Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1081, 112. löggjafarþing 363. mál: Listskreytingasjóður ríkisins (heildarlög).
Lög nr. 71 11. maí 1990.

Lög um Listskreytingasjóð ríkisins.


1. gr.

     Listskreytingasjóður ríkisins hefur það markmið að fegra opinberar byggingar og umhverfi þeirra með listaverkum og stuðla þannig að listsköpun í landinu.
     Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og eigin stjórn sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum. Málefni sjóðsins heyra undir menntamálaráðuneytið.

2. gr.

     Opinberar byggingar merkja í lögum þessum allar byggingar sem ríkissjóður fjármagnar að nokkru eða öllu leyti. Undanþegnar eru þó byggingar sem reistar eru til bráðabirgða, byggingar sem standa fjarri alfaraleið, skemmubyggingar og aðrar sambærilegar byggingar. Að jafnaði skal miða við að bygging, sem listskreyta á, sé að einhverju eða öllu leyti í eigu ríkisins.
     Heimilt er að veita úr Listskreytingasjóði styrki vegna listskreytingar bygginga sem reistar eru á vegum ríkisstofnana er hafa sjálfstæðan fjárhag og eru því ekki háðar beinni fjárveitingarákvörðun Alþingis um byggingarframkvæmdir. Heimilt skal einnig að veita úr sjóðnum styrki vegna listaverka sem komið er fyrir á almannafæri á vegum ríkis eða sveitarfélaga þótt ekki sé í beinum tengslum við opinberar byggingar. Nánari ákvæði um styrkveitingar samkvæmt þessari málsgrein skal setja í reglugerð.

3. gr.

     Tekjur sjóðsins eru:
  1. Árlegt framlag ríkisins.
  2.      Framlagið nemur 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta fjárlaga til þeirra bygginga sem ríkissjóður stendur að einn eða með öðrum (sveitarfélögum o.s.frv.), sbr. 4. gr. Til byggingar telst föst innrétting.
  3. Vaxtatekjur.
  4. Aðrar tekjur.


4. gr.

     Framlag ríkissjóðs skv. 1. tölul. 3. gr. skal vera sérliður á fjárlögum og ákvarðast í samráði við byggingardeild menntamálaráðuneytisins og Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
     Greiða skal til Listskreytingasjóðs eigi minna en 1/ 12 árlegs framlags á mánuði, hvert fjárlagaár, og skal uppgjöri ríkisins við sjóðinn lokið fyrir 10. desember ár hvert.

5. gr.

     Stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins skal skipuð af menntamálaráðherra, þannig: Tveir menn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra myndlistarmanna, einn samkvæmt tilnefningu Arkitektafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og formaður, skipaður án tilnefningar.
     Stjórnina skal skipa til tveggja ára í senn.
     Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Afl atkvæða ræður úrslitum mála í sjóðstjórn. Halda skal gerðabók um stjórnarfundi.
     Menntamálaráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna sem greiðist úr sjóðnum ásamt öðrum kostnaði við starfsemi hans.

6. gr.

     Þegar ákveðið hefur verið að reisa mannvirki sem lög þessi taka til skulu arkitekt mannvirkisins og byggingarnefnd, sem hlut á að máli, hafa samband við stjórn Listskreytingasjóðs þannig að byggingin verði frá öndverðu hönnuð með þær listskreytingar í huga sem ráðlegar teljast. Í kostnaðaráætlun um slíkar byggingar skal jafnan gert ráð fyrir listskreytingu með hliðsjón af lögunum.

7. gr.

     Stefnt skal að því að um meiri háttar verkefni á sviði listskreytinga fari fram opinber samkeppni í samræmi við reglur Sambands íslenskra myndlistarmanna. Heimilt skal sjóðstjórn að ákveða að samkeppni um listskreytingu skuli opin listamönnum á Norðurlöndum, svo og í öðrum þeim löndum þar sem íslenskir myndlistarmenn njóta sömu réttinda.
     Með listskreytingu er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og hvers konar listræna fegrun.
     Skal leitast við að dreifa verkefnum milli listgreina þannig að í hverri byggingu séu fleiri en ein tegund listskreytinga.

