Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1003, 111. löggjafarþing 432. mál: endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum.
Lög nr. 31 12. maí 1989.

Lög um endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum.


1. gr.

     Fyrir árslok 1990 skal lokið viðgerðum og endurbyggingu á Bessastaðastofu. Viðgerð og endurbyggingu annarra húsa, tengdra Bessastaðastofu, skal lokið fyrir árslok 1991.
     Þegar við gildistöku laga þessara skal gerð áætlun um framkvæmdir skv. 1. mgr. þessarar greinar. Þeirri áætlun skal lokið fyrir 1. júlí 1989.
     Á árinu 1989 er heimilt að verja allt að 45 milljónum króna úr ríkissjóði til verkefna skv. þessari grein.

2. gr.

     Gerð skal heildaráætlun um nýtingu lands og uppbyggingu mannvirkja á Bessastöðum fyrir árslok 1990.
     Til þessa verkefnis er heimilt að verja allt að 5 milljónum króna úr ríkissjóði á árinu 1989.

3. gr.

     Uppbyggingu og viðgerðum annarra mannvirkja en þeirra, sem 1. gr. tekur til, skal lokið innan sex ára frá gildistöku þessara laga.

4. gr.

     Forsætisráðherra skipar nefnd þriggja manna er annast undir yfirstjórn ráðuneytisins áætlanagerð skv. lögum þessum. Nefndin skal með sama hætti sjá um framkvæmdir skv. lögum þessum og gera fjárhagsáætlanir við undirbúning fjárlagagerðar.

5. gr.

     Framkvæmdaáætlun ásamt fjárhagsáætlun fyrir verkið í heild og greinargerð um framvindu verksins og áfallinn kostnað skal árlega lögð fyrir Alþingi við gerð fjárlaga uns framkvæmdum er lokið.

6. gr.

     Allur stofn- og viðhaldskostnaður skv. lögum þessum skal færast sem sérstakur liður í A-hluta fjárlaga og ríkisreiknings.

7. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 50 milljónum króna innan lands á árinu 1989 til þess að mæta kostnaði skv. lögum þessum.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. maí 1989.