10.10.1973
Sameinað þing: 1. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (Hannibal Valdimarsson) :

Ég vil leyfa mér að bjóða þingheim allan velkominn til starfa og starfslið þingsins allt.

Áður en þingstörf hefjast, vil ég minnast þriggja fyrrv. alþm., sem látist hafa frá lokum síðasta þings. Þeir eru Jónas Guðmundsson fyrrv. skrifstofustjóri, sem andaðist 4. júlí, 75 ára að aldri, Björn Kristjánsson fyrrv. kaupfélagsstjóri, sem andaðist 10. júlí, 93 ára að aldri, og Kristinn E. Andrésson rithöfundur, sem andaðist 20. ágúst, 72 ára að aldri.

Jónas Guðmundsson var fæddur 11. júní 1898 á Skálanesgrund í Seyðisfjarðarhreppi. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi og útgerðarmaður í Brimneshjáleigu við Seyðisfjörð Jónasson bónda í Selási í Víðidal í Húnavatnssýslu Guðmundssonar og kona hans, Valgerður Hannesdóttir sjómanns á Hofsósi Gottskálkssonar. Hann stundaði nám í unglingaskóla á Seyðisfirði veturinn 1915–1916 og í Kennaraskólanum 1918–1920, lauk kennaraprófi vorið 1920. Næsta vetur stundaði hann nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn fram að áramótum, en var kennari í forföllum við bændaskólann á Hvanneyri það sem eftir var vetrar. Haustið 1921 varð hann kennari við barnaskólann á Norðfirði og gegndi því starfi fram á árið 1933. Jafnframt var hann kennari við unglingaskólann á Norðfirði 1923–1933. Hann var síðan framkvæmdastjóri Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar 1932–1937 og Togarafélags Neskaupstaðar 1935–1938. Á árinu 1937 fluttist hann til Reykjavíkur og var framkvæmdastjóri Alþfl. 1938–1939. Eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna var hann 1939–1953 og skrifstofustjóri í félmrn. 1946–1953. Hann var framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga 1945–1967 og forstjóri Bjargráðasjóðs Íslands 1952–1967.

Auk aðalstarfa þeirra, sem hér hafa verið rakin, voru Jónasi Guðmundssyni falin fjöldamörg trúnaðarstörf á ýmsum sviðum, og verður nokkurra þeirra getið hér. Hann var oddviti hreppsnefndar Neshrepps í Norðfirði 1925–1928 og sat í bæjarstjórn Neskaupstaðar 1929–1937. Landsk. alþm. var hann á árunum 1934–1937, sat á 4 þingum alls. Hann átti sæti í Landsbankanefnd frá 1934–1938 og í bankaráði Landsbankans 1938–1946. Á árunum 1934–1935 átti hann sæti í mþn. um alþýðutryggingar og framfærslumál, og síðan var hann í mörgum stjórnskipuðum nefndum til að rannsaka og undirbúa löggjöf um margvísleg efni á sviði félagsmála. Hann var í stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda 1939–1943. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga var hann 1945–1967, í stjórn Bjargráðasj. Íslands 1946–1967 og í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 1966-1970. Fulltrúi ríkisstj. Íslands á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var hann 1947–1952. Hann var stofnandi áfengisvarnarfélagsins Bláa bandsins 1955 og formaður þess fram á árið 1973. Jafnframt var hann formaður stjórnar Vistheimilisins í Víðinesi 1963–1973.

Jónas Guðmundsson lét jafnan mikið að sér kveða á vettvangi starfa sinna og áhugamála. Störf að sveitarstjórnarmálum hóf hann á Norðfirði og var þá m. a. einn frumkvöðlanna í baráttu fyrir kaupstaðaréttindum til handa sveitarfélagi sínu. Síðar kom það í hans hlut að vinna áratugum saman mikið og árangursríkt starf í þágu sveitarfélaga landsins alls, bæði sem starfsmaður ríkisins og forustumaður í samtökum þeirra sjálfra. Hálfsextugur að aldri lét hann af starfi skrifstofustjóra í félmrn. að eigin ósk til að geta sinnt ýmsum öðrum hugðarmálum sínum jafnframt þátttöku og forustu í samtökum sveitarfélaga. Hann átti giftudrjúgan þátt í baráttu gegn áfengisbölinu með forgöngu sinni um stofnun AA-samtakanna og Bláa bandsins og rekstur dvalarheimila fyrir drykkjusjúklinga. Hann var afkastamaður við ritstörf, var ritstjóri nokkurra blaða og tímarita og samdi bækur, tímarits- og blaðagreinar um stjórnmál, dulspeki, áfengismál og málefni sveitarfélaga. Hann var harðskeyttur baráttumaður fyrir hugðarmálum sínum, hugsjóna- og framkvæmdamaður í senn.

