Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1004, 112. löggjafarþing 420. mál: Háskóli Íslands (stjórnsýsla).
Lög nr. 26 5. maí 1990.

Lög um breytingu á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. gr. laganna orðist svo:
     Stjórn háskólans er falin háskólaráði, rektor, deildum, deildarforsetum og framkvæmdastjórum stjórnsýslusviða.
     Háskólaráð hefur, svo sem lög mæla og nánar segir í reglugerðum, úrskurðarvald í málefnum háskólans og háskólastofnana, vinnur að þróun og eflingu þeirra og markar þeim heildarstefnu. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans, nema annað sé ótvírætt tekið fram í lögum eða reglugerðum.
     Háskólaráði er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru því til ráðgjafar og aðstoða við stefnumótun.
     Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og er æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki heildarstefnu í málefnum stofnunarinnar.
     Í umboði rektors, og svo sem lög mæla og nánar segir í reglugerðum, hafa framkvæmdastjórar stjórnsýslusviða yfirumsjón og eftirlit með hinni almennu stjórnsýslu háskólans, en deildarforsetar hafa eftirlit með starfi og stjórnsýslu deilda.
     Svið hinnar almennu stjórnsýslu skulu vera: Fjármálasvið, samskiptasvið, starfsmannasvið, bygginga- og tæknisvið, rannsóknasvið og kennslusvið. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs ber heitið háskólaritari. Hann hefur í umboði rektors og háskólaráðs heimild til að skuldbinda háskólann og háskólastofnanir fjárhagslega, hefur yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar háskólans og framkvæmd hennar samkvæmt fjárlögum og hefur umsjón með sjóðum hans. Ábyrgðarsvið annarra framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða skulu afmörkuð í reglugerð.
     Rektor, deildarforsetar og framkvæmdastjórar stjórnsýslusviða leysa úr þeim málum sem þurfa ekki að koma fyrir háskólaráð, háskóladeildir eða stjórnvöld af laganauðsyn eða samkvæmt venju.
     Áður en lögum og reglugerðum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið skal leita umsagnar háskólaráðs um breytingar eða viðauka, svo og um nýmæli. Nú varðar málefni sérstaklega eina deild og skal háskólaráð þá leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína.
     Háskólinn á stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.

2. gr.

     1. mgr. 4. gr. laganna orðist svo:
     Í háskólaráði eiga sæti rektor, forsetar háskóladeilda, tveir fulltrúar kjörnir til tveggja ára í senn í skriflegri atkvæðagreiðslu á vegum Félags háskólakennara úr hópi þeirra félagsmanna, sem ekki eru kjörgengir til starfa deildarforseta, og fjórir fulltrúar stúdenta, kjörnir hlutfallskosningu í sérstökum kosningum til tveggja ára í senn. Kjörinn skal einn fulltrúi Félags háskólakennara og tveir fulltrúar stúdenta árlega. Einnig eiga setu á fundum ráðsins háskólaritari og einn kjörinn fulltrúi starfsmanna í stjórnsýslu. Rektor er forseti ráðsins, en varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi deildarforseta til eins árs í senn.

3. gr.

     1. mgr. 7. gr. laganna orðist svo:
     Háskólaráð ræður framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða til fimm ára í senn. Rektor ræður annað starfslið almennrar stjórnsýslu eftir því sem fé er veitt til. Deildarforsetar ráða starfslið einstakra deilda að höfðu samráði við rektor og eftir því sem fé er veitt til.

4. gr.

     8. gr. laganna orðist svo:
     Heimilt er að kveða nánar á í reglugerð um starfssvið og starfshætti háskólaráðs, rektors og framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða. Háskólaráð setur öðru starfsliði stjórnsýslu erindisbréf.

5. gr.

