrir áramót, sem ég mundi telja æskilegt, að breyta tímanum í gildistöku frv., þ.e. að fresta honum t.d. til 1. apríl til að fyrirbyggja það, að málið þyrfti að fara á milli deilda vegna slíks á sínum tíma. En um það mun ég hafa samráð við meðflm. mína, hvort flutt yrði brtt. um það efnisatriði fyrir 3. umr. málsins.