Björn Kristjánsson var fæddur 22. febr. 1880 á Víkingavatni í Kelduhverfi. Foreldrar hans voru Kristján bóndi þar Kristjánsson bónda í Ærlækjarseli í Öxarfirði og síðar á Víkingavatni Árnasonar og kona hans, Jónína Þórarinsdóttir bónda á Víkingavatni Björnssonar. Hann naut tilsagnar hjá alþýðufræðaranum Guðmundi Hjaltasyni nokkrar vikur í senn veturna 1890–1894, fékk tilsögn í ensku hjá Benedikt Kristjánssyni prófasti í Múla um nokkurra vikna skeið veturinn 1898–1899 og sótti eins mánaðar samvinnunámskeið á Akureyri 1916. Að þessu frátöldu var skólaganga hans engin. Hann var bóndi á Víkingavatni 1908–1916 og kaupfélagsstjóri á Kópaskeri 1916–1946. Veturna 1904–1905 og 1905–1906 ferðaðist hann tvívegis um mestallt landið sem aðstoðar- og eftirlitsmaður með útrýmingu fjárkláða. Hann var símastjóri og jafnframt bréfhirðingamaður og síðar póstafgreiðslumaður á Kópaskeri á árunum 1922–1957. Alþm. Norður-Þingeyinga var hann 1931–1934 og 1945–1949, sat á 9 þingum alls. Hann átti sæti í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga 1937–1959 og í síldarútvegsnefnd 1941–1961.

Björn Kristjánsson ólst upp á fjölmennu sveitaheimili við menningarbrag og mikil umsvif og aflaði sér staðgóðrar menntunar af sjálfsdáðun auk þess stopula náms, sem áður er getið. Ferðir hans hálfþrítugs um nær allt land urðu honum drjúgar til fróðleiks um land og lýð. Hann var einn af stofnendum og stjórnendum ungmennafélags í sinni sveit. Um skeið var hann bóndi og undi því starfi vel. En hann var jafnframt áhugasamur stuðningsmaður samvinnuhreyfingarinnar og deildarstjóri í Keldunesdeild kaupfélagsins. Hálffertugur var honum falin forstaða Kaupfélags Norður-Þingeyinga, og naut það farsællar stjórnar hans um þriggja áratuga skeið. Hann sóttist ekki eftir vegtyllum, en aflaði sér með störfum sínum og framkomu trausts og vinsælda þeirra, sem við hann áttu skipti. Störf sín á Alþ. sem annars staðar vann hann með hógværð og festu. Eftir farsælan starfsdag átti hann langt og friðsælt ævikvöld.

Kristinn E. Andrésson var fæddur 12. júní 1901 á Helgustöðum við Reyðarfjörð. Foreldrar hans voru Andrés bóndi þar Runólfsson skálda Runólfssonar og fyrri kona hans, María Níelsdóttir Becks bónda á Innstekk Kristjánssonar. Hann stundaði nám í Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1918–1920 og lauk stúdentsprófi utanskóla frá menntaskólanum í Reykjavík 1922. Meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands lauk hann 1928. Á árunum 1929–1931 var hann við framhaldsnám í þýskum bókmenntum í Kiel, Berlín og Leipzig. Hann var kennari við alþýðuskólann á Hvítárbakka 1927–1929 og kenndi einnig um skeið við kvennaskólann og iðnskólann í Reykjavík. Bókavörður í Landsbókasafni var hann 1931–1932. Árið 1934 gerðist hann frumkvöðull og forstöðumaður bókaútgáfunnar Heimskringlu, og 1937 var hann forgöngumaður um stofnun bókmenntafélagsins Máls og menningar. Hann var stjórnarformaður og lengst af framkvæmdastjóri þessara tveggja útgáfufélaga fram á árið 1971. Hann var ritstjóri Rauðra penna 1935–1939. Tímarits Máls og menningar 1940–1970 og Þjóðviljans 1946–1947. Landskjörinn alþm. var hann á árunum 1942–1946 og sat auk þess á Alþ. sem varamaður síðla árs 1950, átti sæti á 5 þingum alls. Í menntamálaráði var hann 1942–1946, í Alþingissögunefnd 1943–1956, í bankaráði Búnaðarbankans 1945–1949 og í íslenzk-dönsku samninganefndinni 1945–1946.

Kristinn E. Andrésson lagði stund á bókmenntir í háskólanámi sínu heima og erlendis, og að námi loknu hóf hann afskipti af þjóðmálum sem byltingarsinnaður sósíalisti. Hann var hvatningar- og stuðningsmaður róttækra rithöfunda, vann að stofnun félags þeirra og kom verkum þeirra á framfæri með frumkvæði sínu um útgáfustarfsemi. Hann var bjartsýnn og stórhuga á því sviði og stýrði um langt skeið umfangsmikilli bókaútgáfu. Hæglátur var hann í dagfari, en laginn málafylgjumaður og þrautseigur baráttumaður. Hann var afkastamikill rithöfundur um stjórnmál, bókmenntir og önnur menningarmál. Löngum stóð styrr um ýmis störf hans á sviði þjóðmála og bókmennta, en hann var hugsjónum sínum trúr, stefnufastur eljumaður til æviloka.

Ég vil biðja þingheim að minnast hinna látnu fyrrv. alþm., Jónasar Guðmundssonar, Björns Kristjánssonar og Kristins E. Andréssonar, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]