11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3678)

139. mál, fátækralög

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Till. sú, sem jeg hefi flutt hjer á þskj. 533, þarfnast ekki mikilla skýringa fram yfir grg. þá, sem henni fylgir á sama þskj. Af henni sjest, að hún er flutt samkv. fundarsamþykt fjölmenns kvennafundar hjer í bænum 21. apríl síðastliðinn. Till. hljóðar svo:

„Efri deild Alþingis ályktar að skora á atvinnumálaráðherra að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um svofelda breytingu á fátækralöggjöfinni, að útilokað sje, að mæður verði að láta börn sín frá sjer fara vegna fátækraflutnings, ef þær annars eru hæfar til að ala upp börn sín“.

Í sambandi við þessa till. vil jeg benda á ákvæði í 36. gr. fátækralaganna frá 1927. Þar segir svo:

„Nú geta foreldrar ekki staðið straum af börnum sínum yngri en 16 ára, og má þá fátækrastjórnin taka þau frá foreldrum þeirra og koma fyrir á góðum heimilum hjá siðsömum og ráðdeildarsömum húsbændum.

Þó þarf fátækrastjórn leyfi foreldra til þess að taka börnin frá þeim, nema heimilislíf foreldranna megi teljast siðspillandi fyrir börnin eða þar fari illa um þau — —.

Og í 7. gr. sömu laga segir svo:

„— — Móðir óskilgetins barns hefir jafnan rjett og foreldri skilgetins barns til að hafa barn sitt hjá sjer eða ráða verustað þess“.

Þrátt fyrir þessi ákvæði áðurnefndra gr. fátækralaganna eru þess dæmi, að börn eru, að afstöðnum fátækraflutningi, tekin frá foreldrum eða mæðrum þeirra og tvístrað án vilja eða samþykkis foreldra, þvert ofan í skýr lagaákvæði um þetta. Það, sem vakti fyrir þessum kvennafundi, var að fá leiðrjett það ósamræmi, sem virðist vera á milli einstakra gr. gildandi fátækralaga og framkvæmdar þeirra.

Till sú, sem jeg flyt, fer fram á, að stj. láti endurskoða fátækralögin, þannig að þetta geti ekki átt sjer stað. Að það geti ekki komið til mála, að heimilum sje sundrað og börnin tekin frá foreldrum eða mæðrum án samþykkis þeirra, „nema heimilislíf foreldranna megi teljast siðspillandi fyrir börnin“. Þannig hefir mjer dottið í hug, að breyta mætti 36. gr. fátækralaganna, að því viðbættu, að þótt efnaskortur valdi því, að foreldrar geti ekki sjeð börnum sínum farborða, þá sje það ekki talin gild ástæða til að tvístra heimilunum, ef foreldrarnir eru að öðru leyti færir um að veita börnum sínum gott uppeldi. Við konur leggjum mikla áherslu á þetta. Við teljum það frá mannúðarsjónarmiði ósæmilegt að svifta mæður börnum sínum sje annars enginn sá ljóður á ráði þeirra, sem geri þær óhæfar til að ala þau upp. Börnin eiga fylsta rjett á því að fá að vera hjá foreldrum sínum, hvort sem bæði eru á lífi eða aðeins annað. Þó að skiftingin kynni að verða ódýrari fyrir framfærslusveitina, þá má ekki líta á það, þegar hinsvegar er um að ræða verknað, sem ósæmilegur verður að teljast frá mannúðarsjónarmiði og ósamrýmanlegur þeim tíðaranda, sem nú er að ryðja sjer til rúms á ýmsum sviðum. Það er auðvitað oftast af sparnaðarástæðum, að framfærslusveit heimtar flutning á þurfamönnum og sundrar heimilum eins og oft á sjer stað við þann flutning, þannig að yfirráðum mæðra yfir börnum sínum er þá lokið. Þetta getur að vísu talist eðlilegt að nokkru leyti, ef um er að ræða móður, sem hefir 2–3 börn í eftirdragi. Þá er eðlilega erfitt að finna heimili, þar sem hægt er að koma svo mörgum fyrir saman. Og jeg veit, að í mörgum tilfellum geta börn orðið nýtir menn, þótt þau alist upp hjá óviðkomandi fólki. En það afsannar alls ekki þá kröfu, sem hjer er fram borin, og jeg vona, að hæstv. stj. og hv. Alþingi taki til greina, að börnin sjeu ekki svift rjetti sínum til að vera hjá foreldrum og njóta umönnunar þeirra.

Fátækraflutningur er nú, sem betur fer, ekki eins tíður og áður var, enda í ósamræmi við anda og hugsun okkar 20.-aldarmanna, einkum þegar hann hefir í för með sjer aðskilnað móður og barna. Fundarsamþyktin frá 21. apríl er gerð til að mótmæla, að slíkt geti átt sjer stað, og till. sú til þál., sem hjer liggur fyrir, er fram komin til þess að þetta verði fyrirbygt. Jeg vona, að till. verði samþ. og hæstv. stj. sjái sjer fært að taka hana til greina. Enda er nú greinilegt ósamræmi í gildandi fátækralögum. Það, sem ein greinin bannar, það leyfir hin.

Jeg skal svo ekki lengja mál mitt meira, en vona, að hv. þdm. í nafni mannúðar samþ. þessa till. og vinni þar með að því, að úr þessu ósamræmi verði bætt.