Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1308, 111. löggjafarþing 229. mál: sjúkraliðar (verkstjórn og starfsábyrgð).
Lög nr. 73 31. maí 1989.

Lög um breyting á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða.


1. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með stjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða hjúkrunareiningar og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.
     Þar sem hjúkrunarfræðingur hefur ekki fengist til starfa að undangenginni auglýsingu getur sjúkraliði borið ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem hlotið hefur viðurkenningu heilbrigðisráðuneytisins. Þó skal slík skipan háð samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og ekki standa lengur en eitt ár í senn og er þá skylt að auglýsa á ný eftir hjúkrunarfræðingi.
     Komi upp ágreiningur um ráðningu sjúkraliða samkvæmt 2. mgr. skal ráðuneytið skera úr um þann ágreining.
     Ráðherra ákveður í reglugerð um nám sjúkraliða og starfsemi Sjúkraliðaskóla Íslands.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 8. gr. hjúkrunarlaga, nr. 8/1974.
      Lög um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingum, skal endurskoða fyrir 1. janúar 1992.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.