Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 699, 111. löggjafarþing 241. mál: Seðlabanki Íslands (vaxtaákvarðanir o.fl.).
Lög nr. 11 30. mars 1989.

Lög um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.


1. gr.

     8. gr. laganna breytist svo:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Á sama hátt skal Seðlabanki Íslands láta sömu reglur, eða jafngildar, gilda um verðbréfasjóði með kaupskyldu á öruggum verðbréfum, einkum ríkisskuldabréfum, eftir því sem við getur átt.
  2. 4. mgr. orðist svo:
  3.      Seðlabankanum er enn fremur heimilt að setja innlánsstofnunum reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár sem þeim ber ætíð að hafa yfir að ráða. Með lausu fé er átt við íslenskan gjaldmiðil í sjóði, óbundin nettóinnlán í íslenskum gjaldmiðli í bönkum, heildareignir að frádregnum heildarskuldum, sem bundnar eru gengi erlendra gjaldmiðla, ríkisvíxla eða aðrar sambærilegar eignir.
  4. Við bætist ný málsgrein er verði 5. mgr. og orðist svo:
  5.      Seðlabankanum er heimilt að setja innlánsstofnunum reglur um gengisbundnar eignir og skuldir þeirra (gjaldeyrisjöfnuð), svo og endurlánajöfnuð sem miði að því að hlutaðeigandi innlánsstofnanir skuli sjá til þess að slíkar eignir séu í jafnvægi þannig að gengisáhætta sé sem minnst. Seðlabankinn getur beitt innlánsstofnanir viðurlögum samkvæmt ákvæðum 41. gr. sé ákvörðunum bankans í þessum efnum ekki hlítt.


2. gr.

     2. mgr. 9. gr. laganna orðist svo:
     Seðlabankinn getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána að teknu tilliti til annarra tekna innlánsstofnana.
     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr. og orðist svo:
     Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti hjá innlánsstofnunum á grundvelli þessarar greinar getur bankinn, meðan sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra, bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum eignarleigufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur.

3. gr.

     33. gr. laganna orðist svo:
     Sérstök endurskoðunardeild skal starfa við bankann undir umsjón bankaráðs. Auk þess skal endurskoðun hjá Seðlabanka Íslands framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, og skal hann vera löggiltur endurskoðandi.

4. gr.

     Við 41. gr. laganna bætist nýr málsliður: Innheimt viðurlög samkvæmt þessari grein skulu renna að 3/ 4 hlutum til ríkissjóðs og skulu þau greidd 1. júní ár hvert fyrir næstliðið ár.

5. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður, liður VI, svohljóðandi:
     Innheimt viðurlög skv. 41. gr., sem lögð voru á á árinu 1988, skulu að 3/ 4 hlutum greiðast í ríkissjóð og skulu greiðast ríkissjóði 1. júní 1989.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. mars 1989.