     Framan við 9. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 8/1985, bætist ný málsgrein sem orðist svo:
     Háskóladeildir eru grunneiningar háskólans. Innan þeirra fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfráðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja. Reglubundið mat skal fara fram á starfi deilda.
     Í upptalningu á deildum í 2. mgr. (núverandi 1. mgr.) breytist nafn viðskiptadeildar í viðskipta- og hagfræðideild.

6. gr.

     4. og 5. mgr. 14. gr. laganna orðist svo:
     Heimilt er að ákveða í reglugerð að deild sé skipt í skorir eftir kennslugreinum og fjalli hver skor um málefni kennslugreinarinnar eftir því sem nánar segir í reglurgerð. Enn fremur eiga þar sæti tveir fulltrúar stúdenta í skor þar sem tala annarra, sem rétt hafa til fundarsetu með atkvæðisrétti, er átta eða færri og síðan einn fulltrúi stúdenta fyrir hverja fimm til viðbótar.
     Heimilt er að setja ákvæði í reglugerð um stjórnunarnefnd í háskóladeild (deildarráð) og skal þá m.a. kveða á um fjölda nefndarmanna, starfssvið og starfshætti. Í deildarráði skulu sitja tveir fulltrúar stúdenta þar sem tala annarra, sem rétt hafa til fundarsetu með atkvæðisrétti, er átta eða færri og síðan einn fulltrúi stúdenta fyrir hverja fimm til viðbótar. Heimilt er háskóladeild á fundi að afsala sér ákvörðunarvaldi í tilteknum málum eða málaflokkum til slíkrar stjórnarnefndar og afturkalla heimildina að því er varðar mál er eigi hafa hlotið afgreiðslu í nefndinni.

7. gr.

     Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Deildarforseti hefur yfirumsjón með að ákvarðanir deilda og deildarráðs séu framkvæmdar. Hann er yfirmaður stjórnsýslu deildar. Hann hefur frumkvæði að mótun heildarstefnu fyrir deild, gerð fjárhagsáætlunar og forgangsröð verkefna. Hann hefur eftirlit með notkun fjárveitinga. Hann skal stuðla að samstarfi og samræmingu við aðrar deildir og stjórnsýslusvið.

8. gr.

     16. gr. laganna orðist svo:
     Hver deild eða námsbraut semur kennsluskrá fyrir sig og skal þar gerð grein fyrir námsefni, kennsluháttum, prófkröfum, stjórn deildar- og námsbrautamála og félagsmálum stúdenta. Við hverja deild, skor og námsbraut skulu starfa ráðgefandi námsnefndir sem jafnmargir kennarar og nemendur eiga sæti í. Hlutverk námsnefnda er að fjalla um tillögur um námsefni í hverri kennslugrein, semja umsagnir og tillögur um námsskipan og kennslufyrirkomulag greinar.

9. gr.

     Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Deildarforsetar eiga rétt á að vera leystir undan skyldum í sínu fasta starfi að nokkru eða öllu leyti. Rektor ákveður með samþykki menntamálaráðherra hvernig ráðstafa skuli starfsskyldum þeirra.

10. gr.

     Á eftir 3. mgr. 36. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 8/1985, bætast tvær nýjar mgr. svohljóðandi:
     Heimilt er háskólaráði, að fenginni staðfestingu menntamálaráðherra, að starfrækja endurmenntunarstofnun er hafi að meginhlutverki að standa fyrir endurmenntun háskólamanna. Slík endurmenntunarstofnun starfi í nánum tengslum við allar deildir háskólans. Háskólaráð getur heimilað að félög háskólamanna og aðrir skólar á háskólastigi taki þátt í stjórn stofnunarinnar, að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Nánar skal kveðið á um starfssvið og stjórn slíkrar stofnunar í reglugerð.
     Við Háskóla Íslands skal starfrækt námsráðgjöf sem sérstök háskólastofnun. Háskólaráð setur reglur um stjórn stofnunarinnar og starfsemi.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skal þá fella ákvæði þeirra inn í meginmál laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, með áorðnum breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 23. apríl 1990.