[prenta uppsett í dálka]
Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.]


Þingskjal 1076, 111. löggjafarþing 208. mál: erfðalög (önnur erfð, óskipt bú o.fl.).
Lög nr. 48 16. maí 1989.

Lög um breytingar á erfðalögum, nr. 8 14. mars 1962, með síðari breytingum.

1. gr.
     1. mgr. 3. gr. laganna hljóðar svo:
     Ef arfleifandi á enga niðja á lífi tekur maki allan arf.

2. gr.
     7. gr. laganna hljóðar svo:
     Eftir lát annars hjóna á hitt rétt á að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja nema hið látna hafi mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram.

3. gr.
     8. gr. laganna hljóðar svo:
     Heimilt er því hjóna, sem lengur lifir, að sitja í óskiptu búi með ófjárráða niðjum látins maka síns, sem ekki eru niðjar þess, ef sá eða þeir sem fara með forsjá eða lögráð hinna ófjárráða niðja veita samþykki sitt til þess, enda hafi hið látna ekki mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ef það hjóna, sem lengur lifir, fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpniðja sinna á það þó rétt á setu í óskiptu búi eins og mælt er fyrir um í 7. gr.
     Því hjóna, sem lengur lifir, er heimilt að sitja í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum sínum ef þeir veita samþykki sitt til þess.
     Það hjóna, sem lengur lifir, á rétt á setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða, án þess að aflað sé samþykkis skv. 1. eða 2. mgr. ef hið látna hefur mælt fyrir um þann rétt í erfðaskrá.

4. gr.
     9. gr. laganna hljóðar svo:
     Því hjóna, sem lengur lifir, verður ekki veitt leyfi til að sitja í óskiptu búi ef bú þess er til gjaldþrotaskipta eða í ljós kemur að eignir þess hrökkva ekki fyrir skuldum. Sama er ef því verður ekki treyst til að hafa forræði bús vegna vanhirðu um fjármál sín.
     Ef það hjóna, sem lengur lifir, er svipt lögræði verður því ekki veitt leyfi til að sitja í óskiptu búi nema með samþykki yfirlögráðanda.

5. gr.
     10. gr. laganna hljóðar svo:
     Sá sem óskar setu í óskiptu búi skal sem fyrst eftir lát maka síns sækja um leyfi til þess hjá sýslumanni í því umdæmi þar sem búskipti eftir hinn látna fara fram.
     Í umsókn um leyfi til að sitja í óskiptu búi skal greina nöfn erfingja, kennitölur þeirra og dvalarstaði. Einnig skal yfirlit yfir eignir og skuldir beggja hjóna koma fram í umsókn eða sem fylgigagn með henni. Ef heimild til setu í óskiptu búi er háð samþykki annarra, sbr. 1. eða 2. mgr. 8. gr., skulu yfirlýsingar um samþykki vera ritaðar á umsókn eða fylgja henni. Ef réttur til setu í óskiptu búi byggist á erfðaskrá hins látna, sbr. 3. mgr. 8. gr., skal eintak hennar fylgja umsókn.
     Ef sýslumaður telur ástæðu til að ætla að ákvæði 9. gr. geti átt við um hagi þess sem sækir um leyfi til að sitja í óskiptu búi er honum heimilt að skipa ófjárráða erfingjum, sem umsækjandinn er forsjármaður eða lögráðamaður fyrir, sérstakan lögráðamann til að gæta hagsmuna þeirra.
     Telji sýslumaður umsækjanda fullnægja skilyrðum til að hljóta leyfi til að sitja í óskiptu búi skal hann veita leyfið og láta umsækjandanum í té skilríki fyrir því.

6. gr.
     11. gr. laganna hljóðar svo:
     Til óskipts bús teljast hjúskapareignir beggja hjóna og séreign sem samkvæmt ákvæðum laga eða kaupmála á að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu. Sjálfsaflafé og annað verðmæti, sem sá eignast sem situr í óskiptu búi, rennur til búsins nema það eigi að lögum að falla til séreignar hans.
     Arfur eða gjöf, sem langlífara maka hlotnast, rennur þó ekki inn í óskipt bú ef hann lýsir því fyrir sýslumanni innan tveggja mánaða frá því hann fékk vitneskju um arf eða gjöf að verðmæti þessi skuli ekki renna inn í óskipta búið. Verða þau þá séreign langlífara maka. Ber að halda þeim og annarri séreign aðgreindum frá eignum óskipta búsins.

7. gr.
     12. gr. laganna hljóðar svo:
     Maki, sem situr í óskiptu búi, hefur í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins. Ber hann ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða.

8. gr.
     14. gr. laganna hljóðar svo:
     Ef maki hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi með ófjárráða stjúpniðjum sínum á grundvelli 1. mgr. 8. gr., er honum skylt að skipta með sér og stjúpniðja, ef hann krefst skipta sér til handa innan þriggja mánaða frá því að hann öðlast fjárræði. Komi ekki krafa fram innan þess tíma getur fjárráða stjúpniðji, sem svo stendur á fyrir, krafist skipta sér til handa með sama hætti og segir í 2. mgr.
     Ef fjárráða stjúpniðji hefur samþykkt setu í óskiptu búi, sbr. 2. mgr. 8. gr., getur hann krafist skipta sér til handa með eins árs fyrirvara.

9. gr.
     Orðin „fyrir skiptaráðanda,„ í 1. mgr. 15. gr. laganna falla niður.

10. gr.
     16. gr. laganna hljóðar svo:
     Nú andast maður sem á erfðahlut inni í óskiptu búi og geta þá erfingjar hans aðeins krafist skipta sér til handa að því leyti sem hinum látna hefði verið það heimilt.
     Skuldheimtumenn erfingja geta ekki krafist búskipta.

11. gr.
     2. tölul. 2. mgr. 26. gr. laganna hljóðar svo:
     2. Ef það krefst skipta eftir 27. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972.

12. gr.
     31. gr. laganna hljóðar svo:
     Verðmæti, sem 29. og 30. gr. taka til, skal virða erfingja til frádráttar eftir gangverði þess þegar hann veitti því viðtöku, framreiknuðu til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað við arfskipti. Hafi gangverð verðmæta lækkað til muna, frá því að fyrirframgreiðsla átti sér stað, vegna atvika sem erfingjanum verður ekki um kennt skal þó ekki draga meira frá en sanngjarnt er svo að jöfnuður fáist með erfingjum.

13. gr.
     Í stað orðsins „skiptaráðanda“ í 1. málsl. 47. gr. laganna kemur „sýslumann“.

14. gr.
     1. mgr. 51. gr. laganna hljóðar svo:
     Um varðveislu kvaðaarfs fer sem um fé ólögráða manna, sbr. 39. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984.

15. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1989.

16. gr.
     Við lögin bætist ný grein, 63. gr., svohljóðandi:
     Ákvæði 1. mgr. 3. gr., 7.–10. gr., 16. gr. og 31. gr., eins og þeim er breytt frá 1. júní 1989, gilda ekki um lögerfðarétt, um setu í óskiptu búi eða um uppgjör fyrirframgreidds arfs eftir menn sem látnir eru fyrir þann tíma.
     Meðan lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o. fl., nr. 74/1972, eru enn í gildi skulu þeir menn, sem eru skiptaráðendur samkvæmt fyrirmælum þeirra laga, gegna því hlutverki sem sýslumönnum er falið með lögum þessum.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1989.