13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í D-deild Alþingistíðinda. (3628)

262. mál, aðstoð við fátækar þjóðir

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við það að bæta, sem hæstv. forsrh. sagði um störf n. þeirrar, sem skipuð var samkvæmt þáltill. í lok marz 1965. N. var skipuð sama haust og skilaði bráðabirgðaáliti, eins og hæstv. forsrh. gat um, haustið 1966. En ég vildi aðeins leyfa mér að fara örfáum orðum um ástæðuna til þess dráttar, sem orðið hefur á því, að n. skilaði endanlegu áliti og vil ég engan veginn sem formaður n. skorast undan því að bera höfuðábyrgð á þeim drætti, enda var mér fyrst og fremst falið að vinna að nál.

Það er tvennt, sem þar kemur til. Í fyrsta lagi mjög breytt viðhorf í efnahagsmálum frá því að þessi nál voru til athugunar hjá hv. ríkisstj. veturinn 1966–67 og hjá því verður ekki komizt að taka tillit til þeirra og miða endanlegar till. við það. Í öðru lagi átti ég kost á því í árslok s.l. árs að sitja sem einn af fulltrúum Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna og þá um leið að kynna mér meðferð þessara mála miklu ýtarlegar, en ég hafði átt kost á áður hjá Sameinuðu þjóðunum og viða að mér allmiklu efni um þau atriði, sem mér því miður hefur ekki enn gefizt tími til að ganga alveg frá. En ég vænti þess, að á því þurfi ekki að verða löng bið, að þetta nál. liggi fyrir, og það er áreiðanlega vilji okkar allra þriggja, sem í n. eigum sæti, að ekki standi á því.

Ég vil taka það fram, að þó að þeir erfiðleikar í efnahagsmálum okkar, sem öllum eru kunnugir, hljóti að hafa sín áhrif á framvindu þessara mála, er skoðun mín óbreytt á því, frá því að ég flutti þessa þáltill., að Íslendingar eigi að láta málin miklu meira til sín taka, heldur en þeir hingað til hafa gert. Það munu vera um 3/4 hlutar mannkynsins, sem byggja hin vanþróuðu lönd og við tökum það mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi, að við getum ekki látið okkur óviðkomandi málefni þessara landa. Þó að ég hafi að vísu á sínum tíma varað við því að blanda allt of mikið saman markaðsmálum og aðstoð við þróunarlöndin og sú skoðun mín sé í rauninni óbreytt enn, þá má þó hafa hliðsjón af því, að í framtíðinni hljóta að opnast verulegir markaðir í þessum löndum. Og ég hygg, að það mundi greiða mjög fyrir aðgöngu okkar að þeim mörkuðum, að þessar þjóðir hefðu ekki eingöngu kynnzt okkur sem kaupsýslumönnum heldur líka, að við hefðum, eftir því sem efni og geta okkar standa til, tekið þátt í aðstoðinni við þróunarlöndin.

En ég vil að lokum aðeins benda á það, að okkur nm., — ég fullyrði, að ég megi þar tala fyrir munn okkar allra, — er ljóst, að mikið átak þarf til þess að upplýsa þjóðina um þessi mál. Þess er að vænta, að aðgerðir í þessu efni njóti almennari stuðnings, en nú er. Og eitt af því, sem ég tel nauðsynlegt, að menn geri sér ljósara en nú er, að ekki má blanda saman alþjóðlegri líknarstarfsemi og aðstoð við þróunarlöndin, sem mér finnst, að mjög sé nú gert. Starfsemi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem hér er þekktust gegnum Herferð gegn hungri, starfsemi Rauða krossins og starfsemi Alþjóðlegu flóttamannastofnunarinnar má nefna sem dæmi um alþjóðlega líknarstarfsemi og vissulega er hún góðra gjalda verð og ég er þess hvetjandi, að hún sé studd eftir föngum, en það er annað, en aðstoð við þróunarlöndin. Aðstoð við þróunarlöndin má að mínu áliti í meginatriðum fyrst og fremst líkja við byggða jafnvægisstefnu á alheimsmælikvarða. Hún er ekki hugsuð eingöngu sem hjálparstarfsemi og sama hugsa ég að gildi raunar um byggða jafnvægisstefnuna hér, að á þá, sem góðs af henni njóta, er ekki litið sem gustukamenn, heldur að það sé í þágu allra, bæði íbúanna í þeim byggðarlögum, þar sem skynsamlegt er að veita slíka aðstoð, og allra annarra landsmanna, að hún sé veitt. Sömu augum finnst mér eðlilegt að líta á aðstoðina við þróunarlöndin. Þótt margt fleira mætti segja um þetta mál, þá er ég, þegar ég á sæti í forsetastól, mjög strangur um það, að ekki sé farið fram úr 5 mínútna ræðutímanum og verð því að láta máli mínu lokið.