8. gr.

     Sjóðstjórnin skal samþykkja fyrirhugaða listskreytingu þeirra mannvirkja sem lög þessi taka til og hvernig staðið skuli að framkvæmdum í samvinnu við arkitekt byggingar og byggingarnefnd hennar. Stjórnin getur kvatt sérfróða menn til aðstoðar við einstök verkefni.

9. gr.

     Heimilt er, eftir því sem fjárhagur sjóðsins leyfir, að verja úr honum fé til listskreytingar bygginga sem þegar eru fullbyggðar og skal þá hafa samráð við arkitekt byggingarinnar ef þess er kostur.

10. gr.

     Verja má úr Listskreytingasjóði til listskreytingar bygginga, sem lög þessi ná til, fjárhæð sem svarar til 1% álags á framlög ríkisins til hlutaðeigandi byggingar, miðað við verðlag á þeim tíma er styrkveiting er ákveðin. Heimilt er þó sjóðstjórn að verja hærri fjárhæð en þessu svarar ef sérstakar ástæður þykja til og fjárhagur sjóðsins leyfir.
     Þegar um er að ræða byggingar sem sveitarfélög, eitt eða fleiri, standa að ásamt ríkinu er stjórn Listskreytingasjóðs heimilt að binda framlag úr sjóðnum til listskreytingar skilyrði um mótframlag af hálfu hlutaðeigandi sveitarfélaga. Sama gildir um framlög vegna bygginga á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag, sbr. 2. mgr. 2. gr.
     Stjórn Listskreytingasjóðs er heimilt að veita styrk úr sjóðnum vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listskreytingar, svo sem samkeppni eða gerð viðamikilla líkana.
     Um heimild sjóðstjórnar til að endurskoða fjárhæð framlaga vegna verðbreytinga, sem verða frá því að framlag er ákveðið og þar til það kemur til greiðslu, svo og um afturköllun framlaga sem ekki eru nýtt innan tiltekinna tímamarka, má ákveða í reglugerð.

11. gr.

     Stjórn Listskreytingasjóðs getur hvort heldur óskað eftir að gerð séu ný listaverk eða keypt fullgerð listaverk eða listaverk sem unnið er að. Heimilt er að kaupa listaverk frá Norðurlöndum og öðrum löndum, enda séu gagnkvæm réttindi í samskiptum milli landanna á þessu sviði.

12. gr.

     Nú hefur verið veitt framlag úr Listskreytingasjóði til listskreytingar í eða við tiltekna byggingu. Skal þá óheimilt að flytja listaverk, sem framlagið miðast við, varanlega úr byggingunni eða frá henni, nema með samþykki stjórnar sjóðsins á grundvelli nýrrar umsóknar.
     Óheimilt er að selja listaverk sem notið hefur framlags úr Listskreytingasjóði nema með samþykki sjóðstjórnar, enda sé þá samið um endurgreiðslu framlagsins í sjóðinn.
     Setja skal í reglugerð ákvæði um merkingar listskreytinga sem sjóðurinn veitir framlag til.

13. gr.

     Semja skal við bankastofnun um að annast fjárvörslu Listskreytingasjóðs og skal þess gætt að hann njóti jafnan bestu vaxtakjara. Heimilt skal stjórn sjóðsins, með samþykki menntamálaráðuneytisins, að semja við félagasamtök, sem aðild eiga að sjóðnum, um að annast rekstur hans að öðru leyti.
     Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skulu rekstrar- og efnahagsreikningar endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun árlega og birtir í Stjórnartíðindum.

14. gr.

     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins.

Samþykkt á Alþingi 27. apríl 1990.