07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

34. mál, framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu, á þskj. 37.

Lögin um heilbrigðisþjónustu, nr. 56 1973, sem tóku gildi 1. jan. 1974, mörkuðu áreiðanlega djúp og heillarík spor til framfara á þessu sviði. Megintilgangur laganna kemur fram í 1. gr. þeirra: Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. — Einn mikilvægasti þáttur laganna, ekki síst fyrir landsbyggðina, er III. kaflinn, um heilsugæslu, en heilsugæsla merkir í lögunum heilsuverndarstarf og allt lækningastarf sem unnið er vegna heilbrigðra og sjúkra sem ekki dveljast á sjúkrahúsum. Í samræmi við lögin frá 1973 var hafist handa um byggingu heilsugæslustöðva víðs vegar um land og læknisbústaðir teknir undir lögin þar sem það var framkvæmanlegt.

Eftir gildistöku eldri laganna frá 1. jan. 1974 var fastlega gert ráð fyrir að settar yrðu reglugerðir um framkvæmd laganna, um ýmsa mikilvæga rekstrarþætti, t.d. um 19.–22. gr., og var mjög eftir því leitað. Þetta var hins vegar ekki gert, hverju sem um er að kenna. Urðu fljótlega árekstrar um það milli sveitarfélaga annars vegar og sjúkrasamlaga og heilbrrn. hins vegar, hvernig túlka bæri kostnaðarhluta í rekstri heilsugæslustöðvanna. Kom strax í ljós að útgjöld sveitarfélaga við rekstur heilsugæslustöðva, sem eru án tengsla við sjúkrahús, yrðu nær óviðráðanleg, þar sem engir tekjustofnar voru til að mæta þessum auknu útgjöldum. Þar við bættist að sum sjúkrasamlögin töldu sig ekki eiga að greiða til heilsugæslustöðvanna neinn hluta rekstrar. Heilbrrn. neitaði greiðslum til þátttöku í rekstri fyrir árið 1976. Sem sýnishorn af þessari afstöðu rn. vil ég lesa hér bréf sem ein heilsugæslustöðin fékk 19. des. 1977 vegna rekstrar þessarar stöðvar árið 1976, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð einsýnt er nú að fjárlög verða afgreidd án þess að fjárveiting fáist til að taka þátt í kostnaði heilsugæslustöðva við viðhald og áhöld og tækjakaup í daglegum rekstri, endursendast hér með þeir reikningar sem þessu rn. voru sendir með bréfi 24. mars s.l. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hvarflar ekki frá þeim skilningi sínum, að ríkissjóður eigi engan þátt að taka í greiðslu þessa kostnaðar.“

Hv. Alþ. tók lögin til endursköpunar á síðasta þingi og afgreiddi þau sem lög 5. maí 1978. Breytingar urðu ekki til bóta fyrir sveitarfélögin. Var ekki tekið tillit til ákveðinna óska og tillagna stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um ýmis mikilvæg atriði. Sú breyting var þó gerð, að ríkið greiddi 50% af viðhaldskostnaði og endurnýjunarkostnaði fasteigna og tækja heilsugæslustöðvanna, þrátt fyrir að eignarhluti ríkisins sé 85%.

Eins og ég hef áður sagt er aðstöðumunur þeirra sveitarfélaga, er eiga að reka heilsugæslustöðvar, en eru ekki í beinum tengslum við sjúkrahús, mjög alvarlegur. Þessi rekstrarkostnaður verður á þessu ári á bilinu 15–20 þús. á hvern íbúa, auk þess hluti sveitarfélaganna í rekstri sjúkrasamlaga. Ég get nefnt sem dæmi Höfn í Hornafirði, Borgarnes, Ólafsvík og fleiri staði. Þessi greiðslubyrði er óveruleg hjá þeim sveitar- og bæjarfélögum þar sem heilsugæslustöðvar eru við sjúkrahúsin. Þar greiðir ríkið nær allt. Á þessu þarf að ráða bót. Þess vegna hef ég — herra forseti — lagt fram eftirfarandi fsp.:

„1) Hvenær má vænta þess, að gefnar verði út reglugerðir samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu, sbr. nú 2. mgr. 19. gr. laga nr. 57/1978?

2) Hvernig er háttað greiðslum sjúkrasamlaga til heilsugæslustöðva og lækna heilsugæslustöðva?

3) Hefur verið sett gjaldskrá um greiðslu sjúkrasamlaga til heilsugæslustöðva samkv. 20. gr. laga nr. 57/1978, sbr. áður lög nr. 56/1973, um heilbrigðisþjónustu?

4) Hvað líður gerð áætlunar um byggingu heilbrigðisstofnana, samkv. 33. gr. laga um heilbrigðisþjónustu og hver eða hverjir taka ákvarðanir um stærð og gerð slíkra stofnana, þ. á m. bústaða fyrir lækna og hjúkrunarfólk?

5) Eru væntanlegar ráðstafanir af hálfu heilbrrn. til að jafna þann mikla aðstöðumun sveitarfélaga, sem er varðandi greiðslu kostnaðar við rekstur þeirra heilsugæslustöðva, sem ekki eru reknar í beinum tengslum við sjúkrahús?“

Ég vona, að svar hæstv. ráðh. upplýsi málið.