Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1309, 111. löggjafarþing 439. mál: loftferðir (vinnuumhverfi áhafna).
Lög nr. 81 1. júní 1989.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 34/1964.


1. gr.

     Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Vinnuumhverfi áhafna loftfara, með átta greinum, 54. gr. A–H, svohljóðandi:

V. KAFLI A
Vinnuumhverfi áhafna loftfara.
     a. (54. gr. A)
     Ákvæði þessa kafla gilda um alla starfsemi sem áhöfn loftfars vinnur fyrir flugrekanda.
     Flugrekandi er sá sem fengið hefur leyfi samgönguráðherra til loftferðastarfsemi í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Með ákvæðum þessa kafla er leitast við að
  1. tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi,
  2. tryggja að flugrekendur og áhafnir geti sjálf í sameiningu leyst öryggis- og heilbrigðisvandamál um borð í loftförum.

     
     b. (54. gr. B)
     Flugrekandi skal stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi um borð í loftförum og að virkt eftirlit sé með því að vinnuumhverfi þar fullnægi settum kröfum.
     
     c. (54. gr. C)
     Hjá flugrekanda, þar sem starfa einn til fjórir flugverjar, skulu úrbætur á vinnuumhverfi gerðar í nánu samstarfi flugrekanda og áhafna.
     
     d. (54. gr. D)
     Hjá flugrekanda, þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri, skulu starfsmenn tilnefna einn öryggistrúnaðarmann fyrir hverja tegund loftfara eða annað afmarkað vinnusvæði til að vera fulltrúi sinn í málum sem varða vinnuumhverfi um borð í loftförum.
     Atvinnurekandi ber kostnað vegna starfs öryggistrúnaðarmanns og bætir honum tekjutap sem af því kann að hljótast.
     Öryggistrúnaðarmenn njóta þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1936, um stéttarfélög og vinnudeilur.
     
     e. (54. gr. E)
     Hjá flugrekanda, þar sem starfa fimm flugverjar eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd.
     Í öryggisnefnd eiga sæti tveir fulltrúar starfsmanna og tveir fulltrúar flugrekanda.
     Öryggisnefndin skipuleggur aðgerðir varðandi bætt vinnuumhverfi um borð í loftförum og annast fræðslu starfsmanna um þessi efni.
     
     f. (54. gr. F)
     Þegar starfsmenn flugmálastjórnar koma í eftirlitsferðir í fyrirtæki skulu þeir hafa samband við hlutaðeigandi öryggistrúnaðarmann og fulltrúa í öryggisnefnd. Þeim aðilum skal auðvelda svo sem kostur er að leggja mál fyrir flugmálastjórn.
     
     g. (54. gr. G)
     Samgönguráðherra setur nánari reglur um skipulag og framkvæmd ráðstafana er miða að auknu öryggi og bættum aðbúnaði og hollustuháttum um borð í loftförum, svo sem um stofnun samstarfshópa og öryggisnefnda, um verkefni þeirra og um daglega stjórn þeirrar starfsemi er lýtur að auknu öryggi og bættu vinnuumhverfi.
     
     h. (54. gr. H)
     Samgönguráðherra skipar vinnuverndarráð fyrir flugstarfsemi til fjögurra ára í senn.
     Verkefni ráðsins skal vera:
  1. Að vera ráðgefandi fyrir ráðherra og flugmálastjóra í málum varðandi vinnuumhverfi um borð í loftförum.
  2. Að gera tillögur og veita umsagnir um nýjar reglur eða breytingu á eldri reglum um vinnuumhverfi um borð í loftförum.
  3. Að fjalla um einstök mál, sem ráðherra eða flugmálastjóri leggja fyrir það, og eiga frumkvæði að málum sem hafa áhrif á vinnuumhverfi áhafna.

     Flugmálastjórn skal sjá um að þegar nauðsyn krefur standi ráðinu til boða sérfræðileg aðstoð.
     Vinnuverndarráðið er skipað fjórum fulltrúum frá áhöfnum og fjórum fulltrúum frá flugrekendum. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt. Flugmálastjóri eða fulltrúi hans situr fundi ráðsins ásamt þeim starfsmönnum flugmálastjórnar, sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir, með málfrelsi og tillögurétti.
     Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi ráðsins.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.